Ég fer stundum í hugleiðslu til að róa hugann og ekki veitti af í upphafi desembermánaðar. Ég var orðin þreytt og streytt og sjálf jólavertíðin að mestu leyti eftir. Ég er skorpukona í öllu sem gerir mér gott en með langtíma legu í bæði fúllyndi og gremju. Ég þarf því oft að hafa mikið fyrir því að kippa mér aftur í gírinn svo ég sé húsum hæf og fólki bjóðandi. Þá fer ég stundum í hugleiðslu niður í bæ með fólki sem ég þekki ekki neitt. Þótt ég gefi álíka af mér líkt og þungur steinn við fyrstu kynni þá vil ég trúa því að þegar þú kynnist mér vel að þá er ég ágætis grey og raungóður vinur.
Þrautseigar fitufrumur
Jólin eru tíminn sem maður er venjulega búinn með alla orku eftir annasamt ár en á sama tíma eru bæði innri og ytri streituvaldar að gera kröfur um botnslausa keyrslu í fimmta gír. Við látum glepjast ár eftir ár. Þetta er hátíð óraunhæfra væntinga með fallegum dúk á borði. Þetta er líka venjulega tíminn sem maður áttar sig á að kílóin sem áttu að hverfa þetta árið sitja enn sem fastast því annaðhvort gerðir þú ekki raunhæfa aðgerðaráætlun varðandi breytta siði í upphafi árs, eða þú ert á breytingarskeiðinu sem gefur þér hlægjandi og illkvittnislega fingurinn á hverjum degi. Ég hef hent öllum breytingum á líkama mínum undanfarið á afleiðingar breytingaskeiðsins og firrt mig þannig ábyrgð. Ég hef líka talið mér trú um að ég deili líkama með áberandi þrautseigum fitufrumum sem þýðir að þrátt fyrir hressilegt fitusog á maga og hliðum þá fundu þær sé bara leið upp á upphandleggi. Nakin er ég með þvottabretti fyrir maga en vænghaf líkt og íslenskur haförn, þó með ögn skvapkenndari blæ.
Hringurinn
Ég hafði ekki mætt í hugleiðsluhópinn í langan tíma og var búin að gleyma að á föstudögum í hádeginu er tíminn með breyttu sniði. Það er setið í hóp og fólki er boðið að deila líðan sinni og áskorunum líðandi stundar. Þetta eru venjulega þær aðstæður sem ég forðast mest. Mér þykir gott að sitja innan um fólk í þögn en þegar ég deili einhverju persónulegu með fólki sem ég þekki ekki þykir mér ég óþægilega berskjölduð og hef stöðugt áhyggjur af því að ég hitti fyrir áhangendur eitraðrar jákvæðni eða andlegrar afvegaleiðingu. Þeirra sem telja að allt slæmt eigi sér ástæðu og gildan tilgang. Ég þoli ekki þannig fólk og forðast það eins og heitan eldinn. Ég saup því hveljur þegar ég kom inn í hugleiðslusalinn og sá að mottunum var búið að raða upp í hring. „Andskotinn!“ hugsaði ég sem almennt er ekki góð byrjun þegar fínstilla skal streitu og leiðindi. Ég lét hinsvegar til leiðast og staulaðist inn í hringinn með félagsfýluna mína í eftirdragi. Hringurinn var þéttskipaður konum enda þykir það mjög kvenlegt að taka innlit í eigin garð, orða það við ókunnuga og vera yfirþyrmandi þakklát. Það sótti að mér kvíði.
Konurnar voru hverri annari fallegari að sál og birtu. Þetta voru konur sem sátu vel í sér og sáu kærleikann í öllu. Og svo var það ég, sískeptískur brúnaþungur samfélagsrýnir með súran svip og skvapkennda upphandleggi. Þær hófu að tjá sig um líðan sína og gerðu það lista vel. Ég öfundaði hvað þær voru hæfar í að koma tilfinningum sínum í orð. Hringurinn hélt áfram og ég hlustaði einbeitt á þær á sama tíma og ég ofhugsaði hvað ég ætti að segja sem virkaði ekki of mikið né of lítið. Ég vildi hvorki líta út fyrir að vera tilfinningarúnkari við sprengjumark eða kaldranalegur hrokagikkur þótt seinni lýsingin eigi betur við mig á slæmum dögum.
Að lokum kom að mér og á sömu stundu laust hugsuninni skýrt og skilmerkilega niður til mín. Ég hauf raust mína og sagði:
-„Ég er þakklát fyrir að geta mætt takmörkunum mínum með þolinmæði, skilningi og húmor.“
Um hringinn fór samkenndarfullt og skilningsríkt „ahhh“ líkt og ég hefði kjarnað eitthvað sem marga langar. Ég andaði léttar og sá marga velþóknandi og jánkandi svipi í minn garð. Ég fór úr hugleiðslunni hugsandi um hversu takmörkuð ég væri á mörgum sviðum.
Frk. Ófullkominn
Þegar ég upplifi aðstæðubundið getuleysi get ég verið óþreyjufull, óþolinmóð, ósanngjörn og í raun bölvuð ótugt. Ég get verið hrokafull, kaldranaleg og þyki almennt langrækin með eindæmum. Þegar ég er kvíðin þá get ég verið ofurviðbrigðin, vænisjúk og óþolandi oftúlkandi. Á góðum degi gef ég almennt frekar lítið af mér og það eru til fleiri en þrír sem þola mig ekki. Ekkert af þessu eru fréttir fyrir mig því ég er meðvitaðri en flestir um takmarkanir mínar. Þetta er sjaldgæfur eiginleiki í sjálfhverfum heimi sem færir mér hugarró og ég hvíli einkar vel með þessa vitneskju. Ég set þetta svona hispurslaust í orð því í upphafi hvers árs byrja þrálát áreiti að reyna að sannfæra okkur um að það eigi að vera æðsta markmið tilvistar okkar að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Samhliða er svo framleiddur allskonar tilgangslaus varningur sem á að gera þér auðvelda fyrir að ná því markmiði. Í þeim vítahring endar þú alltaf á að eltast við skott þeirra sem er skítsama um þig. Eftir fertugt ákvað ég að vera ekki að rembast lengur við að verða besta útgáfan af sjálfri mér. Ég var alltaf að valda mér vonbrigðum. Þetta var bæði tímaeyðsla og endalaust langhlaup sem engin hefur í raun úthald í. Ég ákvað hinsvegar að kynnast og vingast við takmarkanir mínar og síðan hef ég lifað við skemmtilega undarlega hugarró og sjarmerandi sálarfrið. Ég er takmörkuð á margvíslegum sviðum og hef húmor fyrir því. Ekki misskilja mig, ég hleyp reglulega með sjálfa mig í gönur en sterk meðvitund um takmarkanir mínar gerir það að verkum að ég er fljót að kippa mér aftur á jörðina og minna mig á að ég er bara fín í heimi sem er að keyra sig út við vera frábær.
Þessi jólin ætla ég ekki að skreyta mikið. Ég ætla ekki að baka neitt heldur kaupa allt tilbúið. Ég ætla ekki að þrífa baki brotnu heldur mögulega bara moppa. Lítill innsti hringur fær fallegar jólagjafir og aðrir fá ágætt hugskeyti, ef ég man eftir því. Ég ætla að éta allt sem kjafti kemst næst og ekki voga mér að hafa samviskubit. Ég ætla að ögra allri víddarhugsun og leyfa mér að tölta kæruleysislega áfram í meðalmennskunni. Ég mun ekki taka óaðfinnanlega samfélagsmiðlamynd því á þessari hátíð brauðs og sykurs breytist ég ávallt tímabundið í krúttaralega kolvetnishjúpaða barbídúkku. Ég verð líkt og hin girnilegasta kótelletta í raspi. Myndin verður því ekki frábær heldur fín og það er barasta nógu gott. Ég aðlaga mig ekki lengur að umhverfinu heldur skapa mitt umhverfi sjálf. Það er fegurð og hugarró falin í uppgjöfinni. Ég hlakka til jólanna minna og óska þess kæri lesandi að þú upplifir jólin á þínum forsendum, hverjar svo sem þær eru.
Gleðileg jól og bestu þakkir fyrir lesturinn á árinu.
Athugasemdir (1)