Snertilausar greiðslur í Strætó
Að geta greitt með korti í Strætó einfaldar líf fólks sem nýtir sér Strætó stundum. Þjónustan virðist virka eins og til er ætlast, sem er hressandi tilbreyting. Mun eflaust ýta undir að ferðamenn noti vagnana til að fara um höfuðborgarsvæðið.
Eftir nokkurra ára fyrirheit kynnti Strætó bs. í upphafi vikunnar að nú væri hægt að borga snertilaust með greiðslukorti í almenningsvögnum á höfuðborgarsvæðinu. Loksins, loksins, sögðu margir, eðlilega, enda hefur verið beðið eftir þessu um nokkra hríð.
Innleiðing Klappsins, smáforritsins og búnaðarins um borð í vögnunum sem leysti af hólmi fyrra miðasölukerfi Strætó, gekk brösuglega eftir að það var kynnt til sögunnar í upphafi árs 2022.
Fjölmargir lýstu yfir óánægju með nýju greiðslulausnina og enn í dag er notkun Klappsins til vandræða, það er hending ef það tekur minna en 10 sekúndur fyrir hvern farþega að skanna sig inn í vagninn með miðakóðanum á skjánum á símanum. Þegar fleiri en þrír eru á leið inn í vagn á sömu stoppistöð og allir nota símann getur tafatíminn því orðið nokkur, öllum til ama.
Klapp-plastkortin virka betur, en þá þarf maður að muna eftir því að taka þau með sér og á okkar tímum, þar sem stærstur hluti ungs fólks er ekki með fýsískt veski á sér heldur allt í símanum er ljóst að það hentar ekki öllum að vera með plastkort í fórum sínum.
Eldsnögg snertilaus greiðsla
Það var því mjög ánægjuleg upplifun að stíga inn í vagn númer 14 á Langholtsvegi í morgun og greiða snertilaust með símanum, eitt fargjald, 650 krónur. Um leið og ég færði símann upp að Klapp-skannanum heyrðist stutt píp og á sama tíma skaust skiptimiði upp úr prentara við hlið bílstjórans. Búinn að greiða!
Ég áttaði mig ekki á skiptimiðanum, en bílstjórinn kallaði á eftir mér, rétti mér litla hvíta miðann og útskýrði svo að hann gæti ég notað til þess að taka annan strætó fyrir þá tímasetningu sem á hann væri prentuð. Þetta er hins vegar ekki alveg rétt, því á vef Strætó stendur að maður þurfi að alltaf að skanna kortið sitt þegar maður stígur inn í vagninn. Ef maður skannar sama kortið innan við 75 mínútum frá kaupum á miða, þá er ekki rukkað fyrir nýjan miða.
Hvað sem þessu líður, þá er þetta mikil framför fyrir fólk sem notar stundum strætó, en kannski ekki nógu oft til að það borgi sig að vera með áskrift eða árskort. Það er hægt að ganga inn í strætisvagn, skanna kortið og setjast í sætið. Engin vandamál.
Gott fyrir ferðamenn og vagnstjóra
Þetta mun örugglega létta mörgum ferðamanninum á höfuðborgarsvæðinu lífið og koma í veg fyrir margvíslegt áreiti sem bílstjórar vagnanna verða fyrir vegna vandræða fólks sem nær ekki að tjónka við Klappið. Hver hefur ekki tekið strætó og séð hóp ferðafólks í hrókasamræðum við vagnstjóra um hvernig þeir eigi að sækja appið?
Til viðbótar má nefna að ef fólk notar alltaf sama kortið til að kaupa strætómiðana er greiðsluþak í gildi og aldrei rukkað fyrir fleiri en 3 ferðir á dag (1.950 kr.) eða 9 ferðir á viku (5.850 kr.).
Einn miði og engin afsláttargjöld
Það eru þó ákveðnar takmarkanir á þessu kerfi. Einungis er hægt að greiða fyrir einn miða í einu með sama kortinu og einnig er einugis hægt að greiða fyrir fullorðinsfargjald.
Þau sem njóta afsláttarkjara í almenningsvagnana þurfa áfram að nýta Klapp-appið eða kortið til að greiða fyrir miðana, vilji þau nýta afsláttarkjörin.
Þrátt fyrir þessar takmarkanir er innleiðing snertilausra greiðslna í öllu hressandi tilbreyting: Strætó hefur kynnt til sögunnar nýjung í þjónustu sinni sem bætir upplifun notenda og virðist virka eins og til er ætlast. Það er kannski fáránlegt að maður sé að hrósa því sérstaklega, en þetta er frekar hressandi, svona í svartasta skammdeginu.
Athugasemdir