Margir vinna nú að því hörðum höndum að skapa töfra jólanna. Útkoman er þó ekki alltaf sú sem lagt var út með.
Þegar grunnskóli einn í Hampshire á Englandi bað á dögunum þorpsprestinn um að heimsækja skólann og segja krökkunum frá fæðingu Jesú töldu kennararnir sig skapa börnunum huggulega jólastund. Uppi varð hins vegar fótur og fit þegar presturinn hélt því fram að jólasveinninn væri ekki til og kvað það foreldra sem keyptu gjafirnar frá sveinka og borðuðu smákökurnar sem börnin skildu eftir handa honum.
Fjöldi barna brast í grát. Kvörtunum foreldra rigndi yfir skólann. Kennarar reyndu hvað þeir gátu að „endurvekja töfra“ jólanna en foreldrar sögðu prestinn hafa eyðilegt jólin.
Tilgangslaus handtök
Fyrir tæpum hundrað árum spáði hagfræðingurinn John Maynard Keynes því að árið 2028 yrði vinnuvikan ekki nema 15 klukkustundir. Vegna tækniframfara og aukinnar skilvirkni þyrfti ekki meira til að fullnægja þörfum okkar.
Keynes reyndist sannspár um aukna skilvirkni. Samkvæmt rannsókn afkastar starfsmaður á skrifstofu jafnmiklu á einni og hálfri klukkustund og kollegi hans gerði á heilum vinnudegi árið 1970. Enn bólar hins vegar ekkert á 15 stunda vinnuvikunni.
Skoðanakönnun sem var gerð í Bretlandi árið 2015 sýndi að 37% fólks á vinnumarkaði taldi starf sitt vera með öllu óþarft. Árið 2018 skrifaði breski mannfræðingurinn David Graeber metsölubókina „Bullshit Jobs“ – bull störf – byggða á könnuninni þar sem því er haldið fram að meira en helmingur starfa í nútímasamfélagi séu fullkomlega tilgangslaus.
En það er ekki aðeins á vinnumarkaði sem við virðumst fylla það andrými sem skapast fyrir tilstilli aukinnar skilvirkni með tilgangslausum handtökum og „bull“ verkum.
Gæs í jólakæfu
Í síðustu viku skrifaði þriggja barna móðir opið bréf til skóla og frístundasviða á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún lýsti því álagi sem óhóflegur fjöldi jólaviðburða fyrir börn og foreldra ylli fjölskyldum. „Tökum sem dæmi fjölskyldu með 3 börn; hvert barn er í tveimur tómstundum og það er einhver jólasamkoma í hverri tómstund og skólanum fyrir hvert barn. Það þýðir 9 samkomur þar sem foreldrar þurfa að mæta og mögulega taka þátt í líka sem sjálfboðaliðar á um það bil þriggja vikna tímabili.“
Bréfið vakti sterk viðbrögð hjá foreldrum sem sögðust „föst með tilfinninguna að vera að missa bolta allan desembermánuð“. Þeir kváðust langt frá því að ná utan um „allt sem skólinn, frístund og tómstundirnar bjóða upp á ... alla tónleikana, jólaföndrið, þemadagana, samveruna, sýningarnar, pálínuboðin. „Hvenær á fólk að slappa bara af? (Lesa, spjalla, heyra eigin hugsanir).“ „Ég er að breytast í Grinch sem er mjög óheppilegt því ég elska aðventuna.“
Síðustu ár glitti í von um að ná mætti böndum á öfgum jólanna. Það þurfti ekki lengur að baka tíu sortir. Steiking laufabrauðs var gerð valfrjáls. Rauðkálið varð ekki að vera heimagert. Ekki heldur jólakransinn. Það voru ekki lengur helgispjöll að bíða með þrif á skápum og gardínum fram í janúar. Piparkökuhús urðu æ sjaldséðari.
En ekki leið á löngu uns svigrúmið sem hafði myndast fylltist af nýjum jólahefðum. Í stað þess að neyta áttum við að njóta. Í stað þess að gera áttum við að vera. Náðarstundum er nú troðið ofan í kokið á okkur eins og gæs sem fituð er fyrir jólakæfu.
Eftir að presturinn stal jólunum í skóla í Hampshire leituðust kennarar við að telja börnunum trú um að „allar sögur og goðsagnir tengdar jólum“ ættu jafnmikinn rétt á sér og „það sem börnin og fjölskyldur þeirra kysu að leggja trúnað á, væri jafnrétthátt og hin kristna jólasaga“.
Mannlegt samfélag virðist ekki geta liðið einstaklingnum eitt einasta ónýtta andartak. Sé ekkert að gera fyllist tími fólks samstundis af „bull“ verkum sem gefið er gervi mikilvægi.
Það sem á að tendra töfra jólanna er nú það sem slekkur þá. Brýn þörf er á að við semjum nýja jólasögu. Sú saga gæti hljóðað svo: Tólf mánuðir eru í árinu; það þarf ekki allt að gerast í desember.
Athugasemdir (3)