Sem rithöfundur hef ég í árafjöld heimsótt grunnskóla víða um land og talað við börn um bækur, sögur og tungumál. Í lokin spyr ég oft sömu spurningar: Hvað er það sem gerir okkur að einni þjóð? Við eigum ekki forn musteri og píramída en við eigum eitt stórt sameiningartákn. Hvað er það? Svarið sem ég leita eftir er tungumálið. En langoftast fæ ég þó annað svar: Það er náttúran. Þannig svara börnin. Náttúran er sameiningartáknið okkar. Oft spinnast af þessu áhugaverðar umræður um gildin og tilvistina. Það eru samtöl sem enda stundum á þeirri niðurstöðu að tungumálin breytist, komi og fari en að náttúruna verðum við að eiga til að lifa af. Af og til mótmæli ég þó í nafni tungumálsins og segi að það skilgreini okkur sem þjóð, en þau svara á móti að ekkert skipti máli ef við eigum ekki náttúruna. Þá erum við ekkert. Þetta segja börnin.
Grænþvottahúsin
Við stöndum frammi fyrir stóraukinni ásælni í náttúruauðlindir. Fjárfestar hafa uppgötvað þá gullkistu sem orkuframleiðsla getur verið á frjálsum markaði. Til þess að framleiða orku þarf svo alltaf að fórna náttúru. Það er óhjákvæmilegt. Og hagsmunaöflin hanna nýorðasöfn. Mengandi laxeldisverksmiðjur eru kallaðar bláu akrarnir og vindtúrbínur í risavöxnum orkuverum eru myllur í lundum og rjóðrum. Svo er talað um grænorku þegar engin orkuöflun er í raun alfarið grænn kostur og margir kostirnir eru stálgráir og löðrandi í grænsápu grænþvottahúsa.
„„Á móti framtíðinni,“ sagði talsmaður sem vill klára alla náttúrusjóði sem fyrst
Í pólitísku landslagi liðinna missera hafa grænþvottahúsin fært út kvíarnar með dyggum stuðningi stjórnvalda. Stjórnsýsla og ráðuneyti hafa opnað dyr sínar fyrir sölufulltrúum hagsmunaafla sem kenna sig við atvinnulíf og iðnað. Um leið erum við öll hluti af atvinnulífi og ýmiss konar iðnaði. Við tilheyrum öll stærri og minni fyrirtækjum til sjávar og sveita þótt við séum alls ekki öll aðilar að tilteknum samtökum. Og víða um land er raunveruleg atvinnustarfsemi í miklu uppnámi vegna orkuásælni. Langvarandi fjárhagstjón og samfélagsskaði liggur eins og myrkur yfir sumum sveitum þar sem vindorkuáform vofa yfir og breyta á landi í iðnaðarsvæði. Þar eru samtök atvinnulífs víðs fjarri gagnvart allri fjölbreyttri starfsemi svo sem ferðaþjónustu og manneskjur berjast við misburðugar sveitarstjórnir sem standa sumar alls ekki með samfélagi og náttúru.
„Svo er talað um grænorku þegar engin orkuöflun er í raun alfarið grænn kostur og margir kostirnir eru stálgráir og löðrandi í grænsápu grænþvottahúsa
Náttúrufórnir
Hagsmunaöfl stórfyrirtækja hafa stillt sér upp á milli þings og þjóðar. Vinir og velunnarar fá hvalveiðileyfi. Nýkjörnir þingmenn fá laxeldisleyfi. Áróðursmaskínan er stór og her manns á háum launum við að dreifa hræðsluáróðri um skelfilegan orkuskort og raforkuverð sem eingöngu lækki með því að virkja sem mest og reisa einkarekin vindorkuver hringinn í kringum landið í skjóli erlendra risafyrirtækja. Auðvitað verður náttúru fórnað, en það er fyrir plánetuna. Orkukórinn kyrjar möntrurnar í fjölmiðlum almennings sem lepja oftast upp gagnrýnislaust. Orkuskiptin eru yfirvarpið þótt allir viti að nýjar virkjanir muni einungis þjóna nýjum stórnotendum sem standa alltaf í röðum og flytja svo afraksturinn úr landi. Það er botnlaus hít.
Orkuóreiðan
Þó er það nú svo að á Íslandi ríkir ekki orkuskortur heldur mikil orkuásælni, vaxandi orkugræðgi og á stundum orkusóun og mikil orkuóreiða. Þetta vita allir sem hafa kynnt sér málin vel. En hinir, sem treysta kjörnum fulltrúum fyrir því að hafa hlutina í lagi, vita ekki eða hugsa lítið út í það. Við gerum alltaf ráð fyrir að allt sé í lagi þangað til að það er það ekki. En sú staðreynd, að nær áttatíu prósent allrar raforkuframleiðslu á Íslandi fari í þrjú erlend álver, og að öll heimili í landinu noti minna af raforku en gagnaver og rafmyntargröftur, segir allt um tilviljanakennda forgangsröðun og atvinnustefnu sem enginn mótaði. Er það meitlað í stein að stærstur hluti raforkunnar fari um eilífð í þessi fyrirtæki? Má kannski ræða það einhvern tímann? Og hver á orkuna og hver á að eiga hana? Er eignarhaldið náttúruverndarmál? Og ef til vill spurning um þjóðaröryggi? Er bannað að spyrja þessara spurninga?
Friðun
Orkuframleiðsla krefst alltaf náttúrufórna og því eru orkumálin með stærstu viðfangsefnum náttúruverndar. Eitt meginloftslagsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er að vernda og endurheimta náttúruleg svæði, votlendi og líffræðilegan fjölbreytileika. Að friða land er lífsnauðsynlegt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og fyrir aðlögun að loftslagsbreytingum. Og sama hve hátt við hrópum að orkan sé græn og endurnýjanleg þá þarf alltaf að fórna náttúru við orkuöflun. Það þarf að brjóta land og breyta náttúru varanlega í iðnaðarsvæði. Græna byltingin snerist upp í andhverfu sína og er viðskiptatækifæri á markaði, óháð sínum stóru gildum um sjálfbærni og nægjusemi. Í hvað fórnum við náttúru? Hver er lokaniðurstaðan? Er fórnin þess virði? Þessar spurningar ættu að vera stærstar við samningaborðin þegar fjallað er um frekari orkuöflun.
Endurheimt umhverfisráðuneytis
Þjóðin hefur þungar áhyggjur af umhverfis- og loftslagsmálum. Hún hefur það þótt þessi mikilvægustu mál málanna hafi ekki verið á dagskrá stjórnmálaflokka sem komust á þing. Mögulega er sjálfbær framtíð of stórt verkefni fyrir stjórnmálamenn. Kannski ræður pólitíkin ekki við það. En um leið þarf neyðarviðbragð og stjórnstöð náttúru- og loftslagsvarna rétt eins og stjórnstöð almannavarna. Mögulega þurfum við nýtt þríeyki vísindamanna á vakt fyrir náttúru og loftslag allan sólarhringinn. Og það þarf að endurheimta og styrkja alvöru náttúruverndar- og loftslagsráðuneyti sem fyrst. Það var aflagt í síðustu ríkisstjórn um leið og stofnað var orku- og grænþvottaráðuneyti. Umhverfis- og loftslagsráðuneyti verður að vera óháð peningaöflum, ólígörkum og lobbíistum með það stóra markmið að standa með náttúru og loftslagi.
Hjartasjóðir
Á dögunum sagði sérhagsmunafulltrúi í fjölmiðlum að náttúruverndarsamtök væru á móti framtíðinni. „Á móti framtíðinni,“ sagði talsmaður sem vill klára alla náttúrusjóði sem fyrst. Það er eins og að segja að Íslendingar trúi ekki á morgundaginn. Íslendingar eru náttúruverndarar. Í landinu starfa hátt í fimmtíu samtök og grasrótarfélög í náttúruvernd. Samstaðan er rótsterk og hratt vaxandi af því að það er vakning. Þessi félög vinna þétt saman og það fjölgar ört í öllum félagatölum. Það finnum við svo sterkt sem störfum í náttúruvernd. Allan hringinn eru sjálfboðaliðar í vinnu fyrir náttúruna. Þeir þiggja ekki laun hjá sérhagsmunasamtökum til að herja á stjórnvöld og samfélög fyrir skammtímagróða. En lobbíistinn má vita að þeir þiggja framlög í hjartasjóði vitandi að náttúruverndarbaráttan er fyrst og síðast með framtíðinni og fyrir náttúruna sjálfa, sem er alltaf stærsti hagsmunaaðilinn, því náttúruvernd er mannvernd.
Athugasemdir