Þeim sem ætla að sækja jólatónleika í Laugardalshöll á laugardagskvöld býðst að kaupa sér sérstakan aðgang að bílastæðunum næst húsinu af tónleikahöldurunum, Senu Live. Uppsett verð á hverju bílastæði er 5.990 krónur fyrir kvöldið.
Þetta hefur nokkrum sinnum verið gert við viðburðahald í húsinu, til dæmis á tónleikum Backstreet Boys fyrir nokkrum árum samkvæmt svari sem Heimildinni barst frá Senu, en alla jafna eru bílastæðin við húsið og raunar Laugardalnum öllum gjaldfrjáls.
Hluti bílastæðanna sem boðin eru til sölu þetta kvöld eru á landi sem tilheyrir ekki lóð Laugardalshallarinnar, heldur standa þau á landi Reykjavíkurborgar við Engjaveg.
Þrátt fyrir mikið bílastæðaflæmi við íþróttamannvirkin á svæðinu, auk fjölda ókeypis bílastæða við Suðurlandsbraut og víðar í grenndinni, skapast oft ófremdarástand þegar fjölsóttir viðburðir standa yfir í Laugardalnum. Bílum er þá gjarnan lagt ólöglega á svæðinu.
Búast má við því að tónleikarnir á laugardaginn, Jólagestir Björgvins, verði vel sóttir. Þeir eru auglýstir sem kveðjutónleikar í þessari tónleikaröð, sem hefur verið fastur liður fyrir jólin um langa hríð.
Hafa selt aðgang að stæðum af og til
Heimildin fékk ábendingu um bílastæðasöluna frá manni sem blöskraði verðlagningin á stæðunum og taldi að þarna væri um bæði okur og græðgi að ræða af hálfu Senu.
Samkvæmt svari frá Senu hefur fyrirtækið af og til selt aðgang að bílastæðum með svipuðum hætti, allt frá því að Justin Timberlake kom til landsins og spilaði í Kórnum árið 2014. Þetta hafi svo verið gert af og til, nú nýlega í tengslum við tónleika Backstreet Boys í Laugardalshöll.
Í svarinu frá Senu, sem barst frá Ísleifi Þórhallssyni framkvæmdastjóra, segir einnig að verið sé að leitast við að auka gæði tónleikahaldsins og auka þjónustu við tónleikagesti.
Þar kemur einnig fram að fyrirtæki reikni með að það verði uppselt í stæðin fyrir tónleika.
Málið útskýrt á sérstakri bílastæðasíðu
Á sérstakri bílastæðasíðu tónleikahaldarans er fyrirkomulagið útskýrt. Þar segir að öll þrjú bílastæðin sem eru í boði, A-, B- og C-stæði, kosti það sama.
Starfsmenn munu hleypa inn á bílastæðin og skanna sérstaka miða sem fólk kaupir fyrir stæðin. Engar hömlur verða á fjölda gesta í hvern bíl, samkvæmt því sem segir á vef Senu.
Þar segir jafnframt að engin ábyrgð sé tekin á bifreiðum, einungis verði vakt við innkeyrslur á svæðið til að skanna miðana, en bílarnir ekki vaktaðir sérstaklega í kjölfarið.
Sérstaklega er svo tekið fram að Sena Live hafi „enga stjórn á umferðinni“ og að miði í bílastæði gefi engan forgang í umferðinni á leið á tónleikana. „Búast má við því að umferð í kringum Höllina verði þung á tónleikadegi og það er á ábyrgð gesta að koma sér að stæðunum í tæka tíð,“ segir á vef Senu.
Einnig er tekið fram að ekki sé selt inn í stæði fyrir hreyfihamlaða við Laugardalshöllina og að þeir sem eru með blátt P-merki geti fengið aðgang að stæðunum, á meðan plássið leyfir.
Forgangur að bílastæðakaupum fylgdi dýrustu miðunum
Miðarnir á Jólagesti Björgvins kosta frá 9.990 krónum og upp í 29.990 krónur, en það eru þá sérstakir VIP Gull-miðar, miðar á besta stað í húsinu, með sérinngangi í Laugardalshöllina og ókeypis drykk á barnum.
Til viðbótar fengu þeir sem keyptu VIP Gull-miðana forgang á að kaupa sér aðgang að bílastæðunum. Uppselt er orðið í flest sæti Laugardalshallarinnar, samkvæmt upplýsingum á miðasöluvefnum Tix. Hins vegar er enn hægt að kaupa aðgang að bílastæðunum, á öll þrjú svæðin.
Félagið Íþrótta- og sýningahöllin hf., sem er í jafnri eigu Reykjavíkurborgar og Samtaka iðnaðarins, rekur Laugardalshöllina. Blaðamaður hringdi þangað inn og fékk þau svör að fyrirtækið hefði ekki upplýsingar um bílastæðasöluna.
Starfsmaður Laugardalshallarinnar benti því á ýmist tónleikahaldara eða Reykjavíkurborg fyrir frekari upplýsingar. Heimildin sendi fyrirspurnir á bæði Senu og Reykjavíkurborg vegna þessa máls.
Fréttin hefur verið uppfærð með svörum sem bárust frá Senu Live.
Athugasemdir (3)