Alls voru 224.963 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna þann 1. desember síðastliðinn samkvæmt skráningu Þjóðskrár og hefur skráðum einstaklingum í þjóðkirkjuna fækkað um 939 síðan 1. desember 2023. Á síðastliðnum fjórum árum hefur skráningum í Þjóðkirkjuna fækkað um tæplega átta prósent. Þó þarf að hafa í huga hér að samfélagsgerð Íslendinga hefur breyst verulega síðustu ár, því segir fækkun Þjóðkirkjunnar mögulega ekki allt um fækkun sóknarbarna.
Næst fjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag landsins er Fríkirkjan í Reykjavík með 9.935 skráða meðlimi.
Frá 1. desember 2023 hefur fjölgun meðlima í trú- og lífsskoðunarfélögum verið mest í Siðmennt eða um 348 meðlimi. Mest hlutfallsleg fjölgun var hjá Samfélagi Ahmadiyya-múslíma á Íslandi, eða um 57,1 prósent. Samfélag Ahmadiyya-múslíma er félag þeirra múslíma sem trúa á messíasinn, Mirza Ghulam Ahmad frá Qadian.
Á vef samtakanna segir að samfélag Ahmadiyya-múslíma sé í forystu meðal íslamskra samtaka til að fordæma afdráttarlaust öll hryðjuverk en spámaðurinn hafnaði alfarið ofbeldi og að heilagt stríð væri réttlætanlegt. Félagið var stofnað í febrúar á þessu ári.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Athugasemdir (1)