Ég er stundum spurður, hvernig hefur þú tíma í allt sem þú ert að gera? Nei, ég lýg því – ég er sjúklega oft spurður að þessu. Í kjölfarið fer alltaf dágóður tími í að útskýra að ég hreinlega viti það ekki, en það hafi eitthvað með það að mér sé líkamlega ómögulegt að segja nei. Ekki er ég sérlega skipulagður. Tæplega forsjáll og þaðanafsíður útsjónarsamur. Ég ákveð sjaldnast með miklum fyrirvara hvað ég ætla að gera næst, varla nokkru sinni hvernig ég ætla að fara að því – og veit yfirleitt aldrei hvenær í ósköpunum ég kemst í það.
Ég lifi í raun mjög óreiðudrifnu lífi – sem þó er í furðulega föstum skorðum. Enginn dagur er nákvæmlega eins, en þó eru þeir merkilega keimlíkir. Verkefnin koma og fara, þau bara banka upp á og gera sig heimankomin í lífi mínu og minna. Án þess sérstaklega að spyrja hvort ég hef raunverulega áhuga á að sinna þeim. Einhvern veginn skila þau sér þó í hús. Á prent. Á sjónvarpsskjái. Á spotify. Á samfélagsmiðla. Upp á svið. Inn í sjónvörp. Í auglýsingatíma. Í ársskýrslur. Í virðisaukaskattssýrslur. Á stjórnarfundi. Á hugmyndafundi. Á alls konar aðra leiðindafundi. Í tækifærisræður bláókunnugra. Í jarðarfarir, skírnir og busavígslur. Í söngleiki. Í texta. Í lög. Á jólatónleika. Og guðmávitahvert annað.
Og hvaðan tíminn kemur í allt þetta? Ekki hugmynd. Ekk græna. Ég veit bara að hann er þarna og það er vel hægt að nota hann og nýta – til góðs, ills eða einskis. Ég er reyndar svo stálheppinn að í kring um mig er velmeinandi fólk sem hefur ráðstöfunarvald yfir mínum tíma. Það bókar mig á hina og þessa fundi, ráðstefnur, veislur, mannfagnaði og almennt stúss. Ég þarf ekki annað en að líta á dagatalið mitt þegar ég vakna til að sjá að þá þegar hefur dagurinn verið skipulega hólfaður niður og tímanum ráðstafað í hin ýmsu verkefni. Þá get ég líka reiknað út strax hvar ég mun verða of seinn, hverju ég mun ekki koma í verk og hverjum ég mun valda sárum vonbrigðum með fjarveru minni – eða eftir atvikum – nærveru. Þannig að tímann er vissulega hægt að beisla og temja – þó flestu sé að sjálfsögðu komið í verk í skjóli nætur, eftir að fundaboðum sleppir.
„Fólki er almennt mjög í nöp við tímaeyðslu, en ég er sjálfur mikill aðdáandi hennar
En svo er það merkilega í þessu. Og ég fæ agalegt samviskubit yfir þegar ég er vændur um viðvarandi dugnað og framtakssemi. Það er blessuð tímaeyðslan. Því ég er vissulega líka mjög duglegur að nota hann í eitthvað allt annað. Fólki er almennt mjög í nöp við tímaeyðslu, en ég er sjálfur mikill aðdáandi hennar. Mér finnst í raun fátt betra og meira gefandi en að eyða tíma. Helst í vitleysu. Og allrahelst með fjölskyldu og vinum. Gereyða honum. Ég á í mjög góðu og farsælu sambandi við ýmsar streymisveitur og hef verið afar iðinn við að horfa á allskonar myndefni sem fátt ef nokkuð hefur skilið eftir sig, annað en óljósa minningu um söguþráð sem til allrar hamingju er rifjaður upp fyrir mig í næstu seríu.
Og já, ég er búinn að sjá allt Marvel-sjittið, dýrka það en man ekki neitt úr því. Ekkert. Ég á ógeðslega marga pókímona í símanum mínum og ég er óþarflega duglegur að nota duolingo á árinu. Mér finnst líka mjög gaman að sofa. Og vera í fríi. Og fara á Taylor Swift tónleika. Og baka smákökur. Og meir að segja eigum við uppþvottavélin og óhreina tauið mjög fallegt og gefandi samband. Svo erum við gervigreindin smátt og smátt að kynnast betur og við erum mjög afkastamikil í að búa til myndir af öpum til forna og dansandi hömstrum – auk þess að ræða saman um lífsins gagn og nauðsynjar á bjagaðri íslensku.
Að þessu öllu samanteknu til viðbótar er mesta furða að ég skuli koma nokkru í verk. En þetta tínist til. Og enn og aftur, þá veit ég í sjálfu sér ekkert hvaðan þessi tími kemur. Ég veit bara að hann er smátt og smátt að koma sér fyrir á andlitinu á mér og í hárinu á mér. Nýjar hrukkur daglega.
En allavega. Og hvað hef ég svo lært af þessu? Tjah. Augljóslega ekki sérlega mikið. Ég er enn þá stórneytandi á tíma minn og annarra og veiti ólíklegustu verkefnum nær óheftan aðgang að mínum mínútum. Ég hef þó lært það að tíminn er dýrmætur og einn daginn þá verður aðgengi mitt að honum takmarkað og mér meinaður aðgangur á endanum. Það að sólunda tímanum sem við fáum er vissulega ákveðin sóun. Og ég hef líka lært það að það sem við nýtum hann í gerir okkur að því sem við erum. Hvort sem við viljum nýta hann, verja honum, sóa eða hreinlega eyða. Við ráðum því sjálf. Og þó að ég myndi gjarnan vilja líkja tímanum við óútleyst inneignarkort í lífinu, þá er það ekki allskostar rétt. Því tíminn er svo sannarlega ekki peningar – hann er gjöf.
Athugasemdir