Jólin eru tíminn til að missa sig aðeins. Það er öllum þarft og gott, af og til. Tíminn þar sem við tökum okkur frí frá hóglífi hversdagsins, skreytum stílhreinu skandinavísku heimilin okkar með alls kyns yfirdrifnum óþarfa, háglans gulli og glimmeri þó almatt sé annars allsráðandi, kollektífur samfélagssáttmáli um að taka okkur stikkfrí frá lúterska sjálfsaganum sem annars er talinn til landlægra dyggða. Gera okkur dagamun, þegar varla sést munur á degi og nóttu. Þó nú væri.
Jólin eru þannig fullkomin afsökun fyrir því að fá útrás fyrir flippað kitsjið sem lúrir innra með okkur flestum, leyfa því að brjótast fram og dansa fram á nótt, þessa örfáu desemberdaga áður en skynsemin og smekkvísin nær aftur yfirhöndinni í janúar og allt verður á ný beislitað og stillt. Það ku meira að segja vera móðins þessi misserin, ólíklegustu áhrifavaldar og smartheitavegvísar eru þessa dagana að hengja diskókúlur á kransana sína og grafa upp grænu keramiktrén frá ömmu sinni, þessi með marglitu ljósaperunum, og stilla upp í heiðursessi. Hið svokallaða tinsel er víst mikið tekið þessi jólin, enda mjög skemmtilegt að skreyta jólatréð með því að kasta glitrandi tjásum passlega óreiðukennt yfir það – ákveðin útrás og jafnvel frelsi sem menn finna í þeirri gjörð. Appelsínugulur og bleikur eru líka að koma sterkir inn þessi jólin skilst mér, mestu uppreisnarseggirnir skarta jafnvel bleiku jólatré. Tengdafaðir minn, trendsetterinn mikli, var töluvert á undan sinni samtíð þar, hann reyndi fyrir mörgum árum að festa kaup á einu slíku. Afgreiðslustúlkan í Blómavali horfði rannsakandi á hann, reyndi að átta sig á hvort hann væri að grínast, sem var alls ekki, en sagði svo í samúðartóni að því miður hefði Sigga Kling og Beggi og Pacas keypt síðustu bleiku trén. Hann fór því heim með rautt tré í staðinn, lifi byltingin.
MótþróaBarbí var svo auðvitað stjarna ársins 2024 í kjölfar geysivinsællar bíómyndar og áhrifa hennar má gæta í jólahneigðum yngri kynslóðarinnar að minnsta kosti, enda bleikt að endurskilgreina sig sem áhrifalit og á sannarlega fullt erindi inn á sviðið. Svo bætið í öllum bænum allavega smávegis bleiku og appelsínugulu við grænu og rauðu klassíkina, ef þið treystið ykkur ekki í jafnróttækar aðgerðir og tengdi minn. Það geta auðvitað ekki allir verið gordjöss.
„Sum lönd hafa gengið svo langt að kjósa jafnvel frekar yfir sig þann langversta en þann næstbesta, þó sitt sýnist hverjum um pönkið í því“
Árið hefur verið dálítið róstursamt í henni veröld, það er einhver urgur í mönnum. Óþol fyrir ríkjandi gildum, þörf fyrir uppreisn og byltingu, einhvers konar pönk virðast þeir vilja, mennirnir. Sum lönd hafa gengið svo langt að kjósa jafnvel frekar yfir sig þann langversta en þann næstbesta, þó sitt sýnist hverjum um pönkið í því. Uppreisn ársins er líka dálítið undarlegs eðlis á köflum, afturhvarfssinnuð að því er virðist og ekki beinlínis til bóta, raddir sem okkur hafði í sameiningu tekist að sussa niður búnar að mynda kraftakór og ryðja sér rúms á ný, öllum til ama eða allavega mér. Rasistarnir og hatararnir og kallakallarnir eru hættir að skammast sín bara heima hjá sér heldur mættir fílefldir á sviðið, uppveðraðir í að þora þegar þeir ættu auðvitað að þegja og það að reyna að vera gott fólk og „woke“, þ.e. uppfrætt og sæmilega velviljað, er í opinberri orðræðu orðið hálfgert blótsyrði, í það minnsta eitthvað til að skammast sín fyrir ef marka má Sigríði okkar Andersen, blessuð sé endurkoma hennar. Undarleg uppreisnin sú.
„Það er ekkert svo afdrifaríkt í stóra samhenginu að velja langversta jólaskrautið, ef þannig liggur á manni“
Urgurinn verður þó ekki afskrifaður eða hunsaður, þá er hann vís til að versna bara. Einhvers staðar þarf að sleppa honum lausum, og jólin eru ljómandi upplögð til þess arna. Þar geta menn fengið útrás fyrir allar sínar uppsöfnuðu tilfinningar og uppreisnarkenndir, sér og samfélaginu að meinalausu. Það er ekkert svo afdrifaríkt í stóra samhenginu að velja langversta jólaskrautið, ef þannig liggur á manni. Þess vegna mætti fara alveg út á brúnina og virkja pastellitina sem hafa verið að ná vopnum sínum til baka á árinu og jú, pastel er víst pönk í réttu samhengi. Hver býst við lavenderlituðum aðventukransi?
Það er meira að segja hægt að hengja jólatréð öfugt upp í stofuloftið, hafi árið virkilega espað mann upp. Ég hef séð slíkt útfært á afar smekklegan hátt, skal ég segja ykkur. Og ef uppreisnin felst í raun í algjöru afturhvarfi til fortíðar, því þá ekki að sleppa alfarið Smáralind og gefa bara heimalöguð tólgarkerti og spil eins og sannur og þjóðernissinnaður Íslendingur, sem virðist jú vera að trenda? Jólapönk í því.
Athugasemdir