Skammdegið kemur okkur alltaf á óvart. Við höfum siglt lygnan sjó um haustið þar til íbúðin breytist í hriplekan bát. Myrkrið flæðir inn um hverja glufu. Hljóðið í nagladekkjunum, eins og eitthvert kvikindi sé að naga dagsbirtuna upp til agna.
Við erum komin upp í rúm, búin að slökkva ljósin. Mér heyrist þú sofnuð þegar ég laumast til að kíkja í símann.
Þótt ég hafi skrúfað skjábirtuna niður blindast ég eitt andartak eins og bílstjóri á leiðinni upp úr löngum jarðgöngum.
Ég veit nákvæmlega hvernig ég lít út á þessu andartaki: Drephvítur fölvinn breytir andliti mínu í misheppnaða helgrímu.
Til að sjá hvað þessi tæki eru köld og ónáttúruleg þurfum við bara að slökkva ljósin.
Ég eyddi óþarflega stórum hluta dagsins í að biðja nemendur mína um að leggja frá sér símana.
Einbeitum okkur að verkefninu, endurtók ég.
Nú er það orðið stærsta verkefnið: að einbeita sér að verkefninu.
Allar þessar þráðlausu tengingar.
Allar þessar ráðlausu nætur.
Ég velti þessu fyrir mér eitt andartak, stilli svo símanum upp á náttborðinu og leyfi honum að lýsa út í tómið.
Þetta er eins og birta innan úr gróðurhúsi þar sem fingralangur garðyrkjumaður ræktar af alúð og þolinmæði:
eirðarleysisarfa
kvíðaklukkur
leiðaliljur
stjarfastjörnur
og öll hin titrandi smáblómin sem tilbiðja guð sinn áður en rafhlöðurnar deyja.
Athugasemdir