Finnur Ricart Andrason, 22 ára oddviti Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður, hafði ekki erindi sem erfiði í alþingiskosningunum á laugardag. Finnur sér ekki eftir því að hafa fært sig úr aktívismanum í Ungum umhverfissinnum yfir í stjórnmálin en rétt eins og með framtíð Vinstri grænna er óvissa um frekari þátttöku hans í stjórnmálum.
Fyrstu viðbrögð Finns við brotthvarfi Vinstri grænna af þingi eru þakklæti, vonbrigði og ótti. Hann er þakklátur fyrir traustið sem honum var sýnt að leiða flokkinn í Reykjavík ásamt Svandísi Svavarsdóttur, formanni flokksins. „En það eru vonbrigði að VG náði ekki meiri árangri. Ég var allan tímann frekar vongóður um að við myndum ná inn.“ Þá óttast Finnur að umhverfis- og náttúruvernd fái ekki forgang í næstu ríkisstjórn. „Þeir tveir flokkar sem hafa haldið uppi þessum mikilvæga málaflokki eru ekki lengur inni, Píratar og Vinstri græn. Ég óttast að það verði ekki nógu sterkir málsvarar náttúrunnar inni á þingi.“
Finnur hefur helgað sig umhverfismálum og náttúruvernd, hefur lokið grunnnámi í hnattrænum sjálfbærnivísindum og starfar sem sérfræðingur í umhverfis- og loftslagsmálum hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hann var einnig forseti Ungra umhverfissinna en sagði sig frá starfi samtakanna þegar hann tók sæti á lista VG. „Mér fannst það heiðarlegast, bæði gagnvart Ungum umhverfissinnum og flokknum.“ Það var ekki auðveld ákvörðun að taka sæti á lista hjá Vinstri grænum, sérstaklega í ljósi ríkisstjórnarsamstarfsins við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. „Ég fann að flokkurinn hafði brennt sig á þessu samstarfi og var klárlega ekki að fara í þetta samstarf aftur. Ég fann að það var góð og holl endurnýjun að eiga sér stað og mér þótti mikilvægara að reyna að taka þátt í að reyna að bjarga flokknum frá því að detta út og taka þátt í að byggja upp traust fólks til flokksins upp á nýtt, frekar en að taka þátt í að refsa honum með þeim afleiðingum að hann dytti út af þingi.“
„Af hverju ekki að reyna að taka þátt í því að vera stjórnvöld dagsins í dag og stuðla að þessum markmiðum?“
Nýleg ummæli Antonio Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, höfðu einnig áhrif á ákvörðun Finns að taka þátt í stjórnmálum. „Hann sagði að það eru stjórnvöld dagsins í dag sem munu ráða úrslitum hvort við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum og náttúruvernd eða ekki,“ segir Finnur sem hugsaði sjálfur í kjölfarið: „Af hverju ekki að reyna að taka þátt í því að vera stjórnvöld dagsins í dag og stuðla að þessum markmiðum?“
Þó það hafi ekki tekist að þessu sinni og óvissa ríki um framtíð Vinstri grænna mun Finnur halda áfram að berjast fyrir umhverfis- og náttúruvernd. Hvar og hvenær á hins vegar eftir að skýrast. „Það er ákvörðun sem ég er ekki búinn að taka og þarf lengri tíma til að melta, hvort það sé rétti tímapunkturinn núna fyrir mig að halda áfram á fullu þar eða hvort ég vilji aðeins taka skref aftur á bak og átta mig á hvað ég vil gera næst,“ svarar Finnur, aðspurður hvort hann muni halda áfram að beita sér innan Vinstri grænna. „En ég finn að ég hef ákveðna sýn á hvernig ég vil að samfélagið þróist og hvernig pólitíkin gæti þróast. Það eru meiri líkur en minni að ég muni taka einhvern þátt í stjórnmálunum áfram, hvort sem það verði akkúrat núna eða eftir einhverja mánuði eða ár.“
Athugasemdir (2)