Bjarni Benediktsson sleit ríkisstjórnarsamstarfinu einkum út af ágreiningi við VG um útlendingamál. Hann og aðrir hægri menn virðast hafa reiknað með að það yrði megin kosningamálið.
Velferðin reyndist aðal kosningamálið
Þegar út í kosningabaráttuna var komið blasti allt annað við. Kjósendur settu velferðarmál á oddinn: Heilbrigðismál, húsnæðismál og afkomu heimila í skugga verðbólgu og hárra vaxta. Þetta sýndu kannanir og stjórnmálamenn á vinstri væng og miðju svöruðu því ákalli. Þau lofuðu umbótum, mest með betri hagstjórn og eflingu velferðarkerfanna. Á hægri vængnum héldu menn áfram að horfa framhjá mikilli uppsöfnun innviðaskulda og töluðu um niðurskurð ríkisútgjalda og gáfu innantóm loforð um skattalækkanir. Það var kjósendum ekki efst í huga.
Niðurstaða kosninganna varð sú, að flokkarnir sem lögðu mesta áherslu á velferðarmál og afkomu heimilanna unnu góða sigra, þ.e. Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins. Miðflokkurinn bætti við sig vegna öflugrar samkeppni við Sjálfstæðisflokkinn um ysta hægrið. Stjórnarflokkarnir þrír guldu afhroð, fengu allir minna fylgi en áður í sögu sinni. Þeim var hafnað. Þeir tveir sem enn eru á þingi, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, eru skaddaðir og þurfa hvíld.
Ysta vinstrið geldur enn á ný fyrir það að vera sundrað í of marga flokka og margir fyrrum kjósendur þeirra sáu nú meiri von um áhrif á samfélagið í gegnum endurnýjaða og stóra Samfylkingu, með einstaklega öflugri forystu. Það var vissulega uppi ákall í samfélaginu um viðamiklar breytingar í pólitíkinni. Í því fólust líka leiðbeiningar um samsetningu og stefnu nýrrar ríkisstjórnar.
Hvernig stjórn kemur helst til greina?
Við blasir að þrír helstu sigurvegararnir (Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins) voru allir með sterkan fókus á umbætur í velferðar- og innviðamálum og afkomu aðþrengdra heimila. Þá áherslumunur sé milli þeirra þá ætti að vera góður grunnur fyrir samstöðu um átak á þessum sviðum í ríkisstjórnarsamstarfi. Einnig um betri hagstjórn og kristileg mannréttindi.
Þá væri söguleg nýjung að allir ríkisstjórnarflokkarnir væru undir forystu öflugra kvenna. Það væri sannkölluð valkyrjustjórn!
Samstarf Samfylkingar og Viðreisnar við Miðflokkinn væri eins og að endurnýja samstarf Sjálfstæðisflokks og VG í mun verri mynd. Of langt er þar á milli. Samstarf Samfylkingar við Sjálfstæðisflokkinn yrði sennilega endalok þeirrar endurreisnar Samfylkingarinnar sem orðin er og því óráðleg fyrir þau, en Viðreisn ætti í minni vanda með slíkt.
Hins vegar sýndu kannanir meðal stuningsfólks Samfylkingar og Viðreisnar að þau vildu umfram allt að þessir tveir flokkar myndu starfa saman í næstu ríkisstjórn. Það ætti að vera hinn endanlegi dómur. Flokkur fólksins mun engan hljómgrunn fá fyrir velferðaráherslur sínar hjá niðurskurðarflokkum hægri vængsins.
Um hvað ætti ný stjórn að snúast?
Auðvitað um það sem kjósendur sögðu brýnast að taka á: velferðarmál, innviðamál og betri afkomu heimila með betri hagstjórn. Þetta ætti að liggja beint við fyrir ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokk fólksins. Áherslur á innflytjendamál eru orðnar nokkuð samhæfðar milli þessara flokka líka og vilji til frekari orkuöflunar og umhverfisverndar sömuleiðis.
Helstu vandamálin við að ná saman um stjórnarsáttmála verða væntanlega áhersla Viðreisnar á þjóðaratkvæði um hvort sækja ætti á ný um aðild að ESB og kostnaðarmiklar hugmyndir Flokks fólksins um endurbætur á almannatryggingakerfinu. Snjallt samningafólk verður þó varla í vandræðum með að ná saman um þetta.
Forsenda fyrir því að ESB taki við aðildarumsókn frá Íslandi á ný hlýtur að vera sú að 60-70% þjóðarinnar styðji slíka vegferð. Það væri líka óraunhæft og alltof dýrkeypt að fara fram með slíka umsókn fyrir hönd þverklofinnar þjóðar, t.d. með 52% samþykki og 48% andstöðu. Það ætti því að vera vandræðalaust fyrir þessa þrjá flokka að semja um þjóðaratkvæðagreiðslu ef ákall þjóðarinnar eftir því verður afgerandi.
Dýrar hugmyndir Flokks fólksins um umbætur á almannatryggingum gætu vakið ótta hjá Viðreisnarfólki. Staðreyndin er hins vegar sú að lagfæringar í þá átt væru mjög þýðingarmiklar til að draga úr fátækt og færa eldri borgurum og öryrkjum löngu tímabærar umbætur. Markverð skref í þá átt væru valkyrju-ríkisstjórn til mikils sóma.
Slíkar umbætur má semja um að gera í skrefum og margar leiðir eru til fjármögnunar með fínpússningu skattkerfisins, til dæmis með hækkun persónufrádráttar samhliða því að láta hann fjara út með hærri tekjum. ASÍ hefur lagt til margar umbætur á skattkerfinu í átt þess sem tíðkast hjá frændþjóðunum á hinum Norðurlöndunum, án þess að leggja auknar byrðar á almennt launafólk og lífeyrisþega. Mikilla tekna má afla með þeim hætti. Þá mun vaxtakostnaður ríkissjóðs lækka mikið þegar vextir koma loks niður.
Ef áherslur kjósenda eru leiðarljósið þá blasir við að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er eina rökrétta niðurstaðan.
Athugasemdir