Stjórnmál eru spegill samfélagsins, jafnt hér heima fyrir sem í veröldinni. Því verður ekki mótmælt að margt vekur áhyggjur og greiningar geta ekki leynt mörgum áhyggjuefnum. Stóru drættirnir mótast m.a. af fjölþættum umhverfisvanda, alvarlegri loftslagsþróun, stríðum sem einræðis- og yfirgangsöfl standa fyrir, mikilli fátækt víða um heim, bylgjum fólksflutninga og auknum völdum hægri þjóðernisafla og auðhringa. Efnahagskerfi stöðugs vaxtar og hámarksgróða, sama hvað á dynur, tryggir ekki velmegun fjöldans eða jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar. Það sýnir saga 20. og 21. aldar.
Óánægja og óróleiki er gjald misskiptingar auðs og ofurvalda. Fá lönd eru undanskilin þessum hremmingum. Helst að sum þróunarlönd og stöku ríki utan þeirra veki vonir um friðvænlegri og réttlátari heim. Horfurnar valda einangrunarhyggju og þjóðrembu í efnuðu ríkjum heims í einn stað en útþenslustefnu helstu iðnríkjanna, uppreisnum í sumum þróunarríkjum og stórveldaglímum í annan stað. Hægrið og popúlismi sækja á.
Við förum ekki varhluta af þessari vegferð. Langur listi af þó nokkrum árangri í sjö ára óvenjulegri stjórnartíð þriggja flokka, er ég tók þátt í sem þingmaður til fimm ára, breytir ekki niðurstöðum þingkosninganna. Meirihluti samfélagsins leitar nú ásjár flokka sem fyrst og fremst heita framförum í efnahagsmálum og kjörum fjöldans. Halda þar hægri lausnum á lofti, í meginatriðum. Efnahagsmál og félagsþjónusta skipta okkur flest meira máli nú um stundir en aðrir þættir samfélags sem segist stefna til sjálfbærni í kapphlaupi við hraðar loftslagsbreytingar. Í raun er það varla undarlegt þegar þess er gætt að framfærslu- og húsnæðiskostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi og samhjálparkerfið er of veikt. Hverjir kunna sæmilega að bæta úr því?
„Meirihluti samfélagsins leitar nú ásjár flokka sem fyrst og fremst heita framförum í efnahagsmálum og kjörum fjöldans. Halda þar hægri lausnum á lofti, í meginatriðum“
Málamiðlanir í samsteypustjórn eru götóttur grunnur að landsstjórn. Um það vitnar sagan allt frá lýðveldisstofnuninni. Þó er annað ekki í boði, sem betur fer í þingbundnu lýðræði, einkum ef fjöldahreyfingar og flokkar geta haft þar áhrif með vinstri áherslum. Of oft lita rakalausar fullyrðingar og þekkingarskortur stjórnmálaumræður og lítillar sanngirni gætir í margra munni. Umræðan batnar hægt en þarf að gera það hraðar frammi fyrir alvarlegri stöðu heimsmála og innanlandsmála. Vinstrið hefur nú þarft tækifæri til nýsköpunar.
Hlýnun jarðar getur valdið gríðarlegum vandræðum og fjárútlátum ef ekki tekst að hemja hana. Samfélagslegar lausnir, aukið jafnrétti, hröð orkuskipti og hringrásarhagskerfi eru helstu, dugandi meðulin. Um það ná þrír af fjórum, nýskipuðum leikendum í íslenskri pólitík varla vel saman um. Rétt eins og í sjö ára stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar mun eitt og annað fara með ágætum á næstu árum nýrrar stjórnar en í handritið á þeim bæ mun vanta miklu meiri vinstri áherslur og heildrænan skilning á sjálfbærri þróun.
Þegar vinstri menn (já, menn - konur, karlar og kvár) endurmeta sína stöðu og stefnumið á næstu mánuðum og árum verða ótal spurningar og svör á lofti. Á einu umræðurefni ber vafalítið: Getur vinstrið náð saman í fylkingu utan um 15-20 brýnustu mál dagsins. og næstu áratuga, en samt haldið sinni sérstöðu og hugmyndafræði? Það hefur tekist sums staðar í sögunni, t.d. í Frakklandi. Minna má hér á tilraunir á borð við Bandalag jafnaðarmanna sem átti að verða regnhlífasamtök Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og allra vinstri samtakanna nálægt 1980, að áliti helsta baráttumanns fyrir hugmyndinni, Vilmundar Gylfasonar. Ég studdi þá tilraun sem varð fljótt endaslepp. Úr varð stuttlífur smáflokkur á Alþingi. Seinna varð Samfylkingin heldur ekki að víðtæku sameiningarafli félagshyggju- og jafnréttissinna í þingræðisbaráttunni. Í núverandi stöðu, hér heima og erlendis, verður að taka stór skref til að tryggja öflugari sókn og umbætur í málefnum á borð við jafnrétti, velferð, umhverfismál, loftslagsmál, andóf gegn útþenslu hervæddra stórvelda, fyrir sjálfræði þjóða, mannréttindum og mannúð. Verk að vinna í vinstra litrófinu, hvíslar sagan.
Athugasemdir (1)