Nú hefur það gerst tvisvar að stjórnmálaflokkar deyja út innan við ári eftir að hafa gert Bjarna Benediktsson að forsætisráðherra. Í fyrra skiptið var það Björt framtíð sem sleit stjórnarsamstarfinu en í því seinna varð Bjarni, að eigin sögn, „fyrsti maðurinn til að hafna ríkisstjórninni“ sem hann leiddi.
Harmleikur samstarfsins
Flestir flokkar falla í fylgi við ríkisstjórnarsamstarf, en fráfall Vinstri grænna er lagskiptur pólitíkur harmleikur sem hófst, eins og fleiri slíkir, með sögulegri sátt og áformum um stöðugleika, þegar Katrín Jakobsdóttir valdi Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk fram yfir flóknara stjórnarmynstur frá vinstri til miðju með Framsóknarflokki, Pírötum og Samfylkingunni. Það má velta fyrir sér hvaða augnablik olli mestum straumhvörfum. Hvort það var þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson stóð við hlið Bjarna og Sigurðar Inga Jóhannssonar og nýbakaður forsætisráðherrann byrjaði um leið að tala um útlendingaógn og gera lítið úr pólitískum andstæðingum, eða þegar Guðmundur Ingi vék úr umhverfisráðuneytinu fyrir Guðlaugi Þór Þórðarsyni úr Sjálfstæðisflokknum, eða þegar Vinstri græn tefldu fram sem oddvitum á lista óreyndu fólki í skyndikosningar og hófu nýstárlega auglýsingaherferð með gamansömum tón í stöðu sem kjósendur flokksins álitu ekki svo skemmtilega. En Bjarni Ben drap VG, þó það hafi verið vegna ákvarðana sem teknar voru af flokksmönnum, hvort sem það var með nærveru sinni án mildunaráhrifa Katrínar eða með skyndilegum kosningum á versta tíma fyrir samstarfsflokkinn.
Næsti forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ræður næstu ríkisstjórn á Íslandi og verður forsætisráðherra, að óbreyttu.
Möguleiki á stjórn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins virðist takmarkaður, ef hlustað er á harðan tóninn í samskiptum Bjarna Benediktssonar og Ingu Sæland í leiðtogauppgjöri á RÚV daginn eftir kosningar, sem og yfirlýsingu Ingu Sæland í kosningakappræðum Heimildarinnar, sem svaraði „Gleymdu hugmyndinni!“ þegar hún var spurð út í möguleikann á slíkri stjórn.
Í þeirri stöðu þarf Þorgerður að velja milli þess að gera Bjarna Benediktsson að fjármálaráðherra eða Kristrúnu Frostadóttur. Hún þarf að ákveða hvort það verði einfaldara að kyngja áherslumálum Flokks fólksins um auknar tekjutilfærslur til lágtekjufólksins sem ganga gegn áformum um engar skattahækkanir, eða þjóðernisíhaldslegar áherslur Miðflokksins, ásamt því að afskrifa áherslur um þjóðaratkvæðisgreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið, sem er það sem aðskilur flokkinn einna helst frá Sjálfstæðisflokknum. Á sama tíma þarf hún að meta hvernig henni, samflokksmönnum og stuðningsmönnum mun líða, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og félagar fara að tala um útlendinga og gagnrýna áherslur á réttindi hinsegin fólks, nokkuð sem gengur gegn yfirlýstu gildismati Viðreisnar um frjálslyndi og alþjóðahyggju. Svo lengi sem slíkt tal var ekki bara umbúðamennska fyrir kosningar.
Samhljómurinn til hægri
Það verður ekkert vandamál fyrir Viðreisn að ná saman við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk um að lækka skatta og selja ríkiseignir. Í raun er þar komin draumaríkisstjórn hægra fólks, með 33 þingmenn af 63. En fyrsta skrefið í efnahagslegri þrautabraut með Flokki fólksins yrði væntanlega að lækka skatta, eða auka skattleysismörk, á lægstu launin. Þar verður engin vandi að ná saman um auðlindarentu, ekki síst í sjávarútvegi, auknar virkjanir, þjóðaratkvæði um ESB-viðræður – ef þau vilja það raunverulega – og gera hvers kyns umbætur í félags- og heilbrigðismálum. Hins vegar getur orðið ásteytingarsteinn að Samfylkingin hefur lofað að hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25%, en Viðreisn og Þorgerður Katrín hafa lofað fyrir og eftir kosningar að hækka ekki skatta.
Engin leið verður án málamiðlana og áhættu. En helst af öllu þarf Þorgerður Katrín að taka tilvistarlega ákvörðun um hvort flokkurinn hennar lendi í bráðri útrýmingarhættu við það að vinna með Bjarna Benediktssyni. Hættan virðist afmarkaðri ef hann heldur sig frá forsætisráðuneytinu. En vandinn er ekki, eins og hjá Vinstri grænum, að kjósendum Viðreisnar þyki Sjálfstæðisflokkur ekki samboðinn þeim, heldur frekar að erfitt verði að greina erindi Viðreisnar ef hún samlagast flokknum sem bæði Viðreisn og Þorgerður Katrín spruttu upp úr sem ætlað mótvægi.
"...áfall Vinstri grænna...hófst...með sögulegri sátt og áformum um stöðugleika, þegar Katrín Jakobsdóttir valdi Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk fram yfir flóknara stjórnarmynstur frá vinstri til miðju með Framsóknarflokki, Pírötum og Samfylkingunni."
Eftir kosningarnar árið 2017 hófust þreifingar milli flokkanna frá miðju til vinstri um að mynda stjórn. Snurða hljóp á þráðinn þegar Björn Leví lýsti því yfir í miðju samtali flokkanna að hann teldi sig óbundinn af stjórnarsáttmála slíkrar stjórnar og myndi hann fylgja sinni sannfæringu. Þar með varð það ljóst að nánast útilokað væri að mynda starfhæfa vinstristjórn. Hún hefði aðeins eins manns meirihluta sem stæði og félli með Birni Leví.
Til þess að gera ábyrgð Katrínar meiri er hún sögð hafa tekið af skarið um að halda ekki áfram með þessar viðræður. Það er ekki rétt því það var Framsóknarflokkurinn sem gaf það út að honum litist ekki á þetta stjórnarmynstur í ljósi orða þingmanns Pírata. Lái honum hver sem vill.
Hér er Jón Trausti að endurskrifa söguna, alveg eins Þórður Snær gerði eftir kosningarnar 2021.