„Að flytja til útlanda breytti því hvernig ég lít á lífið. Að vera mörg ár í burtu kenndi mér að meta Ísland miklu betur og allt sem við höfum: Vatnið, loftið, fólkið og náttúruna. Pabbi minn er írsk-amerískur. Ég er fæddur á Íslandi en bjó svo í Portúgal í smátíma og í Danmörku í fjöldamörg ár. Ég er smá heimsborgari en mér finnst rosalega gott að vera kominn heim til Íslands, ég fíla mig mjög vel hérna heima eftir að hafa verið í Evrópu.
Að búa í Danmörku þar sem voru engin fjöll, flatur sjór, vont vatn, það breytti minni sýn á Ísland. Þegar ég flutti burt ætlaði ég aldrei að koma heim aftur, þetta var svo ömurlegt land, myrkrið, kuldinn, fámennið og dýrtíðin. Svo var ég tíu ár í burtu og kom heim og fattaði að þetta er ekki svona slæmt.
„Mig langaði að upplifa að vera hinsegin maður einhvers staðar annars staðar en á Íslandi
En mig langaði að upplifa að vera hinsegin maður einhvers staðar annars staðar en á Íslandi. Það var allt öðruvísi, það er miklu stærri „gay kúltúr“ í evrópskum borgum en á Íslandi, þó það sé alltaf að skána hér. Það er bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks, ég finn alveg fyrir því, en það er eitthvað sem við verðum að halda áfram að vinna í og halda áfram að fræða fólk. Við erum ekki öll eins. Ég hef ekki mikið fundið fyrir bakslaginu persónulega en ég er ekki viðkvæmur fyrir því að fólki sé illa við mig af því hver ég er. Þá bara hefur þú það þannig.
Ég er algjör tuðari, en ég reyni samt að sýna betri hliðina þegar ég er í vinnunni. Ég er hárgreiðslumeistari, búinn að vera það í næstum þrjátíu ár, ég er að verða fimmtugur. Núna er lognið á undan storminum, ég þarf að sofa vel og borða vel til að vera vel stemmdur fyrir mikla vinnu í desember. Jólin verða síðan eins róleg og ég mögulega get. Ég er ekkert rosalegt jólabarn, ég verð einn með mömmu á jóladag og annan í jólum, hún kemur og gistir hjá mér.“
Athugasemdir