Það er vel þekkt að verðbólga leggur þyngri byrðar á þá tekjulægri en þá tekjuhærri. Það liggur í því að þau tekjulægri hafa minna borð fyrir báru til að taka á sig hærri framfærslukostnað.
Vaxtahækkanir Seðlabankans til að ná niður verðbólgu sl. 2-3 ár lögðu líka meiri byrðar á þau tekjulægri og skuldugri. Þau sem hafa háar tekjur og litlar skuldir fundu ekki fyrir vaxtahækkunum, ýmist vegna lægri íbúðaskulda eða vegna þess að vaxtakostnaður var mun lægra hlutfall af hærri tekjum þeirra.
Aðferð Seðlabankans við að lækka verðbólguna leggur þannig mjög misþungar byrðar á stéttir eða tekjuhópa samfélagsins. Ríkisstjórnin hefði hins vegar getað gripið til aðgerða gegn verðbólgunni sem miðuðu að því að draga úr neyslu og fjárfestingum þeirra betur settu, og draga úr einkaneyslu ferðamanna, en það var almennt ekki gert í yfirstandandi verðbólgutíð. Í staðinn beindust aðgerðirnar nær eingöngu gegn þeim verr settu.
Raunar gerði ríkisstjórnin illt verra með því að reka ríkissjóð með stórum viðvarandi halla frá Kóvid kreppunni, auk þess að grípa ekki til neinna aðgerða í formi eftirspurnarstjórnunar, í anda Keynes. Það jók verðbólgu og á sinn þátt í óhóflegum vaxtahækkunum Seðlabankans. Til viðbótar jók óstjórn húsnæðismála verðbólguna mikið. Ríkisstjórnin getur því fátt þakkað sér núna þegar verðbólgan er farin að lækka.
Almennt á verkalýðshreyfingin mestan heiður af því að taka út þrýsting á verðlagið með hóflegum launahækkunum í fjögurra ára kjarasamningum sl. vor og með því að krefja ríkisstjórnina um eflingu tilfærslukerfa fyrir þau verr settu. Það bætti stöðuna og skapaði mikilvægustu skilyrðin fyrir lækkun verðbólgu. Bankar og ríkisstjórnin bera hins vegar ábyrgð á því hversu seint það hefur skilað sér í lækkun vaxta.
Hvernig byrðunum var skipt
Verðbólgan fór að aukast á seinni hluta ársins 2021 og vaxtahækkanir fylgdu í kjölfarið. Frá 2021 til 2023 tvöfaldaðist það hlutfall heimila almenns launafólks sem sagði erfitt að ná endum saman í heimilisrekstrinum, fór úr um 23% í 45%. Hjá verkafólki fór hlutfall heimila með erfiðleika úr 38% í 60% á sama tíma. Þetta var mikil aukning byrða hjá launafólki, raunar ígildi risavaxinna skattahækkana á skuldug heimili. Leigusalar hækkuðu leigu í kjölfarið.
En skoðum nánar hvernig byrðum vegna verðbólgu og vaxtahækkana var deilt á heimili í ólíkum tekjuhópum (sjá meðfylgjandi mynd). Tölurnar eru fyrir 2023, þegar bæði verðbólga og vextir náðu hámarki (tölurnar koma úr könnun Vörðu).
Á lárétta ásnum eru sýndar mismunandi ráðstöfunartekjur heimila eftir skatt, en á þeim lóðrétta er sýnt hlutfall heimila í mjög miklum erfiðleikum við að ná endum saman (rauðu súlurnar) og svo samanlagt hlutfall þeirra sem segja það mjög erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt (gráu súlurnar).
Eins og sjá má af myndinni var mjög sterkt samband milli ráðstöfunartekna og þrenginga við að ná endum saman í rekstri heimila í fyrra. Erfiðleikarnir voru langmestir hjá þeim tekjulægstu og fóru svo rólega minnkandi með millitekjum og fjöruðu út þegar komið er upp í hærri tekjur tveggja fyrirvinna. Hjá þeim tekjuhæstu var hverfandi hlutfall fólks sem sagðist eiga erfitt með að ná endum saman.
Það blasir þannig við að þau tekjuhæstu og eignamestu fundu lítið sem ekkert fyrir þrengingum vegna verðbólgunnar og vaxtahækkana Seðlabankans. Háar tekjur og/eða minni skuldir sáu fyrir því.
Þau best settu voru stikkfrí
Það er því rétt þegar sagt er að verðbólgan hafi verið barin niður með svipuhöggum á fólk í lægri og milli tekjuhópum. Þau best settu voru hins vegar stikkfrí!
Raunar segir Seðlabankinn í nýjasta hefti af Peningamálum að sparnaður hafi aukist mikið undanfarið. Þar er væntanlega um sparnað þeirra tekjuhærri og eignameiri að ræða. Það fólk nýtur hærri vaxta af sparifé sínu. Þau sem skulda mest fengu refsingu, en þau sem áttu afgang fengu verðlaun með meiri ávöxtun sparifjár. Eignaskiptingin varð ójafnari sem þessu nemur.
Þetta er óréttlætið sem sú hagstjórn sem stunduð hefur verið á Íslandi sl. 3 ár hefur lagt á fólk. Þetta dregur einnig fram hversu óréttlát og ófullnægjandi aðferð Seðlabankans við að ná niður verðbólgu er.
Þó talað sé um að vaxtabyrðin leggist á heimilin, eins og um þau öll sé að ræða, þá gildir það ekki um heimili þeirra best settu.
Það er raunar eitt helsta einkenni hægri hagstjórnar alls staðar að hún leggur byrðarnar mest á þá verr settu en hlífir þeim betur settu. Hægri hagstjórn grefur yfirleitt undan vinstri velferð.
Hagfræðinga meðaltalsaðferðir hafa sýnt sig að duga ekki þegar á reynir. Ríkisstjórn getur náð góðum árangri við að ná niður verðbólgu með fjölmörgum hliðarráðstöfunum til styrktar láglaunafólki meðfram meðulum seðlabankans. Það eru mismunandi hlutir sem skipta máli fyrir mismunandi stéttir