Verkföll standa enn yfir meðal starfsmanna verksmiðju Bakkavarar í Spalding í Lincolnshire í Bretlandi. Verkfallsaðgerðir félagsmanna breska stéttarfélagsins Unite the Union hafa staðið yfir í tvo mánuði.
Fyrr í mánuðinum kom hópur á vegum stéttarfélagsins til landsins til þess að vekja athygli á kjaradeilunni með auglýsingaherferð sem margir hafa eflaust séð á flettiskiltum víðs vegar um borgina. Stéttarfélagið skipulagði einnig mótmæli í samstarfi við stéttarfélagið Eflingu sem fóru fram fyrir utan skrifstofur bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona á Granda, en þeir eru meirihlutaeigendur Bakkavarar Group plc.
Þá sendi stéttarfélagið bræðrunum bréf þar sem óskað var eftir því að þeir beittu sér fyrir því að leysa úr kjaradeilunni og koma til móts við kröfur starfsfólksins um betri kjör og bættar vinnuaðstæður í verksmiðjunni. Talsmaður Unite the Union segir í samtali við Heimildina að bræðurnir hafi enn sem komið er ekki svarað erindi stéttarfélagsins.
Stéttarfélagið hefur einnig sent hóptil Austurríkis þar sem til stendur að beita annan hluthafa Bakkavör Group þrýstingi til þess að skerast í leikinn og beita sér fyrir því að samið verði um ásættanleg laun. Unite the Union hefur sagt að flestir starfsmenn verksmiðjunnar fái greitt um 11,54 pund á tímann, sem eru rúmlega tvö þúsund íslenskar krónur.
Höfnuðu tilboði Bakkavarar
Kjaraviðræður hafa borið lítinn árangur enn sem komið er. Claire Peden, talsmaður Unite the Union, segir í samtali að félagsmenn hafi nýlega hafnað tilboði Bakkavarar með miklum meirihluta atkvæðagreiðslu.
Claire upplýsir að tilboð Bakkavarar hafi hljóðað upp á milli sex til 33 punda hækkun á vikulaunum starfsmanna. Sumir myndu því hækka í launum um rúmar 4.000 krónur á mánuði á meðan þeir sem fengju hæstu launahækkunina myndu fá um 23.000 króna hækkun á mánaðarlaunum sínum.
Þá bauð fyrirtækið öllu starfsfólki verksmiðjunnar 350 punda eingreiðslu til að greiða fyrir samningunum. Það eru rúmlega 61.300 íslenskar krónur.
Slitu viðræðum
Claire segir að eftir að félagsmenn höfnuðu tilboði Bakkavarar hafi fyrirtækið brugðist við með því að slíta kjaraviðræðunum við stéttarfélagið með vísan í bresk lög um kjaradeilur og hefjast handa við að hafa samband við starfsfólk verksmiðjunnar og leggja tilboð sitt fram við hvern og einn starfsmann verksmiðjunnar persónulega.
Stéttarfélagið hafi brugðist við þessu með því að tilkynna Bakkavör að félagið hafi endurnýjað kjaradeiluna. Claire segir að félagið muni efna til atkvæðagreiðslu um frekari verkfallsaðgerðir til þess að mótmæla því sérstaklega að fyrirtækið hafi slitið kjaraviðræðunum.
„Þetta mun veita félagsfólki okkar lagalega vernd gegn því að vera sagt upp eftir 20. desember, þegar slík lagaleg vernd myndi öllu jöfnu renna út,“ segir Claire og bætir við að fjöldi þeirra sem taka þátt í verkfallsaðgerðum hafi aukist eftir þetta útspil Bakkavarar. Nú séu um 480 manns í verkfalli frá því í síðustu viku.
Ferja starfsfólk milli verksmiðja
Alls starfa 1.400 manns í verksmiðju Bakkavarar í Spalding og hefur því rúmlega þriðjungur starfsfólks verið í verkfalli undanfarna tvo mánuði. Verkfallið hefur valdið þó nokkru raski á starfsemi félagsins sem hefur komið fram í því að einstaka matvörur sem fyrirtækið framleiðir hafa horfið úr hillum í helstu matvöruverslunum víða um Bretland.
Skortur á grísku ídýfunni taramasalata hefur vakið mesta athygli þar í landi og hafa fjölmiðlar í Bretlandi fjallað mikið um þessa vöru, sem var um stund ófáanleg í verslunum á borð við Sainbury’s, Tesco’s, Marks & Spencer og Waitrose.
Í frétt sem birtist í breska tímaritinu the Financial Times er skorturinn rakinn til verkfallanna í Spalding. Í þeirri umfjöllun var haft eftir talsmanni Bakkavör Group að rofið í framleiðslu væri tímabundið og fyrirtækið hafi brugðist við trufluninni með því að virkja aðrar verksmiðjur fyrirtækisins vinna um framleiðsluslakann á einstaka vörum. Bakkavör rekur 20 verksmiðjur til viðbótar víðs vegar um Bretland og þar starfa samtals um 13.500 manns.
„Þau kjósa að standa straum af þessum kostnaði í stað þess að gefa félagsmönnum okkar verðskuldaðar launahækkanir“
Claire segir að Bakkavör sé um þessar mundir að flytja starfsfólk frá verksmiðju sinni í bænum Tilmanstone til verksmiðjunnar í Spalding til að ganga í störf þeirra sem taka þátt í verkfallinu. Um er að ræða rúmlega 280 kílómetra ferðalag sem Claire segir að fyrirtækið niðurgreiði fyrir starfsfólkið frá Tilmanstone. Ásamt því leggi Bakkavör út fyrir gistingu starfsfólksins.
„Þau kjósa að standa straum af þessum kostnaði í stað þess að veita félagsmönnum okkar verðskuldaðar launahækkanir,“ segir Claire.
Höfða til stjórnmálamanna í aðdraganda kosninga
Claire segir í samtali að herferð stéttarfélagsins hér á landi sé hvergi nærri lokið og sendinefnd á vegum félagsins muni snúa aftur til landsins þangað til að það tekst að semja.
Í tilkynningu sem stéttarfélagið sendi frá sér fyrr í vikunni segir að fulltrúar félagsins muni á næstu dögum funda með íslensku stjórnmálafólki.
Í orðsendingu sem vinnudeilusvið Unite the Union sendi frá sér ávarpar stéttarfélagið stjórnmálamenn á Íslandi og kallar eftir því að viðskipti ríkisins við Bakkavararbræður í gegnum fyrirtæki á borð við tæknifyrirtækið Origo, sem bræðurnir eiga hlut í, séu tekin til endurskoðunar í ljósi framgöngu þeirra gagnvart verkafólki í Englandi.
„Við viljum vekja íslenskt stjórnmálafólk til umhugsunar um hvort þau vilji stunda viðskipti við þessa menn og hvaða siðferðiskröfur sé eðlilegt að gera til aðila sem hljóta svo stóra samninga við ríkið.“
Athugasemdir (1)