Sextíu og níu sjúklingar bráðamóttökunnar dvöldu lengur en 100 klukkustundir á deildinni í september og október. Á þessum tveimur mánuðum leituðu 10.458 sjúklingar á bráðamóttökuna og af þeim voru 1.391 sjúklingur lagður inn á legudeildir Landspítalans. Eitt hundrað sjúklingar voru lagðir beint inn á gjörgæsludeildir spítalans eftir stutta dvöl á bráðamóttökunni.
Vegna plássleysis á legudeildum Landspítalans er bráðamóttakan oft yfirfull og því þurftu þessir 69 sjúklingar að dvelja á bráðamóttökunni lengur en í 100 klukkustundir. Sjúklingarnir eru í mörgum tilvikum eldra fólk sem þarf að liggja í skarkalanum sem er viðvarandi á bráðamóttökunni. Á legudeildum spítalans er það líka gamalt fólk sem teppir deildarnar því það getur ekki farið heim til sín og það getur ekki farið á hjúkrunarheimili sem eru ekki til.
Jóhannes Kr. Kristjánsson hefur í fjóra mánuði verið á vettvangi bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Í þáttaröðinni Á vettvangi sem unnin er fyrir Heimildina veitir hann einstaka innsýn inn í starfsemi bráðamóttökunnar, þar sem líf og heilsa einstaklinga er undir. Á vettvangi fer í loftið 22. nóvember. Um leið birtist ítarleg umfjöllun í prentútgáfu Heimildarinnar. Sjá má stiklu úr hlaðvarpsseríunni hér að ofan.
Athugasemdir