Almar Steinn Atlason, sem er landsmönnum að góðu kunnur vegna gjörninga sinna og málverka, hefur sent frá sér sína fyrstu skáldsögðu sem ber heitið Mold er bara mold. Almar varð þjóðþekktur árið 2015 sem Almar í kassanum eftir að hann dvaldi nakinn í heila viku inni í glerkassa í Listaháskólanum.
Sameiginlegt útgáfuhóf Almars og Braga Páls Sigurðssonar er haldið í Tjarnarbíói og hófst síðdegis í dag, en nýjasta skáldsaga Braga Páls heitir Næstsíðasta líf Jens Ólafssonar Olsen.
Um er að ræða afar framúrstefnulegt útgáfuhóf en þar mun hljómsveit Braga Páls, Dungeon Boyz, taka lagið, þá mun Bragi Páll lesa upp úr bók sinni og síðan tekur Almar við. Útgáfuhófð er hér í beinu streymi en upplestur Almars hefst um klukkan 18.
Skáldsagan Mold er bara mold er í þremur bindum sem koma saman í kassa. Undirtitill verksins er Litla systir mín fjöldamorðinginn, og utan á kassanum er spurt: Er hægt að gerast fjöldamorðingi fyrir misskilning?
„Þetta er sagan af Beggu Sól, ævintýraleg hetjusaga í þremur hlutum um erfiðleika, ofbeldi, afleiðingar, sorgir og glórulaust klúður. Við fylgjum Beggu eftir í gegnum völundarhús skriffinnskuvélarinnar, myrkar dýflissur þeirra valdagráðugu og virðulegu og út í auðnir órablámans – handan þokunnar, réttlætisins og fjallanna. Misskilningurinn er sannarlega það besta sem gvuð hefur fært manninum. Án hans gætum við aldrei elskað hvert annað,“ segir í lýsingu á skáldsögunni.
Hlutarnir þrír kallast Með Venus í skriðdreka, Þindarlaus frásögn af erfiðum degi manns í Efra-Breiðholti, og Frelsið er takmarkað.
Athugasemdir