Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir það fullgilda spurningu hvort það hafi verið of dýri verði keypt að vera í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum síðustu sjö ár. Á sama tíma er hún þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt ákvörðun að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfinu, þótt það hafi endað með þessum hætti.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í viðtali við Svandísi í nýjasta tölublaði Heimildarinnar þar sem hún fer yfir aðdragandann að stjórnarslitunum í haust og ræðir áherslur Vinstri grænna í kosningabaráttunni og verkefnið fram undan: Að komast inn á þig.
Svandís segir krafta Vinstri grænna vel nýtta við ríkisstjórnarborðið. „Við eigum flokka á Norðurlöndunum, til að mynda Enhedslisten í Danmörku, sem hefur tekið ákvörðun um það að taka ekki þátt í ríkisstjórn. Þau líta svo á að þau leggi meira af mörkum með því að vera í stjórnarandstöðu. Alltaf. Það hefur aldrei verið okkar niðurstaða. Við höfum alltaf litið svo á að það væri betra fyrir allar ríkisstjórnir að hafa VG innanborðs. Ég er enn þá sannfærð um að svo sé. Hins vegar þá sér maður þegar maður horfir til baka, að ákvörðun um að vera í ríkisstjórnarsamstarfi af þessu tagi og freista þess að fara í annað kjörtímabil, vegna þess að við fengum til þess mjög sterkt umboð, að það var afdrifaríkt. Það er fullgild spurning hvort það hafi verið of dýru verði keypt.“
„Við höfum alltaf litið svo á að það væri betra fyrir allar ríkisstjórnir að hafa VG innanborðs. Ég er enn þá sannfærð um að svo sé.“
Verði það niðurstaðan 30. nóvember að Vinstri græn fá ekki þingmann kjörinn verður það í fyrsta sinn frá stofnun flokksins sem hann á ekki fulltrúa á Alþingi. Aðspurð hvaða áhrif það muni hafa á framtíð Svandísar í stjórnmálum segir hún það ótímabæra spurningu. „Við erum í kosningabaráttu til að ná árangri. Ef ég væri Dani myndi ég segja Den tid, den sorg. En sjáum til, sjáum til. Ég hef trú á því að við náum okkar markmiðum.“
Hér má lesa, og hlusta, á viðtalið við Svandísi í heild sinni.
Leiðtogar flokka sem bjóða fram til Alþingis og mælast með 2,5 prósenta fylgi hafa allir fengið boð um viðtal í Heimildinni til að kynna sín áherslumál. Sami rammi er um öll viðtölin og dregið var um dagsetningar. Leiðtogaviðtölin verða birt í næstu blöðum og á vefsíðu Heimildarinnar þar sem einnig verður hægt að nálgast hljóðútgáfu af viðtölunum.
Athugasemdir