Nýlega fundust bjórdósir í ruslatunnu á LAM-safninu í Lisse í Hollandi. Það er ekki óvenjulegt enda er oft mikið fjör á safninu og boðið upp á drykki á opnunum listasýninga. En hvað ef bjórdósirnar eru ekki leifar af neyslu gesta heldur listaverk?
Um er að ræða verkið All the good times we spent together eftir franska listamanninn Alexandre Lavet. Við fyrstu sýn virðast þetta vera venjulegar, tómar og beyglaðar bjórdósir af hinum vinsæla belgíska Jupiler-bjór, en við nánari skoðun sést að vörumerkin og aðrar upplýsingar eru handmáluð. Mikil vinna fór í gerð dósanna og segir listamaðurinn að þær séu tákn fyrir þær dýrmætu stundir sem hann hefur átt með vinum sínum. En þessar dýrmætu minningar virðast ekki hafa verið nægilega áberandi í verkinu þar sem starfsmaður safnsins henti því í ruslatunnu. Því bjórdósirnar voru, jú, til sýnis á gólfi lyftu safnsins. Það sem er mikilvægt hér er samhengi verksins og safnsins. LAM-listasafnið sýnir verk sem tengjast mat og neysluvörum og vill með sýningum sínum hvetja gesti til að sjá hversdagslega hluti í nýju ljósi. Það er meðal annars gert með því að sýna listmuni safnsins á óhefðbundnum stöðum.[1]
Fyrr á þessu ári kom upp annað forvitnilegt atvik þar sem gestur á Guggenheim-safninu í New York klæddi sig úr skítugum og slitnum Converse-strigaskó og stillti honum upp í sýningarrými. Aðrir safngestir námu staðar við skóinn, virtu hann fyrir sér eins og önnur listaverk og tóku myndir af honum. Myndskeið af skítuga skónum og listþyrstum gestum Guggenheim fór um vefheima eins og sinueldur. Sum vildu meina að hrekkjótti gesturinn væri listamaður sem væri að opna augu annarra gesta fyrir eðli listarinnar og ögra hefðbundum ramma hennar. Mörg svipuð atvik hafa átt sér stað á listasöfnum um allan heim.[2] Þessi prakkaraskapur er áhugaverður þar sem hann varpar ljósi á flókið samband samtímalistar við hversdagsleg fyrirbæri og upplifun áhorfanda á listmunum. Ef hlutur er inni á listasafni, er hann þá listaverk? Þurfum við að láta segja okkur hvort um list sé að ræða eður ei?
„Þurfum við að láta segja okkur hvort um list sé að ræða eður ei?
Bergmálshellir skilgreininga
Það er þó ekki hægt að forðast að finna tilgerðarlegan þef af atvikum líkt og þeim sem hér hafa verið nefnd. Samtímalistin, og þá sérstaklega hugmyndalistin, hefur þanið út skilgreiningu á því hvað er myndlist (og hvað ekki) og gefið listamönnum aukið frelsi til tjáningar en þetta getur einnig verið íþyngjandi. Ekki aðeins fyrir listamanninn sem þarf að skapa (eða finna) athyglisverðan hlut hlaðinn merkingu en einnig fyrir áhorfandann sem þarf í flestum tilvikum að kryfja verkið í leit að merkingu. Listamaðurinn þarf sífellt að ögra skilgreiningum og reyna á mörk myndlistarinnar og áhorfandinn fylgir ringlaður á eftir. Mörg listaverk eru orðin svo torræð og fjarlæg því sem hinn almenni áhorfandi er kunnugur, að hann klórar sér í höfðinu og spyr: „Er þetta list?“
Segja má að sum umfjöllun um listaverk minni á sögu H.C Andersen, Nýju fötin keisarans. Gagnrýnendur og listamenn keppast við að hrósa listaverkum, fara út í háheimspekilegar túlkanir og útúrdúra og týna þræðinum í skilgreiningarbrjálæði. En raunin er sú að keisarinn, í þessu tilviki listaverkið, er nakinn. Listaverkið sjálft getur oft verið ákaflega einfalt – sem er í sjálfu sér ekki neikvætt – eins og Converse-skórinn á Guggenheim. En stundum skapar listamaðurinn verk sem eru svo hlaðin óræðri merkingu að þau verða ólæsileg og óaðgengileg, meira að segja fyrir fagumhverfi myndlistarinnar. Þá getur hið sama gerst, listfræðingar og listamenn hamast við skilgreiningar og upphafningu verksins. Öll vilja sýna getu sína og hæfni, en í raun eru þau lokuð inni í bergmálshelli með nöktum keisara. Mér kemur til hugar hér misheppnaðar og róttækar listastefnur, t.d. Lettrismi, en þar var listformið orðið svo flókið að eftir sátu hrá og óskýr verk án dýptar. Stefnan féll um sjálfa sig þar sem fagfólk sem og hluti almennings þóttist skilja hana til að vera hluti af róttækri bylgju, en í raun skildu þau ekki hvað var í gangi.
En hvað með hinn almenna áhorfanda? Hefur samtímalist þróast þannig að hún er ekki lengur aðgengileg nema þú sért vel lesinn í heimspeki og listasögu? Eða eru þetta allt saman bara aukakrókar sem skipta ekki máli fyrir heildarmyndina?
„Hefur samtímalist þróast þannig að hún er ekki lengur aðgengileg nema þú sért vel lesinn í heimspeki og listasögu?
Upplifun eða skilningur
Þegar listaverk er skoðað skiptir það að mínu mati mestu máli hvort verkið valdi hughrifum og skapi tengsl – óháð því hvort maður skilji verkið eða ekki. Þótt það sé í eðli mannverunnar að leita eftir skilningi þurfum við stundum bara að gefa heilanum smáhvíld við flokkun og greiningu og einfaldlega njóta. Ljótt eða fallegt, skilningur eða ekki – ekkert listaverk er of flókið til þess að vekja forvitni og virða einfaldlega fyrir sér, rétt eins og Converse-skórinn á Guggenheim-safninu og bjórdósir Lavet. Svo verður bara hver og einn að ákveða hvort hann vilji hætta sér út á jarðsprengjusvæði skilgreininga og kenninga.
[1] Froukje, „Lift technician mistakes LAM museum artwork for rubbish and disposes of it,“ LAM, 1. október 2024. https://www.lammuseum.nl/en/lift-technician-mistakes-lam-museum-artwork-for-rubbish-and-disposes-of-it/
[2] „Watch: Woman Keeps A Shoe On New York Museum Floor And Then This Happened,“ News18, 22. ágúst 2024.
Athugasemdir