„Ég ætla bara að skamma mitt bakland, verkalýðshreyfinguna. Mér finnst verkalýðshreyfingin ekki hafa sýnt samkeppni nógu mikinn áhuga. Því samkeppni á borð við Prís getur verið meira virði en einhver lífskjarasamningur. Það vantar þetta tal um samkeppnismálin.“
Þetta sagði Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur hjá stéttarfélaginu Visku, í nýjasta þætti Pressu á föstudag. Hann var þangað kominn ásamt Benedikt S. Benediktssyni, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, til að ræða um matvöruverð og íslenskan matvörumarkað.
Skaðlegt að gengisfella SKE
Vilhjálmur segir að það sé ekki annað hægt en að draga aðra ályktun en að núverandi stjórnvöld hafi markvisst veikt Samkeppniseftirlitið (SKE), hvort sem það væri með ráðum gert eða ekki.
„Ég vona að fólk hafi það í huga þegar það kýs núna. Hvort stjórnmálaflokkar hafi yfirleitt áhuga á samkeppni og hvað hún þýðir,“ segir hann. Búið sé að gengisfella og tala gegn orðspori SKE, sem sé mjög skaðlegt.
Benedikt tók undir þetta. „Ef pólitíkin er tilbúin að ræða samkeppni þá er það bara af hinu góða. Það sem ég veit að minn geiri hefur mikið kallað á er öflugri leiðbeiningagjöf frá SKE.“
Tilkoma Prís hafði áhrif á matarverðbólguna
Hvað við kemur Prís, lágvöruverslun í Kópavogi sem opnaði í sumar, segir Benedikt að það sé mjög hollt fyrir markaðinn að fá nýja aðila inn með nyjar áherslur. Aukin samkeppni sé öllum til hagsbóta.
Vilhjálmur segir að sér þyki stórkostlega merkilegt að um leið og Prís hafi opnað hafi matarverðbólgan staðnað. „Við sjáum að þarna er ein búð sem í rauninni getur ekki keppt svo mikið því hún er á einum stað og svo framvegis. En hún hefur samt þessi marginal áhrif á vöruverð.“
Hann segir að passa þurfi þó að mála ekki upp of dökka sviðsmynd. „Jú, matvælaverð er hérna 40% hærra hérna en að meðaltali í Evrópulöndunum. Það er ýmislegt sem er dýrara. Þetta er ekki súperhagnaður [hjá matvöruverslunum] en það getur líka verið afleiðing af því að markaðurinn er bara fastur í meðalmennskunni vegna þess að samkeppni er ekki til staðar.“
Ef til vill mætti endurhugsa kerfið sem til staðar sé. „Af hverju er þessi virðiskeðja til staðar? Álagning frá heildsölunum og smálsölum. Kerfið er ekkert sérstaklega þróað eða fágað,“ segir Vilhjálmur. Hann bendir á að verslunin hljóti að leita allra leiða til að kippa milliliðunum út. „Prís er búið að takast það að mestu, hin hafa ekki gert það.“
Horfa má á nýjasta þátt af Pressu í heild sinni hér að neðan:
Athugasemdir