Í lok ágúst kom út í Bandaríkjunum bókin I Heard There Was a Sacred Chord: Music as Medicine eftir Daniel J. Levitin. Levitin er afkastamikill höfundur, tónlistarmaður og sálfræðingur. Margar fyrri bækur hans komust í fyrsta sæti metsölulista vestra og hafa verið þýddar á 28 tungumál. Ég er hrifin af bókum um sálarlíf einstaklinga og samfélagið, sérstaklega þegar þær eru byggðar á vísindalegum rannsóknum eins og bækur Levitin. Það getur verið erfitt að skrifa fræðilegan texta, gera hann skiljanlegan og áhugaverðan, en slá ekki af vísindalegum kröfum. Taugasérfræðingurinn Oliver Sacks skrifaði fyrstur um taugafræðilegan fjölbreytileika og persónulega skynjun. Sacks er líklega frægastur fyrir bókina um manninn sem hélt að kona sín væri hattur en hann var líka vinur Bjarkar Guðmundsdóttur. Hún nefndi Biophiliu eftir bók Sacks, Musicophilia, en þar skrifar hann um fjölbreytt tengsl tónlistar og heilans og ég hvet þau sem hafa áhuga á þessu efni að lesa hana.
Forvarnir og lífsgæði
Það skynja allir tónlist, hrynjandi, bassa eða tónhæð, og hún hefur áhrif á okkur en aðeins nýlega hefur verið hægt að rannsaka heilastarfsemi í lifandi fólki og skoða nákvæmlega hvernig. Levitin hefur áður skrifað um tónlist, en í I Heard There Was a Sacred Chord kafar hann dýpra en áður í eigin rannsóknir og annarra. Mótvægi við vísindin eru hreinskilnir kaflar um persónulegar upplifanir Levitin, reynslu hans af tónlist, samskipti hans og vináttu við tónlistarmenn. Hann skoðar ekki aðeins gildi tónlistar í andlegri og líkamlegri endurhæfingu heldur einnig hvernig hún geti nýst til forvarna og við að bæta lífsgæði. Hann gerir sögulegri og landafræðilegri vídd tónlistar skil og hvernig tónlist hefur sambærileg áhrif á manneskjur óháð tímabili, tegund og takti. Rannsóknir virðast samt sýna að í öllum tilvikum hefur tónlist einhver áhrif á hlustendur og virkjar mismunandi stöðvar heilans.
Kaflinn um gervigreind og tónlist er sérlega áhugaverður. Rannsóknir á áhrifum tónlistar kosta peninga og beinast helst að þeim sviðum sem geta skilað hagnaði. Eykur tónlist í verslunum sölu? Getur tónlist breytt kauphegðun? Kannski; getur tónlist bætt frammistöðu skólabarna á prófum? Gervigreindaralgrím streymisveitna búa til spilunarlista sem höfða til einstakra hlustenda. En hvað ef tölfræðilegar upplýsingar um fyrri hlustun væri splæst saman við heilbrigðisgögn?
„Kaflinn um gervigreind og tónlist er sérlega áhugaverður
Lyf eða lyfleysa?
Tónlist sem lyf er í titli bókarinnar og Levitin gerir því nokkuð góð skil þó að enn vanti rannsóknir. Eru áhrif tónlistar aðeins þau að draga athygli frá því sem amar að? Er tónlist lyfleysa eða hefur hún raunverulega áhrif á taugaboðefni og seytingu hormóna? Hvernig nákvæmlega virkar tónlist á okkur? Ég vona að rannsóknir framtíðarinnar verði gerðar mannkyninu til gagns en ekki styrktar af markaðsmaskínum stórfyrirtækja sem vilja finna leið til að gera okkur á einhvern hátt háð tónum.
Það er óhætt að mæla með I Heard There Was a Sacred Chord við alla sem hafa áhuga á tónlist eða taugakerfinu. Hún er ansi vísindaleg á köflum en Levitin, sem er líka uppistandari, tókst að halda athygli minni. Að hlusta á hljóðbókina gefur einnig aðra vídd þar sem höfundur les, syngur og spilar á hljóðfæri.
Athugasemdir