Í júní síðastliðnum samþykkti Alþingi Ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 sem hefur að megin markmiði að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri ferðaþjónustu árið 2030. Þar er lögð áhersla á að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á samfélag og menningu og að öryggi og gæði upplifunar gesta sé tryggt. En hvað vitum við um áhrif ferðaþjónustu á samfélagið, íbúa og gesti og hvernig getum við stýrt þeim þannig að þau verði jákvæð og auki velsæld?
Samfélagið sem auðlind ferðaþjónustu
Oft er rætt um ferðaþjónustu út frá framleiðsluhugsun og samanburður gerður við hefðbundnar framleiðslugreinar eins og álframleiðslu og sjávarútveg. Ferðmenn eru þannig taldir, greindir eftir þjóðerni og verðmæti þeirra vegið svo dæmi sé tekið og felur þessi framsetning í sér áherslu á magn eða fjölda. Þessi nálgun var mjög áberandi í kjölfar fjármálahrunsins haustið 2008 en þá töluðu ráðamenn ítrekað um mikilvægi þess að fá hingað eins marga ferðamenn og mögulegt væri og hagsmunaaðilar ferðaþjónustunnar báru sig saman við framleiðslugreinar í tilraunum sínum til að skapa ferðaþjónustu sess í augum stjórnvalda1. Þessi áhersla er ekki eins sýnileg nú en dúkkar þó reglulega upp þegar fjallað er um mikilvægi ferðaþjónustu fyrir þjóðarhag. Hér er því ekki haldið fram að magn- og hagtölur séu ekki mikilvægar heldur að ýmislegt annað skipti líka máli þegar kemur að áhrifum ferðaþjónustu á samfélag.
Öll sem hafa ferðast vita að ferðamennska snýst fyrst og fremst um samskipti og þjónustu. Ferðamennska er ferli þar sem ferðafólk skapar upplifun og minningar í fjölþættum samskiptum við íbúa og þjónustuaðila og sem snerta landslag, menningu og náttúru á ótal vegu. Í þessu ferli felst virði ferðaþjónustunar, hagrænt jafnt sem félagslegt. Það er ekki aðeins ferðafólkið sem er auðlind ferðaþjónustunnar, heldur erum við, sem samfélag, líka auðlind hennar. Við tökum á móti ferðafólki, stundum hvort sem okkur líkar betur eða ver. Gestir landsins nýta sameiginlega innviði og svæði. Þar fyrir utan erum við líka ferðfólk, bæði í eigin landi og erlendis og ferðamennskan hefur áhrif á sjálfsmynd okkar og hvernig við upplifum og skiljum veröldina. Frekar en að líta á ferðaþjónustu sem framleiðslugrein væri við hæfi að hugsa hana sem ræktunarstarf og horfa á ferðaþjónustu sem órjúfanlegan þátt samfélagsins2.
Áhrif ferðaþjónustu á samfélag
Það er margt vitað um áhrif ferðaþjónustu á samfélagið. Fræðifólk hefur sýnt fram á að ferðaþjónusta getur verið drifkraftur breytinga og raunar er hún mjög vinsælt ráð til eflingar byggða sem hafa átt undir högg að sækja vegna samfélagslegra breytinga. Þróun ferðaþjónustu hefur þó alls ekki einhlít áhrif. Meðal áhrifa sem telja má jákvæð má nefna að: Ferðaþjónusta skapar störf, hækkar þjónustustig, eykur stolt og samheldni í samfélögum, eykur menningarlega fjölbreytni, er farvegur nýrrar þekkingar og leiðir til innviðauppbygggingar. Meðal neikvæðra áhrifa sem rannsakendur hafa bent á má nefna vöruvæðingu almannagæða sem lýsir sér í því að opin svæði, t.d. einstakar náttúruperlur í sameign þjóðarinnar eru settar fram sem vara á markaði sem kaupa þarf aðgang að. Önnur neikvæð áhrif ferðaþjónustu á samfélag eru til dæmis: troðningur og offerðamennska (e. overtourism), aðgengi að almannagæðum minnkar, félagsleg undirboð og brot á vinnumarkaði, hagnaður verður ekki eftir á þeim svæðum sem ber álag af ferðaþjónustu, innviðir veikjast og ganga úr sér hraðar en annars væri, þensla á húsnæðismarkaði, einhæfni í atvinnulífi og að hagsmunir ferðaþjónustuaðila ráða í þróun og skipulagi landnýtingar3. Þetta er ekki tæmandi listi, hvorki fyrir jákvæð né neikvæð áhrif sem við vitum, á grundvelli rannsókna, að ferðaþjónusta getur leitt til.
Samhengi skiptir máli
Það sem skiptir mestu máli um áhrif ferðaþjónustu á samfélagið er landfræðilegt og félagslegt samhengi. Ferðaþjónusta einkennist af því að mikill meirihluti gesta kemur um eitt hlið til landsins, Keflavíkurflugvöll, samgönguinnviðir innanlands eru fremur veikburða og almenningssamgöngur takmarkaðar, veður geta verið válynd og miklar umhverfisbreytingar eru að eiga sér stað. Flest fyrirtæki í ferðaþjónustu eru fjölskyldurekin eða rekin af frumkvöðlum og langflest eru þau lítil eða agnarsmá en um 90% þeirra hafa færri en 10 starfsmenn4. Árstíðarsveifla er umtalsverð, fyrir utan sunnanvert landið og suð-vesturhornið5. Margir aðrir vinsælir áfangastaðir á norðurslóðum deila mörgum þessara einkenna, svosem Lappland í Norður Finnlandi og Norður Noregur.
Það sem ræður mestu um hvort að áhrif ferðaþjónustu séu jákvæð eða neikvæð við þessar aðstæður er umgjörð og skipulag greinarinnar. Sem dæmi þá er vitað að líkurnar á neikvæðum áhrifum ferðaþjónustu minnka ef fyrirtæki í ferðaþjónustu starfa með þeim samfélögum þar sem þjónustan er veitt. Þar sem uppbygging ferðaþjónustu tekur mið af þeim auðlindum sem fyrir eru og leggur til við að efla þær. Þar sem er sterkt regluverk og eftirlit með fyrirtækjum og þar sem kröfur eru gerðar til fyrirtækja þegar kemur að öryggi ferðamanna og aðbúnaði og réttindum starfsmanna. Í því felst m.a. að ferðaþjónustan þarf að vera hugsuð og stunduð sem hluti af samfélaginu en ekki lifa í einhverskonar hliðarveruleika við samfélagið þar sem hún er starfrækt6.
Að stýra álagi
Yfirhöfuð eru viðhorf almennings á Íslandi til ferðaþjónustu jákvæð7. Það breytir því þó ekki merki um neikvæð áhrif eru til staðar. Frá árinu 2017 hefur Ísland verið mikið í alþjóðlegri umræðu sem áfangastaður sem einkennist af offerðamennsku sem rýrir jafnt lífsgæði íbúa og upplifun gesta8. Skammtímaleiga húsnæðis til ferðafólks hefur haft umtalsverð áhrif á húsnæðismarkaði9 og brot á réttindum starfsfólks koma reglulega upp í fjölmiðlum. Í þessu sambandi er mikilvægt að átta sig á því að hér er ekki um tilviljunarkennd dæmi að ræða sem eru einstök fyrir Ísland. Þvert á móti eru þetta afleiðingar hnattræns kerfis ferðaþjónustu sem Ísland er hluti af og sem farið er að kalla fram sífellt sterkari viðbrögð almennings víða um heim sem mótmælir atvinnugreininni sem og ferðafólki10.
Þegar kemur að því að stýra álagi á samfélagið þá vitum við í raun hvað til þarf. Í fyrsta lagi þarf rannsóknir og gögn, vöktun og mælingar sem þjónað geta sem grundvöllur að aðgerðum. Allt tal um að stýra álagi ferðaþjónustu eru orðin tóm ef stjórnvöld eru ekki tilbúin til að fjárfesta í uppbyggingu á þekkingu sem varpar ljósi á fjölþætt áhrif ferðaþjónustu.
Viðeigandi aðferðafræði og ýmsar tæknilegar leiðir til álagsstýringar eru líka vel þekktar. Ólíkar aðferðir henta á ólíkum stöðum og tímum og hér skiptir líka máli að samfélagið sem um ræðir er aldrei einsleitt. Það eru mismunandi hagsmunir til staðar sem skipta máli og þarf að taka tillit til.
Á endanum snýst stjórnun á álagi á samfélag þó um gildismat okkar. Viljum við starfa áfram við óbreytt kerfi ferðaþjónustu eða viljum við mögulega endurhugsa stöðuna? Til lengri tíma litið er líklegt að umfang ferðaþjónustu hérlendis vaxi og það er ekkert sem segir að Ísland geti ekki upplifað svipaða þróun fjöldaferðamennsku eins og átt hefur sér stað á stöðum eins og Kanarí eyjum og margir Íslendingar þekkja af eigin raun. Það er því nauðsynlegt að ræða hvað sé nóg og hvað sé of mikið. Hverju fólk sé tilbúið til að sleppa og hvað eigi að vernda og taka til hliðar.
Í nýlega samþykktri Ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 er meginmarkmið að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri ferðaþjónustu árið 2030. Þetta er verðugt markmið og sýnir vilja til að stýra áhrifum ferðaþjónustu á náttúru og samfélag þannig að þau verði jákvæð fyrir land og þjóð. Það er hægt en það gerist ekki af sjálfu sér. Rannsóknir og nýsköpun, fræðsla og aukin fagmennska í greininni vinna að því marki sem og lýðræðisleg samvinna og pólitískt afl til að taka ákvarðanir og styrkja regluverk og stuðningskerfi greinarinnar. Í því samhengi skiptir sérstaklega miklu máli að stjórnvöld standi vörð um hagsmuni almennings í stefnu og ákvörðunum. Það eru ákveðin verkfæri og ferli til staðar nú þegar til að vinna að þessum málum með skilvirkum hætti. Þekkingargrundvöllurinn er hins vegar veikur og það er forgangsverkefni að styrkja hann ef efla á málefnalega umræðu um ferðamál og fara í raunverulegar aðgerðir sem styðja sjálfbæra þróun. Fjárfesting í rannsóknum og menntun á sviði ferðamála hefur raunar verið eitt helsta markmið stjórnvalda frá upphafi stefnumótunar í ferðaþjónustu hér á landi á 8. áratug síðustu aldar11. Því hefur einfaldlega ekki verið sinnt í neinum takti við vöxt greinarinnar. Nýsamþykkt Ferðamálastefna gefur fyrirheit um breytingar á því en fjármögnun stefnunar er enn óljós. Til að stýra áhrifum ferðaþjónustu er nauðsynlegt að fjárfesta í sjálfbærri þróun og hafa hugfast að hún er ekki bara tæknilegt úrlaunarefni um álagsstýringu á einstökum stöðum heldur fyrst og síðast viðvarandi samfélagslegt verkefni.
Heimildir
1 Jóhannesson, G. T., & Huijbens, E. (2010). Tourism in times of crisis: Exploring the discourse of tourism development in Iceland. Current Issues in Tourism, 13(5), 419-434.
2 Huijbens, E., & Jóhannesson, G. T. (2019). Tending to Destinations: Conceptualising tourism’s transformative capacities. Tourist Studies, 19(3), 279-294. doi:10.1177/1468797619832307
3 Edward Huijbens, Gunnar Þór Jóhannesson, & Magnús Haukur Ásgeirsson. (2024). Ferðamál á Íslandi (2. útgáfa ed.). Reykjavík: Mál og menning.
4 Hagstofa Íslands. (2024). Fjöldi fyrirtækja og rekstrarupplýsingar eftir atvinnugreinum og stærð 2008-2022. Fjöldi fyrirtækja og rekstrarupplýsingar eftir atvinnugreinum og stærð 2008-2022. PxWeb
5 Thórhallsdóttir, Gyða, Ólafsson, Rögnvaldur, Jóhannesson, Gunnar Thór, Árnason, Thorvardur og Guðmundsson, Rögnvaldur. (2024). Mobility Patterns and Sustainable Tourism: Planning and Managing Tourism in Iceland. Journal of Arctic Tourism 2(1), 15-26. : https://doi.org/10.33112/arctour.2.2
6 Edward Huijbens, Gunnar Þór Jóhannesson, & Magnús Haukur Ásgeirsson. (2024). Ferðamál á Íslandi (2. útgáfa ed.). Reykjavík: Mál og menning.
7 Eyrún Jenný Bjarnadóttir. (2024). Viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu 2023. Ferðamálastofa.
8 Sæþórsdóttir, A. D., Hall, C. M., & Wendt, M. (2020). From Boiling to Frozen? The Rise and Fall of International Tourism to Iceland in the Era of Overtourism. Environments, 7(59). doi:10.3390/environments7080059
9 Mixa, M. W., & Loftsdóttir, K. (2024). ‘People need housing to live in’: precarity and the rental market during tourism gentrification. Housing Studies, 1-22. doi:10.1080/02673037.2024.2339920
10 Milano, C., Novelli, M., & Russo, A. P. (2024). Anti-tourism activism and the inconvenient truths about mass tourism, touristification and overtourism. Tourism Geographies, 1-25. doi:10.1080/14616688.2024.2391388
11 Gunnar Þór Jóhannesson. (2012). Tími til að tengja? Af stefnumótun í ferðaþjónustu á Íslandi. Stjórnmál og Stjórnsýsla, 8(1), 173-193.
Höfundur er prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands gtj@hi.is
Athugasemdir (1)