Grundvöllur lýðræðis er jafn möguleiki til þátttöku. Augljóst er að þær kosningar sem boðað hefur verið til 30. nóvember eru ekki sérstaklega lýðræðislegar. Frá því þær voru tilkynntar höfðu framboð rétt um tvær vikur til að skila inn framboðslistum. Á Alþingi í dag eru átta flokkar. Þrír þeirra eru minna en tíu ára gamlir. Sex voru stofnaðir um eða eftir síðustu aldamót. Ljóst er að svona skyndikosningar henta rótgrónum öflum best en eru afar hár þröskuldur fyrir nýrri hreyfingar, hvað þá splunkunýjar. Þá hefur prófkjörum að mestu verið slaufað og til kallaðar uppstillingarnefndir og flokksráð. Þetta hefur skapað eins konar pólitískt tómarúm sem flokkarnir ætla í óðagoti að fylla upp í með þjóðþekktum andlitum.
„Ekkert pólitískt litróf heldur pólitískur gráskali“
Allt saman afhjúpar þetta tilvistarvanda íslenskra stjórnmála. Hér birtast ekki hugmyndir, hvað þá hugmyndafræðileg átök, bara andlit. Ekkert pólitískt litróf heldur pólitískur gráskali. Maður fær á tilfinninguna að flest þetta fólk gæti boðið sig fram fyrir sex mismunandi flokka, hver er munurinn? Hann er enginn, aðeins þessi andlit, þessi fullkomna kyrrstaða.
Því um hvað snúast íslensk stjórnmál? Um það sama og þau hafa snúist í þau þrjátíu ár sem ég hef fylgst með þeim: hagsmunagæslu. Á komandi vikum munu hagsmunaverðirnir reyndar þyrla upp öllu því ryki sem sest hefur á ráðherrastólana þeirra, tala um útlendinga og orkuskipti, einhverjir munu jafnvel gera sér upp áhuga á íslenskri menningu og tungu, en allt saman snýst þetta um að breyta helst engu, standa vörð um hagsmuni nokkurra fjölskyldna sem eiga stærstu flokkana og flesta fiskana, standa vörð á meðan íslenskt samfélag horfist í augu við stórkostlegan vanda: skuldir hækka, ofbeldi eykst, biðlistar lengjast og sífellt fleiri börn verða fórnarlömb getuleysis stjórnvalda til að hlúa að þeim sem minnst mega sín, sum börn gjalda jafnvel með lífi sínu.
Vonandi munu einhverjir hinna nýju frambjóðenda láta sig þetta varða af alvöru og einlægni.
Alþingiskosningar á Íslandi mega ekki snúast um það eitt að framlengja pólitískt líf formanns Sjálfstæðisflokksins.
Athugasemdir