Ég vil biðla til stjórnvalda um hjálp! Þetta er komið út í eintóma vitleysu varðandi meðferðarheimilið á Varpholti/Laugalandi. Ég stíg fram undir nafni þar sem við sem höfum slæma reynslu af Varpholti/Laugalandi erum mun fleiri en þær sem hafa komið fram í fjölmiðlum. Ég stíg ekki fram af því ég vilji leika einhverja hetju heldur er ég búin að fá meira en nóg. Sumar treysta sér ekki til þess því þær óttast niðurlægingu og fordóma frá samfélaginu. Ég skil þær fullkomlega! Ég vil þakka hinum kærlega fyrir baráttuna fram að þessu. Það sem fyllti mælinn hjá mér var grein sem kom út í byrjun vikunnar þar sem þau sem ráku Varpholt/Laugaland neita sök og segja að fjölmiðlar hafi tekið því sem þau kalla lygi þeirra sem voru á vistheimilinu fagnandi.
Ég vona að mín rödd dugi til þess að hægt sé að ganga frá þessu máli á annan hátt en í gegnum fjölmiðla. Málinu hefur verið kastað fram og til baka með brotnum loforðum um að því sé að ljúka. Meirihlutinn af okkur hefur ekki fjármuni til þess að ráða lögfræðing. Hvað þá að fá einhvern stuðning eins og sálfræðimeðferð.
Það hefur tekið virkilega á mitt líf að þurfa rifja þetta allt upp. Þetta stöðuga áreiti sem hefur fylgt því síðan málið var tekið fyrst upp fyrir næstum fjórum árum. Þrátt fyrir staðfestingu um að margt hafi verið ábótavant eftir að skýrsla um Varpholt/Laugaland var gefin út. Við sem vistuð vorum á Varpholti/Laugalandi höfum ekki fengið neinn stuðning. Það eina sem stóð okkur til boða var að leita til Bjarkarhlíðar en þar er, eins og sést á heimasíðunni þeirra, enginn starfandi sálfræðingur. Einnig hafa starfsmenn Bjarkarhlíðar viðurkennt að Bjarkarhlíð henti ekki í okkar máli.
Mig langar að vitna í grein um málið til þess að gefa lesendum smá bakgrunn:
„Í janúar 2021 tók tugur kvenna, sem dvaldi á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi, höndum saman og fór fram á að farið yrði ofan í saumana á starfsemi heimilisins. Þær lýstu erfiðri og sársaukafullri dvöl og töldu að frásögnum þeirra hefði verið sópað undir teppi af hálfu barnaverndaryfirvalda.
Ásmundur Daði Einarsson ráðherra fól Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) „að kanna hvort og þá í hvaða mæli börn, sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997 til 2007, hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi meðan á dvöl þeirra stóð. „Nefnd, skipuð fjórum sérfræðingum með þekkingu á rannsóknum, barnavernd og áföllum vann að úttektinni og skilaði skýrslu um meðferðarstarfið að Laugalandi.“
Þráði betri líðan
Ég var vistuð á sínum tíma á Varpholti/Laugalandi. Ekki út af neyslu, heldur vegna þess að ég átti mjög erfitt sem barn. Ég bjó á Austurlandi og þar var ekki neinn starfandi sálfræðingur. Ég þráði ekkert heitar en betri líðan þar sem ég var búin að reyna taka mitt eigið líf nokkrum sinnum og sá enga aðra lausn út úr þeirri vanlíðan.
Mér hreinlega líður eins og ég muni aldrei ná hjónunum á Varpholti/Laugalandi úr hausnum á mér. Nógu erfitt var það að reyna ná hans rödd úr hausnum á mér í einhver ár eftir útskriftina. Þetta hefur verið stöðugt áreiti frá því að ég fékk fyrst bréf um hvort ég væri til í að segja frá minni hlið fyrir skýrsluna. Í fyrstu var ég í afneitun og var búin að loka á þetta. Síðan fór ég að átta mig á því að þetta var með verstu tímum sem ég hef þurft að ganga í gegnum. Aldrei fékk ég einkaviðtal hjá sálfræðingi á meðan ég dvaldi á Varpholti/Laugalandi. Þrátt fyrir að hafa barist fyrir hjálp og haldið að ég væri komin á réttan stað.
Núna er eins og þetta stríð á milli hjónanna og okkar sé einungis í gegnum fjölmiðla. Viðtal vegna skýrslugerðar. Frestun og tafir á skýrslu. Skýrslan kemur loksins út eftir margra mánaða töf en hún fær ekki að vera lengi sýnileg þar sem hún var kærð til Persónuverndar.
Okkur sagt að leita til Bjarkarhlíðar en þar geta þau ekki tekið við okkur. Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra lagði fram frumvarp. Það frumvarp var sett á bið vegna þess hve mörg andmæli komu fram. Katrín lofaði að taka upp frumvarpið aftur um vorið en stakk þá af. Bjarni Ben tók við og lofaði að taka upp þetta umtalaða frumvarp. Frumvarpinu var stungið ofan í skúffu og líklegast var henni læst. Lögfræðingur þeirra hjóna, hafði samband í leit af vitnum vegna dómsmála. Grein forstöðuhjónanna kom svo út í síðustu viku. Þar sögðu þau fjölmiðla hafa tekið lyginni fagnandi.
„Ekkert af þessu er satt. Aftur á móti sjá þeir sem til þekkja af hvaða rótum þessar sögur eru runnar,“ skrifuðu þau. Fjölmiðlar hafi tekið „lyginni fagnandi“ enda beri fréttamenn ekki ábyrgð á orðum viðmælenda sinna.
„Í okkar tilviki gekk þetta svo langt að stofnun á vegum ríkisins gaf út opinbera skýrslu þar sem brotið var gegn persónuverndarlögum. Persónuvernd sá ástæðu til að leggja bann við birtingu hennar. Það dugði þó síður en svo til þess að kveða niður skipulagða rógsherferð gegn okkur,“ skrifuðu hjónin fyrrverandi, Ingjaldur Arnþórsson og Áslaug Herdís Brynjarsdóttir.
Allir gera mistök
Mér sárnar alhæfingar þeirra um þær fullyrðingar sem komið hafa fram. Í staðinn fyrir að gangast við því að stundum hafi þetta verið þeim erfitt og þau hafi hreinlega þurft á aðstoð að halda, því þetta var svokallað vandræðaheimili þá. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta hafi ekki verið auðveldasta heimilið á Íslandi, enda áttum við erfitt og þurftum á stuðningi að halda. En í stað þess að viðurkenna kaldan veruleikann láta þau þetta líta út eins og þau hafi gert allt rétt og þau séu fórnarlömbin í þessu.
„Í fyrstu var ég í afneitun og var búin að loka á þetta. Síðan fór ég að átta mig á því að þetta var með verstu tímum sem ég hef þurft að ganga í gegnum“
Allir gera mistök. Það væri nú eitthvað mikið að ef allt hefði verið svo fullkomið eins og þau vilja meina.
Í grein Ingjalds og Áslaugar fara þau yfir það sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum. Ég mun hér vitna nokkrum sinnum í það sem þau skrifa um það.
„1. Að ekkert raunverulegt eftirlit hafi verið með heimilinu enda hafi eftirlitsaðilar verið persónulegir vinir forstöðuhjónanna. Að stúlkurnar hafi ekkert getað leitað vegna þess harðræðis sem þær bjuggu við á heimilinu því fagfólk og eftirlitsaðilar hafi lekið trúnaðarupplýsingum í forstöðumann.“
Þessu gleymi ég aldrei. Formleg tilkynning kom þegar þáverandi fulltrúi Barnaverndarstofu var á leiðinni í heimsókn. Við þurftum að taka til og gera allt snyrtilegt. Síðan þegar hann kom heilsaði hann upp á okkur en ekki eina og eina. Við vorum beðnar um að svara spurningalista en hann var inni á skrifstofu og við áttum ekki að láta nafnið okkar fylgja með svo ekki væri hægt að rekja svörin. Samt sat starfsmaður á næsta borði sem tók við spurningalistanum. Af ótta við að vera tekin upp á næsta fundi var ekki annað hægt en að ljúga öllu um að allt væri frábært þarna. Maður þorði ekki einu sinni að setja út á matinn. Það var það sama þegar hjónin voru ekki á staðnum; maður þorði aldrei að segja frá, ekki einu sinni kvarta um aðra. Á þessum tíma var ég einnig farin að halda að hjónin væru með myndavélar í kringum okkur, og þess vegna þorði ég ekki einu sinni að segja móður minni frá. Ég taldi dagana niður fram að útskrift svo ég gæti hreinlega pústað yfir þessu öllu.
Þegar þessari heimsókn fulltrúa Barnaverndarstofu lauk þá fór Ingjaldur Arnþórsson, forstöðumaðurinn, yfirleitt út að borða á Bautann með honum. Vanalega var þetta í miðri viku og urðum við því auðvitað sárar að hann væri að fara út að borða og við mættum ekki koma með.
„2. Að starfsemin hafi grundvallast á annarlegum siðferðis- og trúarviðhorfum. M.a hafi stúlkur sem vistaðar voru hjá okkur, verið sendar til kvensjúkdómalæknis í þeim tilgangi að athuga hvort þær væru hreinar meyjar. Einnig hafi stúlkunum verið gert að stunda samkomur í Hvítasunnukirkjunni.“
Á meðan minni dvöl stóð tók ég ekki eftir miklum trúarlegum boðskap, þó að við höfum farið með faðirvorið og æðruleysisbænina. En kvensjúkdómalæknirinn var þarna, karlkyns læknir sem Ingjaldur og Áslaug ættu svo sannarlega að muna eftir. Öll þau 10 ár á meðan þau unnu á Varpholti/Laugalandi. Þetta var algjör pína. Meirihluti stelpnanna sem voru þarna höfðu lent í kynferðislegu áreiti eða nauðgun og þá er það seinasta sem þú vilt gera að láta karlkyns lækni skoða þig. Það var mikið rætt um að stúlkurnar væru svo smitaðar af kynsjúkdómum eftir hverja heimferð. Væru sofandi hjá hvaða karlmanni sem er. Þetta var virkilega niðrandi og var ekkert val um annað en að fara til læknisins því annars myndi næsti fundur fjalla einungis um þig.
„3. Að ég, forstöðumaðurinn, hafi beitt viststúlkur líkamlegu ofbeldi, m.a. á ég að hafa barið þær, að ég hafi dregið stúlkur á hárinu, dregið þær berfættar eftir malarvegi, að unglingur sem strauk heim til sín hafi komið sundurskorinn frá okkur þannig að það þurfti að sauma skurðina, hent stúlkum niður stiga, ekki einu sinni heldur oft og þrengt að öndunarvegi þeirra. Að þær hafi þurft að vera í einangrun á herbergi sínu allt að tvær vikur, og að tvær stúlkur hafa þurft að sofa á milli forstöðuhjónanna í refsingarskini og að þær hafi verið viktaðar alla föstudaga, svo fátt eitt sé nefnt.“
Hér lýsir Ingjaldur því allra grófasta en staðfestir ekki þessi „minniháttar“ atvik. Orðið valdbeiting er það sem Ingjaldur kannast við. Því varð ég vitni að í nokkur skipti. Þau skipti sem ég varð vitni að því þá var það ekki af því að stúlka þurfti á því að halda heldur hafi það gerst þegar mælir Ingjalds fylltist á hópfundi þegar við vorum allar viðstaddar. Þegar ég hugsa til baka þá hefði hægt verið að leysa þær aðstæður með samtali sem í raun og veru gekk á áður en Ingjaldur missti þolinmæðina. Stúlkan sýndi engin merki um það að fara ráðast á neinn. Þetta var meira eins og stúlkan vildi ekki hlusta á hann og það var ögrun fyrir Ingjald. Því hræddist ég hann mjög í þau skipti sem ég varð vitni af þessari óþarfa valdbeitingu.
Í grein sinni segir Ingjaldur að gert sé ráð fyrir því að upp geti komið tilvik þar sem nauðsynlegt sé að grípa til valdbeitingar til þess að stöðva óásættanlega hegðun eða að koma skjólstæðingnum úr aðstæðum sem gera illt ástand verra.
„Það getur t.d. þurft að stöðva sjálfskaðandi hegðun, hegðun sem ógnar öryggi og velferð annarra, eða afstýra skemmdarverkum. Slík valdbeiting er lögmæt og miðar ekki að því að meiða skjólstæðinginn, heldur að koma á friðsamlegu ástandi.“
„4. Að stúlkurnar hafi verið hræddar til hlýðni með öskrum og hótunum og að við höfum svívirt þær í orðum, m.a. með því að kalla þær samkynhneigðar, hórur, druslur, tíkur og illa innrættar. Þá er því haldið fram að við höfum réttlætt ofbeldi og glæpi gegn skjólstæðingum okkar. M.a. eigum við að hafa dregið þær sjálfar til ábyrgðar fyrir kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir.“
Ljót orð
Meðferðin gekk auðvitað fyrir sig með því að hlýða. En þessi ljótu orð hjá Ingjaldi voru því miður notuð allt of oft. Hann sagði okkur að við værum komnar á heimilið af því fjölskyldan okkar væru búnar að gefast upp á okkur. Mikil alhæfing var notuð fyrir okkur allar þrátt fyrir að bakgrunnur okkar væri mismunandi. Við vorum settar undir sama hatt, sagðar lauslátar til að fjármagna eigin neyslu, að við myndum enda á kassa í Bónus eða sem hórur á Istegade í Kaupmannahöfn. Það er sú setning sem ég man hvað mest eftir. Ef það var það sem hann sá fyrir okkur hefði hann bara átt að vera ánægður með það ef við færum að vinna á kassa í Bónus.
„Við gerð skýrslunnar voru rifnar upp margar slæmar minningar sem við upplifðum hver á sinn hátt. Minningar sem einhverjar voru búnar að ná að gleyma en síðan var opnað á aftur. Sár sem skilin hafa verið eftir opin“
Það þýddi samt lítið að andmæla orðum hans þar sem við áttum að hlýða öllu því sem okkur var sagt. Andrúmsloftinu var stýrt af þeim hjónum. Mikil þagnarstjórnun var notuð og fór því ekkert á milli mála ef að eitthvað var í gangi. Ef ein stelpa var að óhlýðnast þá fengum við allar hinar að finna fyrir því.
Ef annar fullorðinn var í heimsókn sá maður greinilega að sett var upp leikrit. Allt var svo yndislegt. Þar með talið fyrir foreldrum, kennurum eða örðum sem störfuðu þarna. Því var ómögulegt fyrir þau að sjá að eitthvað gekk á innan veggja heimilisins á meðan hjónin voru bara tvö með okkur.
Foreldrar mínir tóku einmitt eftir því hvað þetta lofaði öllu góðu. Þarna væri ég komin í góðar hendur með að fá hjálp í mínum málum.
„5. Að meðferðaraðferðir hafi einkennst af andlegu ofbeldi, þ.á.m. mjög ströngum reglum og niðurbrjótandi þrepakerfi og að haldnir hafi verið fundir þar sem ein stúlka í einu var tekin fyrir og niðurlægð í návist hópsins. Að stúlkur sem misstigu sig hafi sætt óvenjulegum og ómannúðlegum refsingum. M.a. að sérstakur klæðnaður hafi verið notaður til að niðurlægja þær sem sættu viðurlögum vegna brota á húsreglum. Einnig að öðrum stúlkum hafi verið bannað að tala við stúlkur sem væru í mótþróa.“
Hér get ég einungis talað fyrir mína hönd. Þetta kannast ég allt við. Reglurnar á þessu heimili voru mjög strangar. Sem er kannski skiljanlegt fyrir „vandræðaheimili“ en því fylgdi refsing, ef þessum reglum var ekki fylgt.
Ég fékk forsetaviðurkenningu fyrir að standa mig vel í þessari meðferð, eins hallærislegt og það hljómar. Miðað við það þá hljómar eins og þetta þrepakerfi hafi átt að vera auðvelt fyrir mig. Ég þurfti að fórna miklu og í raun og veru að leika eitthvað leikrit til þess að halda mér í efsta þrepi. En með því leikriti slapp ég við að vera tekin upp á fundi.
Símtölin hleruð
„6. Að stúlkunar hafi verið beittar félagslegri einangrun og tengsl þeirra við fjölskyldur og vini rofin. Foreldrum hafi verið meinaður aðgangur að heimilinu, stúlkunum hafi verið bannað að tala við foreldra sína nema símtöl þeirra væru hlustuð og sumum bannað að fara heim í fríum.“
Þegar við innrituðumst var okkur sagt að slíta öll vinatengsl. Þrátt fyrir að ég hafi átt mjög traustar og góðar vinkonur sem voru ekki í neyslu þá mátti ég ekki umgangast þær í leyfum. Aldrei var litið til þess hvort þessar vinkonur væru kannski mér fyrir bestu. Nei, þær voru allar skilgreindar sem unglingar í neyslu.
Þau vikulegu símtöl sem við fengum voru hleruð. Ég man til dæmis eitt skiptið þegar ég var ósátt þar sem foreldrar mínir væru að fara erlendis og jú að sjálfsögðu langaði mig með! Ég var farin að röfla um það en þá heyrist í næsta herbergi: „Ég slít samtalinu ef þú hættir þessu ekki.“ Frá þeim tímapunkti vissi ég að ég gæti alls ekki tjáð mig eða sagt frá minni skoðun á hlutunum.
Við gerð skýrslunnar voru rifnar upp margar slæmar minningar sem við upplifðum hver á sinn hátt. Minningar sem einhverjar voru búnar að ná að gleyma en síðan var opnað á aftur. Sár sem skilin hafa verið eftir opin.
Eftir margra ára baráttu þá sjáum við því miður ekki fyrir endann á þessu.
Ég vil því biðla til stjórnvalda að hlusta á okkur. Einhver sem geti verið rödd okkar og lokið þessu máli allavega á blaði, svo við getum haldið áfram með okkar líf án þess að þurfa að bíða eftir næstu frétt um fleiri brotin loforð.
Athugasemdir (1)