Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og fráfarandi orkumálastjóri, hefur gengið til liðs við Framsóknarflokkinn. Þetta tilkynnir hún í færslu á Facebook.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, býður Höllu Hrund velkomna í annari færslu á miðlinum og segist hafa ákveðið að leggja til við kjörstjórn flokksins í Suðurkjördæmi að hún taki þar við fyrsta sæti á lista í komandi kosningum. Sigurður Ingi, sem er núverandi oddviti í kjördæminu muni sjálfur sækjast eftir öðru sætinu.
„Með þessari tillögu legg ég sjálfan mig undir. Enda lít ég svo á að sá formaður sem ekki leggur sjálfan sig að veði fyrir flokkinn sinn sé ekki sannur leiðtogi. Ég býð Höllu Hrund velkomna í öflugan hóp Framsóknarfólks. Ég er fullviss um að þessi nýja rödd Framsóknar og samvinnustefnunnar muni hljóma sterk fyrir kjördæmið og landið allt á Alþingi Íslendinga,“ skrifar Sigurður Ingi.
Halla Hrund, sem hefur hingað til verið óflokksbundin, segir að hún vilji vinna með fólki úr öllum áttum með hagsmuni landsins að leiðarljósi. Hún segist hafa gengið til liðs við Framsóknarflokkinn vegna þess að hann sé hvorki hægri né vinstri flokkur.
„Ég tengi flokkinn einnig sterkt við að vera einfaldlega eins og Íslendingur sem vill vinna ötullega að fyrir landið sitt enda er Framsókn elsti stjórnmálaflokkur landsins. Hann er flokkur sem leggur áherslu á samvinnu og málamiðlanir. Það skal vera nýr tónn stjórnmálanna og þannig vil ég vinna í Framsókn fyrir Ísland.“
Halla Hrund segist ætla að beita sér fyrir auðlindamálum, landsbyggðinni, samkennd og húsnæðismálum.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Virkjana-og vindmylluflokkurinn af öllum öðrum!