Yfirgnæfandi meirihluti kennara í Menntaskólanum í Reykjavík hefur samþykkt að boða verkfall 11. nóvember næstkomandi, hafi samningar ekki náðst. MR er annar framhaldsskólinn sem boðar til verkfalls en Fjölbrautaskóli Suðurlands samþykkti verkfallsboðun í síðustu viku. Atkvæðagreiðsla hófst í MR klukkan 11 í fyrradag og lauk klukkan 11 í dag. Kjörsókn var 93 prósent, já sagði 81 prósent.
Þar með hafa félagsmenn Kennarasambandsins í tíu skólum samþykkt verkfallsaðgerðir í lok mánaðar og byrjun næsta mánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands.
Kjaradeilan er á borði ríkissáttasemjara.
Boðuð eru tímabundin verkföll í tveimur framhaldsskólum, í FSu, frá 29. október til 20. desember og í MR, frá 11. nóvember til 20. desember.
Boðað er tímabundið verkfall í Tónlistarskóla Ísafjarðar, frá 29. október til 20. desember.
Boðuð eru tímabundin verkföll í þremur grunnskólum, Áslandsskóla, Laugalækjarskóla og Lundarskóla, frá 29. október til 22. nóvember.
Boðuð eru ótímabundin verkföll í fjórum leikskólum frá 29. október. Þetta eru Leikskóli Seltjarnarness, Holt í Reykjanesbæ, Drafnarsteinn í Reykjavík og Ársalir á Sauðárkróki.
Öll aðildarfélög Kennarasambandsins eru án kjarasamnings; framhaldsskólafélögin tvö, FF og FS, hafa verið án samnings síðan 31. mars síðastliðinn. Grunnskólafélögin tvö, FG og SÍ, leikskólafélögin tvö, FL og FSL, og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum hafa verið án samnings síðan 31. maí síðastliðinn.
Athugasemdir