eitt
Það er bannað að deyja
hér á Svalbarða
sem er á 78. breiddargráðu,
svo norðarlega í heiminum
að maður kemst varla þangað
í draumum sínum, einungis í flugvél,
skipum og í skáldskap
bannað að deyja,
raunar einnig að fæðast:
það sem liggur þar á milli nefnist lífið
Lífið býr því á 78. breiddargráðu
Ég sit á kaffihúsi
við aðalgötuna í Longyearbyen,
fyrir utan eru fjöll, himinn svo blár
að hann er að breytast í tónlist,
Mozart blár, sagði
stúlkan sem seldi mér gott kaffi,
hún kom hingað
frá Filippseyjum fyrir tveimur árum,
maðurinn við hlið mér er rússneskur flóttamaður,
á móti honum Norðmaður, Dani, Spánverji
hér búa rúmlega rúmlega tvö þúsund manneskjur
af 40 mismunandi þjóðernum, lífið hefur smalað
þeim hingað þar sem dauðanum hefur
verið úthýst, einhver
mætti þó láta ísbirnina vita af því, þeir
taka ekkert tillit til okkar
fyrir þeim erum við gangandi sushi, góður
skyndibiti, …
Athugasemdir (1)