Er Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, yfirgaf svið stjórnmálanna í vor til að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands, lagði varaformaður Framsóknarflokksins það til að skynsamlegast væri að „reyna að kjósa eins fljótt og við mögulega gætum“.
Þetta upplýsti varaformaðurinn og menningar- og viðskiptaráðherrann, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, í þjóðmálaþættinum Pressu sem sendur var út á Heimildinni í dag. Lilja sagðist hafa lagt þetta til vitandi að brotthvarf Katrínar, sem hafi leitt ríkisstjórnina, myndi hafa breytingar í för með sér.
„Hún er svolítið framsóknarleg stundum, hún Katrín,“ sagði Lilja, „hún var góð í því að … það var kannski bara flókin staða, og hún var bara að vinna í því þar til það kom einhver lausn. Og það er það sem verður að gera í stjórnmálum, sérstaklega í samsteypustjórnum.“
Lagðir þú þá til í vor að það yrði kosið? Að þetta ríkisstjórnarsamstarf yrði látið sigla sinn sjó?
„Ja, ég nefndi það, að ef það væri hægt þá væri það líklega farsælast vegna þess að það er þannig að þegar forsætisráðherra fer af vettvangi að það breytist auðvitað mjög mikið. Það var hins vegar niðurstaðan að þessir þrír flokkar myndu setjast niður. Við lögðum mikla áherslu á það í Framsókn, af því að við erum ábyrg og lausnamiðuð, að við myndum klára þetta kjörtímabil.“
Lagt hafi verið upp með nokkur forgangsmál, fyrst og fremst efnahagsmálin en einnig útlendinga- og orkumál, og stefnt hafi verið að því að vinna að þeim til loka tímabilsins. „Ég er enn þeirrar skoðunar að það hefði verið farsælast“ sagði Lilja og hélt svo áfram: „En ég nenni ekki að vera hér að tala í þáskildagatíð. Af því að núna horfir maður bara fram á veginn.“
Sumt hafi gengið vel í stjórnarsamstarfinu. Annað ekki eins vel. Ákvörðun Bjarna Benediktsson formanns Sjálfstæðisflokksins um stjórnarslit liggi fyrir. „Þetta er niðurstaðan. Og svo bara: Áfram.“
Athugasemdir