Pabbi sagði alltaf að tíminn væri það dýrmætasta fyrir hvern einstakling. Tíminn kæmi ekki aftur og þess þá heldur væri mikilvægt að fara vel með hann. Nýta hann vel.

Ég hef alla tíð verið mikil fjölskyldumanneskja. Ég fæddist árið 1965 í umvefjandi umhverfi þar sem faðmur mömmu, pabba og Kaju, stóru systur minnar, var hlýr og stór. Við bjuggum fyrst um sinn í Vesturbænum í leikarablokkinni svokölluðu, á Fálkagötunni. Þar áttum við dýrmætar stundir en við fluttum síðan í Gilsárstekk í Breiðholtinu þegar ég var 7 ára. Foreldrar mínir sögðu gjarnan að þau hefðu ákveðið að drífa mig í burtu úr hverfinu áður en ég yrði að KR-ingi. En að alast upp í Breiðholtinu í frumbernsku þess var einstakt. Innan um ákveðinn hráleika en líka náttúruparadís með Elliðaárnar í bakgarðinum. Það voru töfrar að alast þarna upp þar sem frelsið var mikið fyrir okkur krakkana, hvort sem við vorum 7, 10 eða 12 ára.
Fjölskyldan átti líka jörð í Ölfusinu sem var okkar griðastaður. Hana eigum við enn. Þar áttum við systur okkar dýrmætustu æskuminningar. Innan um mosann og lyngið, grjótið og fjöllin, hesta og hunda, engjarnar og ána. Þar sem ég fékk að vera í friði í mínum götóttu buxum og lopapeysu. Lífið í æskuljómanum er einhvern veginn marglit mósaíkmynd sem í hægum og ljúfum takti myndar eina heild ákveðinnar alsælu, kærleiks og ástar.
Svo fer taktur lífsins að aukast og ég var sextán ára þegar ég kynntist Kristjáni mínum. Hann var þá aðaltöffarinn í Hafnarfirðinum, flottastur auðvitað og í Reyklausa liðinu! Þá var ekki aftur snúið. Við höfum farið saman í gegnum ýmislegt í lífsins ólgusjó. Með öllum fallegu björtu stundunum en líka í gegnum öldudali. Upplifað erfiðar stundir, missi og brekkur. Gert mistök og reynt að læra af þeim.
„Lífið í æskuljómanum er einhvern veginn marglit mósaíkmynd sem í hægum og ljúfum takti myndar eina heild ákveðinnar alsælu, kærleiks og ástar
Við Kristján erum svo lánsöm að hafa eignast þrjú börn en þau hafa öll fært okkur ómælda gleði og þroska. Hvert á sinn ólíka hátt. Þegar við urðum fjölskylda var komið að okkur hjónum að spreyta okkur í að skapa minningar, samverustundir og hefðir fyrir okkar fjölskyldu með börnunum okkar. Alltaf hefur náttúran, samvera og sveitin verið stór hluti af okkar sögu. Svo ég tali ekki um Kaplakrika! Nú þegar ég horfi til baka þá sakna ég þess að vissu leyti að liggja ekki lengur í hjúfri með litla fólkinu mínu, halda í smáar hendur og dást að þessum undrum sem börnin eru. Strjúka hár, lesa saman bækur eða rugla dálítið í þeim. Stundum finnst mér tíminn líða alltof hratt þótt ég sé óendanlega stolt af börnunum mínum þar sem þau eru í dag. Og finnst auðvitað undurgott þegar við náum enn að klessast og knúsast, þegar svo ber undir. Njóta þess að vera í núinu.

„Þegar ég horfi til baka þá sakna ég þess að vissu leyti að liggja ekki lengur í hjúfri með litla fólkinu mínu, halda í smáar hendur og dást að þessum undrum sem börnin eru
Áður en hendi var veifað urðu börnin okkar stórir og fullmótaðir, fullorðnir einstaklingar sem taka í dag sínar ákvarðanir um eigið líf. Þá reynir stundum á gömlu að sleppa takinu. Það er ákveðin kúnst fyrir mömmuhjartað að feta þann veg að finna jafnvægið á milli þess að gefa móðurleg ráð eða vera hreinlega of afskiptasöm mamma. Ég er alltaf að vanda mig við að finna það jafnvægi. En maður lifandi hvað það getur verið snúið.

Fyrir tveimur árum varð ég síðan fyrir því áfalli að missa Kaju, stóru systur mína, eftir skammvinn veikindi. Það voru erfiðustu stundir lífs míns. Að þurfa að sætta mig við það hlutskipti að geta ekki lengur leitað til hennar um allt milli himins og jarðar. Hún var mér allt og við vorum alla tíð mjög nánar systur. Ekki alltaf sammála en það var líka hollt. Hún var sólin í mínu lífi. Enda bara tvær alltaf með mömmu og pabba. Þegar ég reyni að vinna úr því áfalli þá rennur það upp fyrir mér, ljóslifandi, að það er fátt sem skiptir meira máli en fjölskyldan. Fólkið manns, fjölskylda og vinir.
Ég hef oft gerst sek um að forgangsraða tíma mínum vitlaust. Ég valdi mér kannski ekki starfsvettvang sem er sá fjölskylduvænsti og er aldeilis ekki að kvarta undan því. Mitt vandamál er að ég elska stjórnmál og alla þá fjölbreytni sem fylgir því starfi að vera stjórnmálamanneskja. Að vinna að því að sjá okkur sem samfélag þokast áfram. Ekki aftur á bak. Heldur áfram. En stjórnmálin geta verið frek á tímann. Og þá er fátt sem ég þoli verr en að finnast við ekki vera að nýta tímann okkar. Til að taka ákvarðanir sem varða þjóðarhag. Það kemur upp þessi óþreyja og ákveðin vonbrigði þegar lítið þokast áfram. En ég væri ekki í stjórnmálum nema vegna þess að ég trúi því að ég geti haft jákvæð áhrif á samfélagið okkar, fyrir allt fólkið sem er bæði ólíkt og líkt í senn. Þannig tel ég mig nýta þann tíma sem ég hef hér á þessari jörðu með þokkalegum hætti. Þess vegna gat ég ekki beðið eftir því að komast með Viðreisn í ríkisstjórn. Til þess að geta haft þessi áhrif. Til að nýta tímann betur, gera betur, fara lengra.

Því eins og pabbi sagði þá er tíminn dýrmæt auðlind. Auðlind sem ég held að við tökum of oft sem alltof sjálfsagðri. Við eigum að nýta tímann okkar. Njóta augnabliksins með fólkinu okkar og ekki er verra að geta haft svolítið gaman á meðan. Við verjum alltof miklum tíma í neikvæðni og skotgrafir. Ég ætla ekki að þykjast vera heilög í þeim efnum en ég minni sjálfa mig reglulega á að spyrja frekar hvernig tíminn nýtist sem best, og hvað það er sem sameinar okkur fremur en sundrar. Það er ákveðin jafnvægislist að finna leiðir til að nýta tímann. Nýta tækifærin. Hlúa að fólkinu sínu á sama tíma og maður sinnir störfum sínum. Læra af þeim tíma sem er floginn og taka betur á móti þeim sem er í vændum. Þó í því felist áskorun.
En hvað hef ég þá lært í gegnum lífið? Ætli það sé ekki að staldra við og njóta augnabliksins með alls konar reynslu og þekkingu í farteskinu. Skrúfa örlítið niður í þeytivindu lífsins. Skrúfa aðeins á móti upp í hátölurum heimilisins, finna taktinn og dansa með fjölskyldunni. Því á þeim augnablikum stoppar tíminn. Og ekkert annað í heiminum skiptir máli.
Athugasemdir