Árið er 2024. Nú er ég á krossgötum og nálgast ellilífeyrinn. Þá sækja að manni hugsanir um lífshlaupið á undan.
Ég byrjaði snemma að vinna við að passa börn. Byrjaði 13 ára í fiski á sumrin, fór snemma að vinna með veikt fólk, að búa og eignast börn. Fór tvisvar í skóla, fyrst í Myndlista- og Handíðarskólann, síðar í Listaháskólann þar sem ég vann með honum og útskrifaðist sem kennari í lokin. Ég vann sem kennari til dagsins í dag.
Í gegnum árin hafa ýmsar spurningar vaknað. Pælingar um hvers vegna lífið hafi ætíð verið svona erfitt peningalega? Hvers vegna við borgum háa vexti af lánum? Hvers vegna á ég svona lítið eftir, eftir 50 ár í vinnu?
Hvers vegna lækkar ekki húsnæðislánið mitt þótt ég borgi yfir 130 þúsund í hverjum mánuði ár hvert? Ég taldi mig góða með því að byrja að borga viðbótarlífeyri um leið og hann kom. Hann hvarf að miklu leyti í hruninu og við sem áttum í viðbótarlífeyri bárum ein tapið á því.
Hvers vegna töpuðu drengirnir mínir þá ungir 600 þúsundum í hlutabréfum sínum í Landsbankanum í hruninu? Peningar sem voru gefnir frá afa þeirra. Hvers vegna tapaði almenningur öllu sínu en bankinn hélt skuldum almennings eftir og fær að rukka þær inn?
Hvernig stendur á því að við fáum ekki meiri hagnað af sjávarútveginum?
Hvers vegna er kvótinn seljanlegur en ekki úthlutað til byggðarlaga hringinn í kringum landið, og ef byggðalöginn geta ekki nýtt hann, þá leigt hann til minnst fjögurra ára í senn til útgerða?
Er eðlilegt að við séum að sjá unga kvótaerfingja veifa peningum framan í okkur?
Ég tel að þeir sem eiga og hafa keypt kvóta í dag hafi engu að tapa, því þeir hafa margfalt grætt á kvótanum til þessa dags. Við gætum vel tekið hann til okkar aftur.
Hvaða flokkar stóðu að því að gera kvótann seljanlegan á sínum tíma, þá í óþökk við stóran part þjóðarinnar? Væri hægt að kalla þetta valdarán?
Hvers vegna eru blokkir og hús að rísa eins og gorkúlur út um allt Reykjavíkursvæðið en samt er kallað eftir fleiri húsum? Er það eðlilegt að fjárfestar fái að kaupa hverja eignina eftir aðra og leigja út fyrir offjár til ungu barnanna okkar sem fá jafnvel ekki lán vegna of lítilla tekna? Borga jafnvel meira í leigu þessum fjárfestum en þau yrðu að borga af húsnæðisláni.
Hvers vegna er verið að ræða það að virkja meira, vegna þess að það vanti rafmagn, auðvitað fyrir almenning, þegar við erum með tvö álver og stór gagnaver sem taka rosalegt rafmagn til sín? Við værum rík ef við virkjuðum meira til grænmetisbænda og værum sjálbær með ódýrari grænmeti frá þeim. Fá þeir rafmagnið á sama verðlagi og gagnaverin? Hvers vegna ekki, ef svo er. Ég veit ekki, getur einhver svarað mér?
Hver græðir á því að leyfa erlendum sóðum að koma hingað með óhreina þvottinn sinn til að sprengja honum niður í bergið okkar? Skilst mér að ekki sé vitað hvaða afleiðingar geti orðið af þessu. Hver græðir á þessum gjörningi?
Hvers vegna eru margir á mínum aldri að fara til Kanaríeyja og Spánar þegar þeir komast á ellilífeyrinn sinn eða eru á öryrkjabótum? Þeir sem ég þekki og eru þeir ófáir, segja að þeir fái meira og geti lifað betri lífi þar. Húsaleiga og húsnæði ódýrari, matur, þjálfun og virðing fyrir mennskunni virðist vera betri en hér.
Jafnvel þegar maður deyr fer ríkið aftur í vasana okkar og krefst skatt af fátæklegu eigum okkar sem er arfur til afkomanda. Samt erum við foreldranir búnir að borga skatta af sömu eignum í gegnum árinn. Hvers vegna?
DNA
Kæri lesandi, hvert er okkar DNA?
Víkingar komu með marga þræla með sér til landsins. Skiptu landinu á milli sín eftir goðorðum sem þeir réðu yfir. Þá er ég ekki að tala um smá skika heldur stór svæði með mörgum stórjörðum. Börn þeirra sem erfðu þessi svæði og giftust eftir ráðahag innan stórætta. Takið eftir, giftust ekki þrælunum sem komu frá t.d. Írlandi og fleiri stöðum, svo það var ekki mikil blöndun fyrst til að byrja með. Má segja að mér skilst að ekki sé mikið talað um þrælahald frá 12. til 13 öld, en hægt var eftir sem áður að skikka menn sem skuldaþræla. Þrælahald var í raun aldrei lagt niður með lögum hér á Íslandi heldur voru vistabönd sett hér á 1490. Almenningur leigði kot á stórum bújörðum stórbænda sem kenndu síðan Dönum um allt sem miður fór. Ég sem krakki lærði lítið sem ekkert um vistabönd, en að Danir hefðu ekki farið vel með okkur, því var komið inn hjá okkur.
Vistarbandið var kvöð um að fátækt fólk, jafnvel heilu fjölskyldurnar sem ekki gátu séð um sig, skyldu vera í vinnumennsku hjá stórbændum til að tryggja þeim ódýrt vinnuafl. Þeir voru skikkaðir til að vera áfram í sinni sveit og máttu ekki yfirgefa hana nema með leyfi yfirvalda. Var borgað með börnum og gömlu fólki svo þau býli sem áttu lítið gátu haft tekjur af því að taka til sín þurfalinga sem urðu að vinna samt eftir þeirri getu sem hver hafði.
Takið eftir hverjir áttu stórbýlin. Voru það ekki afkomendur hinna fræknu víkinga frá því í fornöld, löglærðir menn, kirkjan? Hvar voru afkomendur þrælanna sem víkingarnir höfðu með sér? Áttu þeirra afkomendur stórar jarðir?
Vistaböndin voru lögð niður 1894 þegar sjósókn jókst og kallað var eftir mönnum til sjó.
Ég er kannski ekki lögfróð kona og örugglega komin af þrælum víkinganna en ekki stórbændum. Ég er í sjokki þegar ég uppgvöta að við sem höldum heiðarlega og rétt á okkar spilum í þessu lífi og á þessu landi, án þess að svindla og svíkja, erum ennþá í vistaböndum, nokkuð sem virðist vera í DNA okkar frá ómunatíð.
Vistarböndin eru komin á ný með öðrum formerkjum. Sjómönnum er gert að ráða sig hjá þeim sem eiga kvótann.
Við höfum svo mörg hugsað á svipuðum nótum enda mjög mörg á einmitt í svipuðum sporum.
Af hverju eigum við að fara inn í elliárin, enn skuldandi húsnæðislán og mörg okkar námslán líka?
Samt höfum við borgað öll okkar lán með skilum alla áratugina frá unglingsárum, borgað okkar skatta með skilum, borgað í lífeyrissjóðina og svo viðbótarlífeyrissjóð þegar þeir komu til.
Þetta dugar samt ekki til.
Ekki einu sinni millitekjufólki í sérfræðingastétt, hvað þá lágtekjufólki sem á margt varla málungi matar.
Af hverju er þetta svona?
Svör óskast frá stjórnvöldum.