Um áramótin verður tollfrelsi skemmtiferðaskipa á svokölluðum hringsiglingum afnumið. Cruise Iceland, sem er samstarfsvettvangur fyrir aðila sem starfa innan skemmtiferðaskipageirans á Íslandi, lýsa verulegum áhyggjum af þessari ákvörðun stjórnvalda. Ákvörðuninni hafði verið frestað um eitt ár, m.a. vegna ábendinga frá hagsmunaaðilum. Töldu þeir brýnt að fjárhagslegar afleiðingar afnáms tollfrelsisins yrðu metnar. Það segja þeir ekki enn hafa verið gert.
Samkvæmt breytingu á lögum um gistináttaskatt, sem samþykkt var á Alþingi í desember í fyrra, er gildissvið laganna víkkað og taka frá og með næstu áramótum til rekstraraðila skemmtiferðaskipa þegar þau dvelja innan tollsvæðis íslenska ríkisins. „Talið er nauðsynlegt og rétt, m.a. út frá sanngirnis- og samkeppnissjónarmiðum gagnvart hótel- og gistiþjónustu hér á landi, að farþegar sem gista um borð í skemmtiferðaskipum innan tollsvæðis ríkisins greiði einnig gistináttaskatt,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu.
Með þessu er fellt á brott ákvæði í tollalögum sem kveður á um tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum sem skráð eru erlendis en eru notuð í siglingum innan íslenska tollsvæðisins í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. „Að baki tillögunni búa samkeppnis- og jafnræðissjónarmið milli aðila, til að mynda gististaða og veitingahúsa, auk þess sem hér kann að vera um að ræða fjárhagslega hagsmuni fyrir ríkissjóð,“ sagði í greinargerð frumvarpsins.
„Þar sem stjórnvöld hafa ekki enn lagt mat á tjónið af aðgerðinni hvetur Cruise Iceland til þess að afnámi tollfrelsisins verði frestað um tvö ár á meðan lagt er fullt mat á hagræn áhrif þess,“ segir í nýlegri ályktun stjórnar samtakanna. Þau telja beinar tekjur af hafnargjöldum, áætlaðri eyðslu ferðamanna, opinberum gjöldum, olíusölu, flugfargjöldum og þjónustu vegna hringsiglinga á Íslandi nema 10,8 milljörðum króna árlega.
Ferðaglaðir íslendingar þekkja manna best gistnáttagjaldið erlendis, ég efast um að það hafi nokkurn mann látið hætta við fyrirhugað frí, maður borgar þetta bara og hugsar ekki meira um.
Ætli fólk sem eyðir milljón eða meira í skemmtiferðasiglingu pæli nokkuð meira í þessu?