„Mér fannst þetta vera mjög óskýr ályktun. Ef menn eru þeirrar skoðunar að erindi stjórnarinnar sé lokið þá finnst mér menn hafa skyldu til að ganga til kosninga. Ef menn vilja kjósa að vori – vegna þess að það sé svo gott fyrir taktinn í lýðræðisgangverkinu okkar – þá eiga menn bara að vera skýrir um það, en mér finnst menn vera óskýrir með hvort tveggja.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við Heimildina að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Vísaði hann til ályktunar sem samþykkt var á landsfundi Vinstri grænna um helgina. Í henni var ályktað að ríkisstjórnarsamstarfið væri að nálgast leiðarlok og að ganga þurfi til kosninga í vor.
Spurður hvort hann sé með þessum ummælum að hvetja til þess að VG rjúfi stjórnarsamstarfið svarar Bjarni því neitandi. „Ég er bara alla daga að láta reyna á það hvort við getum náð árangri með þingmálin sem eru á þingmálaskránni og eru grunnurinn að þessu framhaldi að stjórnarsamstarfinu.“
Nefnir Bjarni mál svo sem að ná niður verðbólgu, taka á hælisleitendakerfinu og aðgerðir í orkumálum.
Hvernig ertu stemmdur fyrir afgangnum af kjörtímabilinu?
„Þetta er erfitt,“ svarar Bjarni. „Þetta er mjög flókin staða. Þetta er mikil brekka fyrir alla stjórnarflokkana sem við horfum upp á í dag. Það verður að horfast í augu við það og bregðast við. Við þurfum bæði að gera það sem ríkisstjórn og við þurfum að gera það, í mínu tilviki, sem flokkur – vegna þess að það styttist í kosningar.“
Athugasemdir