Nú er innrásarstríðið í Úkraínu að fara inn í sinn þriðja vetur. Stríð þetta hefur kollvarpað öllu í Evrópu og umheiminum. Það hefur kostað tugi ef ekki hundruð þúsunda mannslífa og skapað mesta flóttamannavanda í Evrópu frá seinni heimsstyrjöld. Milljónir eru á flótta.
Talið er að Rússar hafi að minnsta kosti misst um 70.000 hermenn, sem er meira en Bandaríkjamenn misstu á rúmum áratug í Víetnam (c.a. 1963-1973) og um fjórfalt meira en Sovétmenn misstu á áratug í Afganistan frá 1979-1989. Mannfall Úkraínu er að minnsta kosti um 30.000 hermenn.
Hafa verður i huga að þessar tölur gætu verið hærri og nefna sumir mun hærri tölur, en taka verður þær með fyrirvara, lygar, áróður og upplýsingaóreiða einkenna þetta stríð og er það í raun ekkert nýtt.
Allt er þetta vegna ákvörðunar eins manns, Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands síðan 1999, sem telur að Úkraína eigi ekki sjálfstæðan tilverurétt og að allt sem er úkraínskt skuli þurrkað út, fólk, menning, innviðir.
Ráðist hefur verið á öll möguleg skotmörk og mikil áhersla verið á að rústa öllum innviðum landsins, til dæmis orkukerfum. Skiptir heldur ekki máli hvort um sé að ræða skóla eða sjúkrahús, ekkert virðist heilagt í augum Rússa. Markmiðið er auðvitað að gera líf Úkraínumanna eins ömurlegt og erfitt og hægt er.
Skúrkastjórnir styðja Rússa
Í þessu mesta stríði í Evrópu frá árinu 1945 er öllum meðulum beitt. Rússar fá allan mögulegan stuðning frá skúrkastjórnum í N-Kóreu og Íran, sem til dæmis sér Rússum fyrir óteljandi fjölda dróna og vopna sem notuð eru gegn almennum borgurum.
Kína styður Rússa með því að skaffa þeim raftæknibúnað (til dæmis í vopn) og kaupa af þeim olíu í stórum stíl, sem og Indverjar, stærsta lýðræðisríki heims. Kína er hins vegar stærsta alræðisríki heims, þar á eftir má í raun flokka Rússland, sem er bara lýðræðisríki að nafninu til í dag. Vladimír Pútin er í raun búinn að rústa því lýðræði sem til var í Rússlandi. Það mun sennilega aldrei jafna sig að fullu eftir hann
Gegn þessu standa Vesturlönd og ,,hinn frjálsi heimur“, til viðbótar öllum þeim áskorunum sem felast í hnignun lýðræðis og mannréttinda víða um heim, skíðlogandi Mið-Austurlöndum og fleiru. Þessi hningnu þróun sem krefst sérstakrar athygli og er í raun efni í aðra grein.
Fram kom í fréttum fyrir skömmu að Pútín hefur tilkynnt mikla fjölgun í rússneska hernum, sem árið 2023 var sá fjórði stærsti í heiminum, en sá langstærsti í Evrópu, ef við reiknum Rússland með þar, sem við skulum gera.
Fjölgunin nam um 180.000 manns, sem gerir 1,5 milljónir manna undir vopnum með virkum hætti. Til samanburðar eru Frakkland og Bretland með um 200.000 manns undir vopnum, hvor þjóð.
Í ljósi þessarar miklu stærðar er í raun merkilegt hvað gengur illa hjá Rússum að ná markmiðum sínum og á móti verður að segjast að varnarbarátta Úkraínu hefur gengið vel. Rússum hefur ekki tekist að brjóta baráttuþrek Úkraínu og hafa Úkraínumenn meðal annars náð miklum árangri á Svartahafinu og hamlað þar framgöngu Rússa. Útflutningur Úkraínu á hveiti um þessar mundir er nánast eins og hann var fyrir stríðið.
,,Taktík“ Rússa í landhernaðinum er í sem fæstum orðum sú að beita gríðarlegum fallbyssustyrk og mannafla og gera hverja sóknina á fætur annarri, en ekki virðist skipta máli hversu margir falla. Það hefur verið kallað ,,rússneska kjötkvörnin“.
Rússneska hernaðarmaskínan er eins og þungur múrbrjótur sem brýst hægt og sígandi áfram, en með hrikalegum tilkostnaði. Rússar notast mikið við hermenn frá jaðarsvæðum landsins og fátækari svæðum þess. Það er gert til að skapa minni umræðu um stríðið meðal borgaranna.
Sprengt í tætlur til að ná yfirráðum
Hluti af taktík Rússa er einnig að sprengja allt í tætlur, til þess að ná yfirráðum yfir svæðum, þorpum og landshlutum. Þetta þýðir að þegar Rússar segjast vera búnir að ná yfirráðum yfir þorpi eða borg, eru þeir yfirleitt búnir að jafna viðkomandi stað við jörðu. Þeir íbúar sem geta flúið eru farnir, eða, já, dauðir.
Þetta eru Rússar nú að gera við bæinn Pokrovsk, sem er mikilvægur staður frá hernaðarlegu tilliti séð. Ef Rússar ná Pokrovsk er líklegt að þeir nái endanlega öllu Donbas-svæðinu undir sig, í A-hluta Úkraínu, en þar er að finna gríðarlegar auðlindir, meðal annars kol.
Rússar ráða nú yfir um 18% af landi Úkraínu og sú tala hefur ekki breyst mikið undanfarið ár eða svo. Þeir réðu mun meira í upphafi innrásar, 27%, en Úkraínumenn hafa unnið til baka stór svæði.
Kuldboli nálgast
En nú nálgast veturinn, kuldabolinn, með tilheyrandi rigningum, drullusvaði og álíka og þá verður allur hernaður mun erfiðari. Menn munu þá grafa sig niður í skotgrafir og herja á andstæðinginn mest með stórskotaliði og drónum. Skriðdrekar og brynvarðir vagnar eiga mjög erfitt um vik í drullunni sem til getur orðið í Úkraínu.
Svo kemur frostið, sem getur farið allt niður í 30 mínusgráður eða um það bil. Það gerir ástandið enn verra. Hermenn munu fá kalsár og jafnvel frjósa í hel á vígvöllum Úkraínu á vetri komanda, þar sem þeir húka í skotgröfum og niðurgröfnum byrgjum.
Það er því nánast jafn nauðsynlegt að þeir fái góðan vetrarfatnað eins og vopn og skotfæri. Kuldinn er enn einn óvinurinn, en það sem er merkilegt við þetta stríð er hversu sérkennileg blanda af gamaldags skotgrafahernaði og nútíma dróna og tölvuhernaði það er.
Innrásin í Rússland – nú Úkraína
Fyrir nokkrum vikum réðust Úkraínumenn inn í Rússland, en það hafði ekki gerst síðan Adolf Hitler rauf friðarsamning sem hann og þá ,,vinur“ hans, Jósef Stalín, gerðu árið 1939, hinn svokallaða ,,Molotov-Ribbentrop“-samning.
En Hitler virti aldrei samninga og réðist inn í Sovétríkin sumarið 1941, sem er stærsta innrás sem nokkurn tímann hefur verið framkvæmd. Hún endaði hins vegar með ósigri Hitlers, sem var sögulegur og mikil niðurlæging fyrir hann.
Innrás Úkraínuhers í Kúrsk er líka orðin það, en nú fyrir Pútín, sem einnig hefur rofið samninga, til dæmis samning ríkjanna á milli frá árinu 1997 um gagnkvæma virðingu á landamærum og þar af leiðandi landsvæði.
Úkraínumenn ráða yfir meira en 1300 ferkílómetra svæði Í Kúrsk-héraði og er þessi aðgerð sem blaut tuska framan í Pútín og sýnir fram á veikleika í vörnum Rússlands. Má vera að á næstu vikum muni koma til harðra bardaga á þessu svæði, en Rússar hafa verið að safna saman liði á svæðinu. Þar verður kannski sett í gang enn ein ,,kjötkvörnin“ hjá Rússum, þar sem hermönnum verðu fórnað stríðsaltari Pútíns.
En að öðru leyti mun stríðið í vetur sennilega ,,malla áfram“ með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin misseri. Rússar munu halda áfram að reyna að eyðileggja innviði Úkraínu eins og þeir geta, ráðast á almenna borgara og auka þar með enn á erfiðleika Úkraínumanna.
Sem á móti munu reyna að verjast og að öllum líkindum beita ,,skyndiaðgerðum“ og minni aðgerðum. Það er afgerandi fyrir Úkraínumenn hvort þeir muni geta beitt vopnum sínum lengra inn í Rússland en verið hefur. Fyrir skömmu náðu þeir að sprengja í loft upp miklar vopnageymslur Rússa, önnur þeirra er um 500 kílómetra inni í Rússlandi.
Litlar friðarlíkur
Jafn litlar líkur virðast vera á friðarsamningum og verið hefur, Úkraínumenn eru skiljanlega ekki til í að gefa eftir stóran hluta lands síns og gefa þar með eftir gagnvart ofbeldismanninum í Kreml, sem upp að eigin frumkvæði hóf þetta brjálæði. Sökin er því hans.
Segja mætti að lykilinn að mögulegum á friðarviðræðum sé að hluta til hjá Kína, sem er öflugasti stuðningsaðili Rússa í stríðinu. En, svo lengi sem þeir halda áfram að styðja Rússa með þeim hætti sem þeir gera, eru líkur á að þetta haldi bara áfram með óbreyttum hætti.. Efnahagskerfi Rússa, sem í raun er orðið stríðshagkerfi, byggir að stórum hluta á þessum stuðningi.
Þá þyrftu Bandaríkjamenn og ESB/Evrópa að koma að því sem kalla mætti ,,friðarfrumkvæði.” Það er hins vegar að heyra á Rússum (les: Pútín) að hann sé ekkert í neinum friðarpælingum og auðvitað er hann búinn að flækja rússnesku þjóðinni inn í eitthvað, sem átti að verða allt öðruvísi og ganga hratt og vel fyrir sig.
Áframhaldandi stríð, dauði og eyðilegging virðast því vera hans leiðarstef. Þannig ætlar hann að stimpla sig inn á spjöld sögunnar. Hans verður minnst sem mannsins sem hóf mesta stríð í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld.
Norðurlönd hafa stutt dyggilega við Úkraínu og Danir einna mest, eða um 2% af þjóðarframleiðslu. Mikilvægt er að við Íslendingar sýnum líka stuðning í verki og hjálpum þar með úkraínskri þjóð að standa gegn ofurefli kúgunar og ofbeldis af hálfu Rússa. Það getum við gert með ýmsum hætti, lyf, hjúkrunarvörur, fatnað og fleira.
Komist Pútín upp með grimmdarverk sín í Úkraínu, er nefnilega alls ekki útilokað að önnur lönd fái að kenna á grimmd hans og útþenslupólitík (til eru dæmi frá Téténíu og Georgíu). Það má ekki gerast.
Að langskólagenginn maður geti skrifað svona mikið staðreyndalausri þvælu er með eindæmum.