Síðastliðin þrjú ár hefur lögreglan á Norðurlandi eystra haft til sakamálarannsóknar fréttaflutning íslenskra blaðamanna af alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja. Nú þegar rannsókninni hefur loksins verið hætt liggur ljóst fyrir að afhjúpun blaðamanna á framferði „skæruliðadeildar“ Samherja var það eina sem lögreglan rannsakaði blaðamennina fyrir og ekkert annað. Við erum tveir þessara blaðamanna.
Leiðin að lokum þessarar rannsóknar er vörðuð ýmsum dylgjum og fullyrðingum frá bæði lögreglu og einstaka ráðamönnum um að eitthvað annað og meira hafi legið til grundvallar. Í loftinu hafa legið, eða beinlínis verið settar fram, farsakenndar ásakanir þess efnis að hópur blaðamanna á þremur mismunandi fjölmiðlum hafi gert atlögu að lífi og heilsu skipstjóra á Akureyri í því skyni að komast yfir gögn sem hann átti. Fyrir dómi fullyrti saksóknari embættisins að undir væru allt önnur brot en lögreglan viðurkennir nú að hafi verið til rannsóknar. Dylgjur sem settar hafa verið fram um þetta mál hafa öðlast sjálfstætt líf og um sumar er talað eins og þær séu sannar.
Sakarefnið sem okkur var kynnt í yfirheyrslu hjá lögreglu reyndist vera listi yfir fyrirsagnir frétta sem skrifaðar höfðu verið og birtar hjá Stundinni og Kjarnanum, forverum Heimildarinnar. Í þessum fréttum var afhjúpað hvernig starfsmenn og ráðgjafar Samherja – sumir hverjir þá, líkt og nú, á meðal sakborninga í rannsókn á stærsta mútu- og spillingarmáli sem upp hefur komið bæði á Íslandi og í Namibíu – lögðu á ráðin um að koma í veg fyrir að lykilvitni í mútumálinu myndi bera vitni fyrir dómi.
Auk þess skipulagði hópurinn rógsherferð gegn blaðamönnum sem afhjúpuðu starfshætti fyrirtækisins í Namibíu, gerði tilraun til að vega að færeyskum blaðamönnum auk þess að gera vanmáttugar tilraunir til að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands og prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Norðurlandi eystra.
Umfjallanirnar birtust upphaflega á forsíðu Stundarinnar og vef Kjarnans að morgni 21. maí árið 2021. Viðbrögð samfélagsins voru mikil og leiddu þau að endingu til þess að forsvarsfólk Samherja – sem sumt var sjálft afhjúpað í umfjöllun um „skæruliðadeildina“ – gat ekki annað en beðist afsökunar. Stjórnendur fyrirtækisins viðurkenndu að hafa brugðist harkalega við umfjöllun fjölmiðla um málefni sín. Þeir sögðu „og ljóst að of langt hefur verið gengið í þeim viðbrögðum. Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“
Rúmum mánuði síðar baðst fyrirtækið svo afsökunar á háttsemi sinni í Namibíu, sem hafði verið afhjúpuð í samstarfi Wikileaks, Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera árið 2019.
Sími, tölva og Jón Óttar
Viðbrögð lögreglunnar við umfjölluninni voru önnur en almennings. Ekki var kafað ofan í þau efnisatriði sem þar voru afhjúpuð, svo sem ráðabrugg um að koma í veg fyrir vitnisburð uppljóstrara mútumálsins í Namibíu, heldur réðst lögreglan í sjálfsprottna rannsókn á því hvernig við unnum vinnuna okkar.
Þegar Páll Steingrímsson kom á starfsstöð lögreglunnar á Akureyri, 14. maí árið 2021, var hann ekki kominn til að tilkynna um yfirvofandi fréttaflutning. Í skjölum lögreglu, sem eru hluti af rannsóknargögnum málsins, kemur fram að hann hafi þarna, rúmri viku fyrir birtingu fréttanna, mætt á lögreglustöðina til að tilkynna að hann grunaði samstarfsmann sinn hjá Samherja, Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumann, um að hafa skoðað farsíma sinn, stolið af sér tölvunni og reynt að komast inn á Facebook.
„Aðspurður um hvort hann hefði einhvern grunaðan um að hafa farið í síma hans eða stolið fartölvu hans nefndi hann á nafn Jón Óttar Ólafsson sem er samstarfsmaður hans hjá Samherja,“ segir í skýrslu lögreglunnar. Þar segir einnig að Páll hafi haft það sérstaklega á orði að í símanum væru gögn sem tengdust Samherja og Namibíu, „trúnaðargögn og því væri um að ræða mjög viðkvæm gögn sem ættu ekki erindi við almenning“.
Daginn sem við höfðum samband við Pál vegna umfjöllunarinnar, þann 20. maí, mætti hann að nýju á lögreglustöðina á Akureyri og lagði fram kæru á hendur óþekktum aðila sem hefði komist í síma hans og fartölvu, tekið þaðan gögn og komið til fjölmiðla.
Þegar fréttirnar voru birtar kom hann aftur og sagðist nú gruna fyrrverandi eiginkonu sína um að hafa lekið gögnum úr símanum sínum og tölvu og til viðbótar að hún hefði byrlað honum svefnlyf í bjór. Lögreglan tók strax að rannsaka þessar alvarlegu ásakanir. Aldrei kærði hann okkur blaðamennina fyrir fréttaflutninginn.
Rannsókn lögreglu leiddi fljótt í ljós að ekkert haldbært gat fært sönnur á fullyrðingar um að Páli hefði verið byrlað svefnlyf. „Í fyrirliggjandi gögnum fundust engar handfastar vísbendingar um að reynt hafi verið að eitra fyrir honum“, skrifar réttarmeinafræðingur Landspítalans og komst þannig að sömu niðurstöðu og læknar á Akureyri höfðu þegar gert. Ekkert benti til að Páli hefði verið byrlað. Það liggur líka fyrir í ítarlegum sjúkragögnum Páls, sem eru hluti af gögnum málsins, að skimað var fyrir slævandi lyfjum í eiturefnaprófi sem framkvæmt var þegar hann lagðist veikur inn á sjúkrahús, en ekkert fannst.
Ekkert af þessu var þó undir í rannsókn lögreglunnar á okkur. Hvorki byrlun né stuldur á síma.
Lögregluvottuð umfjöllun
Gögn málsins gefa til kynna að Páll Steingrímsson hafi að miklu leyti stjórnað takti rannsóknar lögreglunnar á Akureyri. Þann 3. janúar 2022 kom hann með símann sinn og lagði hann fram til skoðunar. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að þetta hafi verið í annað sinn sem Páll hafði afhent lögreglu símann sinn.
Þetta var þó í fyrsta sinn sem hann vakti sérstaklega athygli lögreglunnar á því að í dulkóðaða samskiptaforritinu WhatsApp væri að finna samtal merkt „PR Namibía“ og annað við Örnu Bryndísi Baldvins McClure, sem er innanhússlögmaður Samherja og ein þeirra sem hefur réttarstöðu grunaðs í yfirstandandi múturannsókn íslenskra yfirvalda.
Lögreglan tók við símanum og gerði í honum talsverða leit. Í skýrslu sem lögreglufulltrúinn sem þá hafði málið til meðferðar skrifaði, segist hann hafa skoðað samtöl á milli Páls og Örnu McClure, Þorbjörns Þórðarsonar, lögmanns og ráðgjafa Samherja, Jóns Óttars, og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, auk hópspjallsins „PR Namibía“. Lögreglan bar svo samtölin saman við tilvitnanir í fréttum Stundarinnar og Kjarnans um „skæruliðadeildina“. Niðurstaða lögreglunnar var skýr: „... nokkuð ljóst að þær hafi verið unnar upp úr gögnum sem finna má í ofangreindum spjallgrúppum, sem og í tölvupósti kæranda.“
Það er kannski eini ljósi punkturinn í þessu máli öllu: lögreglurannsókn hefur staðfest að allt sem vitnað var til í umfjöllun um „skæruliðadeild“ Samherja var satt og rétt. Þetta eru ummæli eins og þessi: „Var að tala við þmb og þið eigið núna að kæra Jóhannes fyrir þjófnaðinn úr fiskbúðunum,“ og: „Ef Jóhannesi verður talin trú um það í leiðinni að þar með haldi ekki samningur hans við namibísk stjórnvöld þá er hann pottþétt ekki að fara að mæta í réttarsal.“
Gögn í öðru máli – rannsókn íslenskra yfirvalda á mútugreiðslum Samherja í Namibíu – sýna að þetta var reynt. Í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara sakaði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og þá aðaleigandi útgerðarinnar, uppljóstrara mútumálsins um að hafa stolið fjármunum. Ekkert styður þó ásakanir um þjófnað og ásakanir Þorsteins hafa ekki leitt til neins. Enn situr fjöldi manns í varðhaldi og sæta ákæru fyrir að hafa tekið við peningum frá fyrirtækjum Þorsteins.
Hjá einhverju öðru lögregluembætti, í einhverju öðru landi, hefðu uppljóstranir um ummæli og svo aðgerðir sem virðast til þess fallnar að fæla lykilvitni frá því að gefa vitnaskýrslu í stórfelldu sakamáli, mögulega orðið til þess að kveikja athygli lögreglu. En ekki hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Ekki hægt að afrita WhatsApp
Upplýsingaskýrsla lögreglu, sem staðfestir nákvæma skoðun hennar á þessum samtölum, er dagsett 14. janúar árið 2022. Þá hafði rannsókn málsins staðið yfir í um það bil níu mánuði. Lögreglan hafði haft aðgang að síma Páls til rannsóknar næstum allan þann tíma. Í þágu rannsóknarinnar reyndi lögreglan að afrita símtækið í heilu lagi til að ná af honum öllum gögnum. En það tókst ekki. „Þar sem WhatsApp samskiptaforritið er dulkóðað afritast það ekki þegar símtæki er afritað og því voru samskiptin tekin upp og sett á mynddisk sem fylgir með í málsgögnum,“ skrifar lögreglan í upplýsingaskýrslu sína.
Sléttum mánuði síðar, á Valentínusardaginn árið 2022, voru fjórir blaðamenn boðaðir í skýrslutöku með réttarstöðu sakbornings. Auk okkar tveggja voru það Þórður Snær Júlíusson, þáverandi ritstjóri Kjarnans, og Þóra Arnórsdóttir, þáverandi ritstjóri Kveiks á RÚV. Okkur var kynnt að tilefnið væru fréttir af „skæruliðadeild“ Samherja og hugsanlegt brot á ákvæðum laga um friðhelgi einkalífs.
Glæpsamleg blaðamennska
Annar okkar tveggja lét á það reyna fyrir dómi hvort lögreglu væri yfir höfuð heimilt að kalla blaðamenn til yfirheyrslu með stöðu sakbornings vegna fréttaskrifa. Málið var flutt fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra og skilaði Eyþór Þorbergsson, saksóknari embættisins, langri greinargerð til dómsins vegna rannsóknarinnar. Í greinargerðinni var strax staðfest, skriflega, að við lægjum ekki undir grun um að hafa stolið síma eða byrlað sjómanni. Ekki einu sinni var hægt að skilja greinargerð saksóknarans sem svo að grunur væri á að við hefðum afritað síma skipstjórans. Þetta var í febrúar árið 2022.
Í greinargerðinni nýtti saksóknarinn þó tækifærið og dylgjaði um meint brot fyrrverandi eiginkonu Páls, en rannsókn á þeim hefur einnig verið felld niður. Þar flugu fullyrðingar sem lögreglan hafði þá þegar ekki neitt í höndunum um að gæti staðist, að því er virðist einungis til að vekja hughrif þeirra sem greinargerðina myndu lesa að við blaðamennirnir værum hreinræktuð illmenni sem nýttu sér veika stöðu annarra sér til framdráttar, faglega og jafnvel fjárhagslega. Fyrir dómi var talsvert fjallað um kynferðislegt myndefni sem sagt var hafa verið í síma Páls á einhverjum tímapunkti. Fullyrti Eyþór að blaðamenn hefðu í það minnsta þurft að skoða myndefnið til að ákvarða hvað ætti erindi við almenning og fabúleraði um að þeir hefðu mögulega líka tekið afrit af þessu sama myndefni.
Héraðsdómur komst fljótt að skýrri og afgerandi niðurstöðu um að ekki væri heimilt, miðað við málatilbúnað lögreglu, að kalla blaðamann til yfirheyrslu vegna fréttaskrifa. Þá benti dómari réttilega á að enginn hefði tilkynnt um stolin kynlífsmyndbönd né hefði Páll „lýst áhyggjum af afdrifum þeirra“.
Fyrir utan þá staðreynd, sem er augljós öllum nema lögreglunni á Norðurlandi eystra, að blaðamaður gerist ekki sekur um glæp ef hann sér gögn sem ekki eiga erindi til almennings svo lengi sem hann birtir þau ekki.
Lögreglan felldi sig ekki við þessa niðurstöðu og vísaði málinu til Landsréttar sem fjallaði ekki efnislega um málið, heldur taldi vald dómstóla til að kveða á um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu næði eingöngu til formlegra atriða en ekki efnislegra. Þannig mættu dómstólar ekki taka efnislega afstöðu, líkt og héraðsdómur gerði.
Ferðalok lögreglu
Við höfum setið undir því að vera með réttarstöðu sakbornings í vel á þriðja ár. Á þessum tíma hefur lögreglan vitað að engar vísbendingar voru um að við hefðum framið glæp. Enginn kærði okkur fyrir að birta fréttir. Rannsóknin var algjörlega sjálfsprottin. Áður en fyrsta holl blaðamanna var gert að sakborningum í þessu máli hafði lögreglan sýnt fram á að afritun símans var ekki möguleg vegna dulkóðunar. Þá þegar hafði lögreglan einnig staðfest að allt sem fjallað var um var satt og rétt. Á þessum langa rannsóknartíma og fyrir tilstilli yfirlýsinga saksóknara, lögreglustjóra og ráðherra um málið, hefur hins vegar skapast frjór jarðvegur fyrir hóp af fólki að halda fram röngum og meiðandi hlutum um glæpi og slæmt innræti okkar.
Yfirlýsing lögreglu um niðurfellingu málsins birtist á Facebook-síðu embættisins rétt um það leyti sem við sjálf fengum tilkynningu um hana og áður en lögmenn okkar höfðu verið upplýstir um málið. Þannig reyndi lögreglan að ná stjórn á umræðunni og viðhalda eigin útgáfu af sögunni, með dylgjum um mögulegt saknæmt athæfi.
Í langri yfirlýsingu lögreglunnar á Facebook reyna fyrirsvarsmenn hennar að halda sig við þá kenningu að við gætum nú vel verið sekir, jafnvel þó að á sama tíma viðurkenni þeir að meintur glæpur var aðeins fréttaflutningur okkar af framgöngu „skæruliðadeildarinnar“. Á Íslandi er ekki saknæmt að flytja fréttir. Ekkert okkar var nokkru sinni grunað um aðild að byrlun og ekkert okkar var grunað um að hafa dreift kynferðislegum myndum sem lögreglan fann á símtæki sjómannsins. Enn fullyrðir lögreglan þó að símtækið hafi verið afritað og virðist gera það gegn betri vitund. Í þessu ljósi má velta fyrir sér hverra hagsmuna lögreglan er að gæta. Yfirlýsingin hefur þegar verið notuð sem áburður á þau efasemdafræ sem lögregla og ráðamenn hafa stráð um heilindi okkar og heiðarleika í umræðu um málið.
Það sem málið afhjúpar eru vafasöm viðhorf lögreglunnar á Norðurlandi eystra til fjölmiðla. Margoft hefur saksóknari tekið sér það hlutverk að gera lítið úr þeim blaðamönnum sem voru undir í rannsókn hans. „Ef þú þolir ekki gagnrýni um sjálfan sig, og það má segja það um blaðamenn líka, eiga menn bara að vera í blómaskreytingum,“ sagði saksóknarinn í viðtali við Vísi í febrúar árið 2022 og ítrekaði svo að hann væri að beina orðum sínum að okkur. „Já, sumir ættu að vera í blómaskreytingum.“
Morgunblaðið ræddi á dögunum við Jakob R. Möller hæstaréttarlögmann um málið. Hann benti á hve sérkennilegt það væri að hefja sakamálarannsókn á hendur fólki sem ekki sé vitað um hvað sé sakað.
„Hvað hver og einn þeirra átti að hafa gert hefur aldrei verið upplýst. Það er ekki refsivert að dreifa upplýsingum, þótt það kunni að vera siðferðilega rangt,“ sagði hann við blaðið og bætti við að þær upplýsingar sem lögreglan veitti gerðu „hlut hennar enn verri“.
„Það sem lögreglan átti ekki að gera er að lýsa því yfir að þetta fólk væri grunað um einhver misindisverk. Hún átti að biðjast afsökunar og aflétta þessari rannsókn. Lögreglan vissi ekkert hvað hún var að gera. Það finnst mér alvarlegt,“ segir Jakob.
Þráspurt um heimildarmann
Skaðinn sem lögreglan hefur með fordæmalausum leiðangri sínum valdið fyrir trúverðugleika blaðamanna verður líklega aldrei bættur að fullu. Ekki einu sinni með sannleikanum. Lögreglan reyndi enn og aftur að varpa sök á okkur með því að kenna okkur sjálfum um að ekki hafi tekist að sanna neitt. „Sakborningar sem störfuðu hjá fjölmiðlum neituðu að tjá sig hjá lögreglu og afhentu lögreglu engin gögn,“ skrifaði lögregla.
Einu spurningarnar sem við svöruðum ekki í yfirheyrslu lögreglu voru þær sem sneru að því hvernig gögnin rötuðu til okkar, því okkur er bannað með lögum að svara spurningum sem geta varpað ljósi á heimildarmenn. Öðrum spurningum var svarað.
Lögreglan hefur ítrekað gert lítið úr þessari lögbundnu vernd heimildarmanna. Lögregla og saksóknari fullyrða að þau viti hver heimildarmaður fjölmiðla sé án þess að hafa einu sinni getað sýnt fram á að gögn hafi farið úr síma skipstjórans. Það að lögreglan telji sig vita eitthvað breytir heldur engu um þær lagalegu skyldur sem á okkur hvíla til að þegja um hver heimildarmaður okkar sé. Þá fullyrðir lögreglan að þau hafi aldrei spurt um heimildarmenn. Lögreglan spurði að nákvæmlega því. Hér eru níu dæmi um það, úr yfirheyrslu yfir Aðalsteini.
-
Aðalsteinn var spurður hvort að [X] hafi afhent honum eða einhverjum öðrum gögn?
-
Aðalsteinn var spurður hvort að [X] hafi afhent honum eða einhverjum öðrum síma eða einhver önnur tæki?
-
Aðalsteinn var spurður hvort að [Y] hafi afhent honum gögn á einhverjum tímapunkti eða gefið heimild/ aðgang að einhverju í hennar eigu?
-
Aðalsteinn var spurður hvort að [Y] hafi afhent honum síma eða önnur tæki í hennar eigu eða einhverra annarra?
-
Í þessum greinum sem vísað er í gögn, skjöl, tölvupóstasamskipti, sem Kjarninn og Stundin segjast vera með undir höndum. Aðalsteinn var spurður með hvaða hætti komust þessir fjölmiðlar yfir gögnin eða fengu aðgang að þessum gögnum (sbr. 229. gr.) sem vísað er í áðurnefndum greinum?
-
Í grein Kjarnans“ Skæruliðadeild Samherja sem vill stinga, snúa og strá svo salt í sári“ kemur fram að ábyrgðarmenn Kjarnans vilji taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar bárust frá þriðja aðila. Aðalsteinn var spurður hver er þessi þriðji aðili er sem kom gögnum til Kjarnans og/eða Stundarinnar og hvaða hætti var það gert?
-
Aðalsteinn var spurður með hvaða hætti voru gögnin sem hann notaði afhent?
-
Aðalsteinn var spurður hvort að gögnin hafi verið afhent á rafrænan hátt eða útprentað?
-
Aðalsteinn var spurður hvort að hann hafi tekið við farsíma Páls af [Y] og afritað úr honum gögn?
Þórður Snær Júlíusson var líka spurður hver heimildarmaðurinn væri. Spurning til hans hljóðaði svo: „Hver er þessi þriðji aðili sem kom gögnum til Kjarnans og/eða Stundarinnar og með hvaða hætti var það gert?“
Lögreglan segir því einfaldlega ekki satt í yfirlýsingu sinni. Hún lýgur.
Fyrir utan skaðann sem lögregla hefur unnið á frjálsri og gagnrýninni blaðamennsku á Íslandi er annað sem stendur eftir, sem hefur fengið öllu minni athygli en samsæriskenningar um illt innræti okkar. Það er sú staðreynd að allt sem fram kom í fréttunum um „skæruliðadeild“ Samherja var satt og rétt. Hópur á launum hjá einu af stærstu fyrirtækjum landsins lagði á ráðin um að koma í veg fyrir vitnisburð lykilvitnis í risastóru mútumáli fyrirtækisins í Namibíu og reyndi að rífa niður trúverðugleika blaðamannanna sem afhjúpuðu málið á meðan þau voru í beinu sambandi við alla helstu stjórnendur og eigendur Samherja, þeirra nánustu ráðgjafa og samstarfsmenn.
Syslumaður a að segja af ser og fleiri i Lögregluni þarna. Hægri Öflin eru buin að sölsa altt Bitastætt undir sig. Þetta eru Nasista vinubrögd. Domarar Syslumenn Domsmalaraðherra eru allt Hægri Stefnufolk . Þarna atti Syslumaður að SNAUTA BURT.
Eg fylgist mikið með Frettum fra Bretlandi Þar er LYÐRÆÐIÐ VIRKT nylega kom upp þar mal Þar sem Virtur starfsmaður BBC komin a efri ar var uppvis að Safna Barnaklami i MASSAVIS. Starfsloka Samningur hans var Ogiltur og Greidd Laun, BAKDREGIN langt aftur i timan, Þar að auki fær hann Dom og settur a skra yfur BARNANYÐINGA Maður
sem var virtur Sjonvarpsmaður og Flutti Þjoðini Frettir heim i stofu i araraðir. Það var REYTT AF HONUM FIÐRIÐ. I Islandi ætti ekki að Meðhöndla Öfga Hægri Syslumenn og Löggu með SILKIHÖNSKUM. VALHALLARMAFIAN Veður uppi. Eg er þess fulviss að
SPILING er inan LÖGREGLUNAR A ISLANDI OG HJA RUV. HÆGRIÖFLIN ERU HÆTULEG
BORGURUNUM.