Popúlismi er partur af íslensku flokkakerfi, því miður, sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra í viðtali við Heimildina í síðustu viku, spurð hvort hún teldi íslenska stjórnmálamenn eiga það til að fiska í gruggugu vatni, með nálgun sinni á málefni útlendinga.
Ekki vildi Svandís nefna nein sérstök dæmi í samtali sínu við blaðamann, en sagði að það væri „ákveðin tilhneiging á Vesturlöndum þessi misserin til þess að kynþáttafordómum og útlendingahatri vaxi ásmegin“ og „mjög alvarlegt þegar stjórnmálaflokkar nýta sér slíkar hreyfingar og gefa þeim lögmæti með því að nota þær í pólitískri orðræðu“.
„Því við vitum að ef stjórnmálin taka sér áherslur í munn af þessu tagi, þá færast normin í samfélaginu og þetta sjáum við alls staðar í löndunum í kringum okkar, að þegar við erum komin með stjórnmálaflokka og stjórnmálahreyfingar sem gera sér mat úr andúð á fólki úr öðrum menningarheimum eða af öðrum uppruna, þá aukast líkur á því að það verði hluti af almennri umræðu. Þar með verður óöruggt fyrir fólk af erlendum uppruna að vera þátttakandi í samfélaginu,“ sagði Svandís.
Innviðirnir áskorun, ekki fjöldinn
Svandís sagði einnig að ef umræðan hérlendis þróaðist með þeim hætti, að fjölgun fólks af erlendum uppruna í samfélaginu – og þar sé hópur flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd lítið brot – sé orðin vandamál, sé það birtingarmynd þess að treysta þurfi innviði samfélagsins.
„Stóru áskoranirnar snúast ekki um fjöldann sem kemur, heldur um inngildinguna og innviðina og að við stóraukum áherslu á að innflytjendur geti í raun og veru verið þátttakendur í íslensku samfélagi,“ segir Svandís. Þessum áskorunum, líkt og mörgum öðrum, segir Svandís að verði ekki mætt með lausnum markaðarins.
Nánar er rætt við Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra í nýjasta tölublaði Heimildarinnar. Viðtalið í heild sinni má lesa hér.
Dómgreindarleysið gagnvart ástandinu í Evrópu vegna holskeflu flóttamanna er hættulegt.