Málarekstrinum var rétt að ljúka síðdegis fimmtudaginn 26. september þegar blaðamaður heyrir í pistlahöfundinum á Facetime. „Dómarinn sagðist ekki ætla að fella dóm í dag heldur leggjast frekar yfir málið – sem kallast „Reserve judgement,“ útskýrir Sif sem hefur ekki einu sinni náð að fá sér kaffibolla fyrir samtalið.
Hún segir að Odee – öðru nafni Oddur Eysteinn Friðriksson – telji það vera góðs viti fyrir sig. „Það sýnir að málið er flókið,“ hefur hún eftir honum og segir að í réttarsalnum hafi lögfræðingar Samherja leitast við að sýna fram á að Samherji væri þekkt vörumerki í Bretlandi, einkum meðal viðskiptavina fyrirtækisins: „ ... sem nyti góðs orðstírs – „good will“ kallast það á lagamáli – sem þyrfti að vernda,“ botnar hún.
„Í vörn sinni leitaðist Oddur við að sýna fram á að verk hans væri ekki „tilefnislaus árás á“ Samherja – „senseless attack on the Claimant““ ... – þýðir Sif jafnóðum – „ ... heldur listaverk sem ætlað var að vekja athygli á samfélagslegum vandamálum og gagnrýna framferði stórfyrirtækja, útskýrir hún og skiptir aftur yfir í ensku: „raise awareness about social issues, and critique corporate practices“.
Þess ber að geta lögmenn Samherja fluttu mál fyrirtækisins en Oddur flutti sitt mál sjálfur. Sif vitnar í þessi orð úr málflutningi hans: „Listaverkið kom af stað umræðu og rökræðum á Íslandi og víðar um spillingu og ábyrgð.“
„Í vörn sinni leitaðist Oddur við að sýna fram á að verk hans væri ekki „tilefnislaus árás á“ Samherja.“
„Hringleikahús fáránleikans“
Sif segir því næst að þótt lögfræðingar Samherja hafi viðurkennt að fyrirtækið hefði ekki orðið fyrir skaða vegna listaverksins var talið að skaði hefði getað hlotist af verkinu. Aftur á móti telji Oddur málið vera stærra en listaverk.
„Hann segir tilganginn með málsókninni vera þá að kæfa opinbera gagnrýni,“ útskýrir Sif og segir að í samtali við sig hafi Oddur sagt: „Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja. Það er eitthvað sem listaverkið dregur fram. Og það er eitthvað sem gefur listaverkinu meira listrænt gildi.“
Voru þetta listræn réttarhöld?
„Oddur lýsir því sem „hringleikahúsi fáránleikans“ að sitja í breskum réttarsal í einhvers konar „ritrýni“ um eigið verk. Í tilraun til að sýna fram á að heimasíðan, sem var hluti af verki Odds, væri ekki list lásu lögmenn Samherja upp skilgreiningu Ensku orðabókarinnar á list. Oddur velti fyrir sér hversu gáfulega skilgreiningu hann fyndi þar um orðið „lögfræði“.“
„Lögfræðingar Samherja flettu upp skilgreiningu Ensku orðabókarinnar á list“
Stefndi: „Mér leiðist“
Aðspurð hvernig listamanninum virtist líða í réttarsalnum segir Sif: „Frægt er þegar þáverandi sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, spurði Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, hvernig honum í liði í kjölfar þess að fjölmiðlar fjölluðu um meintar mútugreiðslur fyrirtækisins í tengsl¬um við Namibíuveiðar þess. Mér fannst því rétt að spyrja Odee í réttarsalnum hvernig honum liði. „Mér leiðist,“ svaraði hann,“ – lýsir Sif og segir það vera tilfinningu sem vafalaust fleiri í salnum hafi fundið til eftir að hafa hlýtt á lögfræði-teymi Samherja tala af alvöruþrunginni lotningu um vörumerki og markaðsefni fyrirtækisins í tvær og hálfa klukkustund.“
En hvernig kom þetta þér fyrir sjónir? Geturðu lýst stað og stund?
„Oddur ver sig sjálfur gegn fimm manna teymi frá lögfræðiskrifstofu í London. Fyrsta morguninn sat Oddur fyrir utan réttarsalinn ásamt lögfræðilegum ráðgjafa sem er honum innan handar, ung kona sem styður hann „pro bono“. Hann var hversdagslega klæddur í svartar gallabuxur, litríka köflótta skyrtu og strigaskó, hún ægilega smart frönsk skvísa í flottum leðurstígvélum. Það dimmdi yfir þegar sveimur af lögmönnum valsaði inn í gráum jakkafötum. Það reyndist hið tröllvaxna teymi Samherja.“
Hún segir andartakið hafa verið eins og klisjukennd bíómynd um lítilmagnann sem tekst á við hið illa stórfyrirtæki. „Oddur var með skjölin sín í bakpoka sem hann keypti í Ikea. Lögfræðiteymi Samherja ferjaði gögnin sín inn í skjalmöppum á hjólbörum. Það fangaði dálítið Davíð og Golíat stemninguna í réttarsalnum.“
Var skrýtið að fylgjast með þessu?
„Það er augljóslega erfitt fyrir Íslending að þurfa að mæta til London og verja sig svona í ókunnugu landi, í ókunnugu kerfi, á tungumáli sem er ekki móðurmál hans og það án lögfræðings. Íslendingurinn í mér vildi helst fara til hans og gefa honum knús. Þegar málflutningi lauk í dag bauðst dómarinn til að kveða upp dóm sinn í gegnum Zoom svo að Oddur þyrfti ekki að ferðast aftur til London og ljúka mætti málinu með hraði. Þegar Oddur kvaðst heldur vilja vera viðstaddur í persónu andvörpuðu lögfræðinga Samherja þungt. Eftir að málarekstrinum lauk stormaði dómarinn út.
Þeir sem ekki þekkja breskt dómskerfi vita auðvitað lítið um það hvað gerist næst. Hinir jakkafataklæddu hrukku þá í mannlega gírinn og útskýrðu fyrir Oddi og lögfræðiráðgjafa hans, Andra Matei, hvað tæki við í ferlinu,“ segir Sif að lokum.
Blaðamaður þakkar þar með pistlahöfundi fyrir innsýnina.
Held að meirihluti Íslendinga standi með Odee, gegn þessu "hrigleikjahúsi fáránleikans,,.