Slökkt var á hljóðnema Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra áður en ávarpi hans lauk á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York-borg á sunnudaginn var. Bjarni talaði í rétt rúmlega fimm mínútur en fór yfir þann tíma sem honum hafði verið úthlutað og fékk ekki að ljúka við ræðu sína.
Í ávarpinu lagði Bjarni áherslu á heilbrigði hafsins og það að virðing væri borin fyrir landamærum ríkja. Hann fagnaði samþykktum um jafnrétti kynjanna og sagði mikilvægt að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Hann fordæmdi það að almennir borgarar yrðu fyrir áhrifum vopnaðra átaka og nefndi að ekki nægði að ítreka fyrri skuldbindingar til þess að endurheimta tapað traust á alþjóðlegri samvinnu.
Bjarni skrifaði á Facebook í gær að það hefði verið heiður að ávarpa fundinn fyrir Íslands hönd. Hér má sjá ræðu Bjarna í heild sinni:
Sáttmáli um framtíðina undirritaður
Á leiðtogafundinum undirrituðu ríki Sameinuðu þjóðanna Framtíðarsáttmála, sem sagður er marka þáttaskil og framtíðarstefnu fjölda málefna. Sáttmálinn inniheldur 56 skuldbindingar, sem varða meðal annars alþjóðasamvinnu, loftslagsmál, stafræna þróun, afvopnun og mannréttindi.
Á sunnudaginn hitti Bjarni António Guterres, aðalframkvæmdastjóra SÞ. Þeir ræddu fundinn, samþykktir hans, málefni Úkraínu auk ástandsins í Mið-Austurlöndum.
„Ég átti góðan fund með Antonio Guterres, aðalritara SÞ. Við ræddum af hreinskilni um ógnir samtímans, m.a. stríðsátök þar sem alþjóðalög eru virt að vettugi,“ skrifar Bjarni á Facebook-síðu sína.
„Ísland á allt sitt undir því að slíkar leikreglur séu virtar. Við megum aldrei sofna á verðinum eða líta svo á að við séum ónæm fyrir þróun heimsmálanna. Miklu máli skiptir í þessu samhengi að Sameinuðu þjóðirnar séu traustur vettvangur til lausnar deilumála og samstarfs ólíkra ríkja,“ sagði Bjarni enn fremur.
Ekki náðist í forsætisráðherra við vinnslu þessarar fréttar.
Athugasemdir (5)