„Við ræddum málið frá mörgum sjónarhornum og það var mjög mikilvægt að það var orðið við þessari ósk okkar í VG að málið yrði tekið á dagskrá og rætt,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra, eftir ríkisstjórnarfund sem lauk skömmu fyrir hádegi en þar var rætt um mál hins ellefu ára Yazans Tamimi sem vísa átti úr landi í gær en brottvísunin stöðvuð af dómsmálaráðherra á síðustu stundu.
Svandís segir mál hins palestínska Yazans, sem glímir við taugahrörnunarsjúkdóminn Duchenne, „rífa í hjartað“. Málið var á dagskrá ríkisstjórnarfundar í morgun að beiðni Vinstri grænna.
Ráðherrar ekki á sömu blaðsíðu
Svandís segir fundinn hafa verið gagnlegan og fjölbreytt sjónarmið undir. „Það er ekki þannig að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu nákvæmlega á sömu blaðsíðu í þessu máli,” segir hún.
Spurð hvað hún eigi við með því að ekki séu allir á sömu blaðsíðu segir Svandís: „Það er ekkert sem kemur á óvart. Það er það sem kemur fram bara í viðtölum við okkur,” segir hún.
Á fundinum hafi þau rætt málið sérstaklega út frá hagsmunum barna og út frá hagsmunum þeirra sem sæta lögregluaðgerð á meðan þeir eru inniliggjandi á sjúkrahúsi. Deildar meiningar hafi verið um þetta en í grunninn hafi samtalið á fundinum verið gott.
Fundurinn leiddi hins vegar ekki af sér neina eiginlega niðurstöðu í máli Yazan. „Það er náttúrlega ekki á borði ríkisstjórnarinnar í sjálfu sér að taka ákvarðanir um það en um leið þá held ég öllum sé ljóst að það saxast á þann tíma sem líður þar til Yazan og hans fjölskylda eigi rétt á efnismeðferð,“ segir Svandís.
Ríkisstjórnin muni standa málið af sér
Eru einhverjar líkur á því að ríkisstjórni geti fallið út af þessu máli?
„Mér fannst það ekki á þessum fundi. Það er auðvitað mikill hiti í þessu máli, en við erum náttúrulega eldri en tvævetur og höfum gengið í gegn um mörg erfið mál, þessi ríkisstjórn. Við þekkjumst mjög vel og vitum út á hvað helstu átakalínur ganga. Við höfum farið í gegn um flóknari og þyngri pólitísk mál heldur en þetta. Hins vegar er þetta mál sem rífur í hartað á manni og er þess vegna dálítið á öðrum skala heldur en margt annað sem við erum að ræða,“ segir Svandís.
Hún leggur áherslu á að ríkisstjórnin og stjórnmálamenn gæti vel að því að sinna þeim hlutverkum sem þeir eru kjörnir til að sinna, og framfylgja lögum: „En við sem erum í stjórnmálum megum ekki gleyma því að við erum líka manneskjur.“
Eruð þið sátt við málið eins og það stendur núna?
„Ég held að þetta hafi verið til mikils gagns.“
Hefurðu áhyggjur af ríkisstjórnarsamstarfinu út af þessu máli?
„Nei, ekki út af þessu máli.“
Út af öðrum málum?
„Já, já, þessi ríkisstjórn er náttúrulega þannig að hún þrælast í gegn um hvað sem er þannig að ég held að hún sé löngu vaxin upp úr því að maður sé að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af henni.“
Athugasemdir (1)