Loftlagsmál eru eitt af helstu áherslumálum ríkistjórnarinnar.“
Á þessum orðum hefst aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem gildir til ársins 2030.
Þegar þetta er skrifað eru náttúruhamfarir af völdum loftslagsbreytinga að eiga sér stað á 66 mismunandi stöðum í heiminum. Að auki er varað við frekari hamförum í Líbíu, Mið-Afríku og El Salvador sökum áður óþekktar úrkomu, flóða og skriðufalla.
Þurfum við að hafa áhyggjur af því?
Ekki eitt orð í stefnuræðu forsætisráherra
Forsætisráðherra virðist ekki hafa miklar áhyggjur. Í það minnsta nefndi hann loftslagsmál ekki einu orði í stefnuræðu sinni á Alþingi í vikunni.
Reyndar var aðeins einn ráðherra sem gerði loftslagsmál að umtalsefni, sem kom upphaflega inn í ríkisstjórnina sem faglegur umhverfisráðherra en endaði eftir eitt kjörtímabil og misheppnaðar tilraunir til að gera miðhálendið að þjóðgarði, í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Sjálfstæðisflokkurinn tók umhverfisráðuneytið yfir og umbreytti því í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti undir stjórn manns sem státar af því að hafa gert það að sínu fyrsta verki að samþykkja rammaáætlun til að koma fleiri virkjanakostum aftur á borðið.
Af 63 þingmönnum voru tveir sem töluðu um loftslagsmál í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. „Stóra málið eru efnahagsmálin,“ útskýrði þingmaður Viðreisnar í sjónvarpsfréttum RÚV síðar um kvöldið. Við hlið hans stóð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann og sammælti. Hann var hvorki spurður né tók sjálfur upp umræðu um loftslagsmálin.
Viðhorfið endurspeglaðist í þingsal þetta kvöld þar sem efnahagsmál voru tekin fyrir í nánast hverri einustu ræðu, auk þess sem rætt var um húsnæðismál, heimsfaraldur, ofbeldi, femínisma og baráttuglaðar ömmur. Nánast allt annað en stærstu ógn samtímans.
Forsætisráðherra lýsti „nýrri og glæsilegri“ skrifstofubyggingu Alþingis í upphafi ræðunnar og fór þaðan yfir í söguskýringu: „Það þurfti kjark, baráttuhug og óbilandi trú á framtíðarmöguleika íslensku þjóðarinnar til að berjast fyrir því að ráða málum okkar sjálf, frjáls og fullvalda.“
Íslendingar mættu vera stoltir af stöðu sinni í samfélagi þjóða, því hér væru lífskjör í fremstu röð og Íslendingar öðrum þjóðum fyrirmynd.
Þegar hann vék orðum að framtíðarkynslóðum snerist það um lífsgæðin. Að skapa þeim betra líf. Til þess hefði verið ákveðið að tvöfalda landsframleiðslu á árunum 2012 til 2030. „Þetta átti að tryggja að við gætum staðið jafnfætis þeim sem við viljum helst bera okkur saman við.“
Á undanförnum árum hefur ungt fólk hins vegar kallað eftir annars konar lífsgæðum: Að fá að lifa í heimi sem er laus undan skelfilegum afleiðingum hamfarahlýnunar og veðuröfga.
Ætli framtíðarkynslóðum muni líða vel í glæsihúsum á meðan heimurinn stiknar?
Borðaðu borgarann, stelpa
Í verkum stjórnmálamanna hefur ekki alltaf birst skilningur á ógnum sem steðja að framtíðinni.
Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar var sögð saga ungrar tveggja barna móður í Bretlandi sem hafði veikst alvarlega, verið ósjálfbjarga mánuðum saman og lá nú banaleguna. Allar mögulegar orsakir voru útilokaðar nema neysla á sýktu kjöti. Nokkrum árum fyrr hafði John Gummer sem þá var landbúnaðarráðherra boðað fjölmiðla á fund sinn og fjögurra ára gamallar dóttur sinnar í garði þar sem hamborgarar voru seldir. Fyrir framan myndavélarnar sótti hann tvo hamborgara, einn fyrir sig, annan fyrir dóttur sína. Skilaboðin voru skýr, fyrst dóttir hans gæti borðað hamborgara gæti þjóðin það líka.
Skömmu síðar fór fólk að veikjast af Creutzfeldt Jakob, sjúkdómi sem veldur meðal annars hraðvaxandi heilabilun og tilheyrir sama flokki sjúkdóma og riðuveiki í dýrum. Ástvinir nokkurra þeirra sem veiktust sökuðu Gummer og aðra ráðherra á þessum tíma um hvítþvott.
John Gummer tók seinna sæti í loftslagsnefnd Bretlands.
Þrjátíu ára þref
Hálf öld er liðin frá því að vísindin sýndu fyrst fram á loftslagsbreytingar af mannavöldum. Barn sem fæddist þegar þjóðarleiðtogar komu fyrst saman til að ræða viðbrögð vegna þess er þrítugt. Í þrjátíu ár hafa jakkafataklæddir menn rætt lausnir við vandanum, án þess að ráðast nokkurn tímann í nauðsynlegar kerfisbreytingar.
Til þess eru hagsmunirnir of miklir.
Í þrjátíu ár hefur verið þráttað og þrefað.
Og þeir þrættu fyrir eigið getuleysi þar til þeir höfðu misst alla tiltrú. Uppfullt af vanmætti og vonleysi getur fólk varla hugsað um loftslagsvandann lengur. Það verður nánast óbærilegt.
En þetta líður ekki hjá.
Stundum er talað um að allt líði hjá. Allt sé tímabundið ástand. Frammi fyrir erfiðleikum sé hægt að hugga sig við að þetta muni líða hjá. Það á ekki við um loftslagsbreytingar, þær eru komnar til að vera. Eina sem hægt er að gera er að lágmarka skaðann með því að grípa nú þegar til viðeigandi aðgerða.
Í staðinn fyrir að gera það sem þurfti að gera, var þráttað og þrefað þar til fólk varð dofið. Hætt að geta hlustað á þetta þvarg. Ungt fólk hefur ekki lengur geð í sér til að mæta á mótmæli, fólk missir áhuga og fréttir missa marks. Þannig komast stjórnmálamenn upp með að ýta vandanum á undan sér.
Heyrið þið í mér? spurðu krakkarnir.
Svarið var nei.
Höfum ekki áhuga.
Sorgarferli vegna áralangrar afneitunar
„Við vitum flest hvað þarf að gera en hún fer vaxandi örvæntingin vegna aðgerðarleysis sem stundum virðist stafa af skammtímasjónarmiðum, bæði peningaafla og stundum stjórnmálaafla,“ sagði Auður Aðalsteinsdóttir, forstöðumaður Veraldar. Fyrir síðustu jól sendi hún frá sér bók þar sem rannsakað var hvernig hamfarir birtast í bókmenntum og listum.
Enn eru birtingarmyndir loftslagsbreytinga til framtíðar ófyrirséðar. Ein sviðsmyndin sem kynnt er í blaðinu er að niðurbrot hafstrauma í Norður-Atlantshafi leiði til róttækra breytinga á loftslagi og veðri á Íslandi á næsta áratug. Þessi röskun hafstrauma gæti valdið snöggri kólnun á Íslandi.
Þetta segir Stefan Rahmstorf, þýskur haf- og loftslagsfræðingur, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2007 og er einn af höfundum loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna. „Ríkisstjórn Íslands ætti umsvifalaust að grípa til aðgerða,“ segir hann.
Allra versta sviðsmyndin sem hann kynnir myndi vera „katastrófa fyrir Ísland og önnur Norðurlönd“. Ólíklegra er að hún rætist en enn er ekki útséð um það.
Sviðsmyndirnar eru margar en allar eru slæmar. Loftslagsbreytingar munu bitna á Íslendingum, með einum eða öðrum hætti, rétt eins og öðrum þjóðum. Heimurinn allur er undir.
Sérfræðingur á Veðurstofu Íslands varar við því að loftslagsbreytingarnar gerist svo hægt að það gæti liðið fram að aldamótum áður en það fer á gliðna á milli sviðsmynda – en þá gerist það líka mjög hratt. Það gæti því orðið langt þar til afleiðingarnar birtast Íslendingum af fullum krafti og þangað til er auðvelt að fljóta sofandi að feigðarósi.
„Margir líkja því ferli sem við erum að ganga í gegnum núna við sorgarferli, þar sem við höfum kannski verið aðeins of lengi á afneitunarstiginu,“ hélt Auður áfram á Loftslagsdeginum.
Það breytir því ekki að það sem við gerum í dag mun hafa afdrifarík áhrif á framtíðina.
Góði, líttu þér nær
„Loftslagið er umgjörðin og grunnurinn utan um auðlindirnar og vistkerfin og á auðlindunum og vistkerfunum byggjum við tilvist okkar. Án þeirra höfum við ekkert, hvorki fæði né klæði. Þess vegna er baráttan gegn loftslagsvánni ekki bara stærsta umhverfismálið heldur líka eitt stærsta velferðarmál 21. aldarinnar.“
Félags- og vinnumarkaðsráðherra svaraði stefnuræðu forsætisráðherra. Sýn hans fyrir framtíðarkynslóðir var önnur en Bjarna Benediktssonar. Ísland er ríkt af auðlindum, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, og tryggja verður sjálfbæra nýtingu þeirra, fara að horfa á náttúru sem friðhelga og að nýting hennar sé undantekning frá meginreglunni.
Að lokum varaði hann við loftslagsvá og brýndi fyrir samfélaginu, fyrirtækjum og einstaklingum að gera betur.
„Góði, líttu þér nær,“ var svar þingmanns Pírata.
Ræða Guðmundar Inga hefði kannski kallað fram létti ef hann hefði ekki haft öll völd í þessum málaflokki, og leiði nú einn af þremur stjórnarflokkunum. Hann er einn af örfáum sem á sæti við ríkisstjórnarborðið. Og það er hans að beita þeim völdum.
Andrés Ingi Jónsson hélt áfram og benti á innantóm orð ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Í fjárlagafrumvarpinu sé til dæmis tiltekið að þessi mál séu sett á oddinn. „En baráttan gegn loftslagsbreytingum birtist samt ekkert í tölunum, hvorki í fjárlagafrumvarpinu né annars staðar. Aukning á framlögum til umhverfis- og orkumála megi aðallega skýra vegna losunarheimilda sem verði ráðstafað til flugfélaga. „Aðalaukningin í málaflokknum er sem sagt niðurgreiðsla á mengandi starfsemi.“
Kannski rak Guðmundur Ingi sig á að þegar allt kemur til alls þá geta stjórnmálamenn ekki breytt kerfinu. Hvor er líklegri til að ná kjöri, stjórnmálamaðurinn sem lofar að gefa þér peninga – eða sá sem boðar byltingu?
Laugardagur í Víetnam
Öfgar í veðurfari eru ein birtingarmynd loftslagsbreytinga. Þótt enn sé ekki hægt að tengja einstaka atburði við loftslagsvá var veðrið í sumar öðruvísi en áður. Aldrei hafa fleiri viðvaranir vegna veðurs og náttúruvár verið gefnar út að sumarlagi.
Á sama tíma féll hitamet í heiminum. Fimmtánda árið í röð. Og því fylgja afleiðingar.
Það sem af er ári hefur aftakaveður í heiminum valdið tjóni upp á 41 milljarð bandaríkjadala. Það gerir:
5.656.829.000.000 íslenskar krónur. Reyndu að ná utan um það.
Í einungis fjórum öfgafullum veðurhamfaratilfellum, sem vísindalega var sýnt fram á að tengdust loftslagsbreytingum, dóu samtals 2.500 manns. Heildartala hinna látnu er mun hærri.
Síðasta laugardag birtust hamfarirnar á norðurhluta Víetnam þegar fellibylurinn Yagi gekk þar á land, öflugasti stormur sem gengið hefur yfir Suður-Kínahaf í 30 ár, og náði mest 213 kílómetrum á klukkustund í vindhraða, með þeim afleiðingum að 127 einstaklingar létust, 54 er saknað og 750 slösuðust vegna skriðufalla og ofanflóða. Alls þurftu 52 þúsund að flýja heimili sín og yfirgefa svæðið og 47.566 hús eyðilögðust. Fyrir utan skemmdir á raforkumannvirkjum, brúm og mikilvægum innviðum. Ræktun á 184 þúsund hekturum skemmdist, af hrísgrjónum og ávaxtatrjám.
Áður hafði fellibylurinn valdið manntjóni á kínversku eyjunni Hainan og í Filippseyjum – og valdið 25 dauðsföllum og enn fleiri slysum. Á Filippseyjum er 21 látinn, 26 er enn saknað og 22 slasaðir. Þar hafa 71.600 einstaklingar verið fluttir á brott vegna úrkomu, flóða og aurskriða. Í Kína létust fjórir en 95 slösuðust. Áhrif fellibylsins birtust í Kambódíu, Taílandi og Myanmar og flóð urðu í Laos.
Þriðjudaginn þar áður voru alvarleg flóð í norðurhluta Kamerún og settu 158.620 manns, þar af 38 þúsund konur á barneignaraldri og 4 þúsund þungaðar, í varhugaverða stöðu. Verulegar skemmdir urðu á ræktuðu landi, innviðum og alvarleg truflun varð á nauðsynlegri þjónustu. Ljósmæður og félagsráðgjafar voru send á vettvang og reynt var að tryggja matvælaöryggi, aðgengi að skjóli og vatni, og verja heilsu fólks. Áframhaldandi rigningar eru viðbragsaðilum áskorun og auka hættu á að upp komi sjúkdómar á borð við kóleru.
Þetta er að gerast núna.
Berum við ábyrgð?
Ástandið í ágúst
„Íslendingar eiga að vera leiðandi í loftslagsmálum,“ sagði þáverandi umhverfisráðherra árið 2021 á leið í kosningar. Á sama tíma voru Íslendingar með mesta losun koltvísýrings á hvern einstakling.
Þeir hafa hingað til gert það sem þeim sýnist, dekrað við sig á laugardagskvöldi með nautakjöti, innfluttu rauðvíni og gullflögum. Pantað fatnað frá útlöndum sem er jafnvel hent ónotuðum. Ferðast út um allan heim.
Kemur okkur þetta við?
Í Nígeríu er staðan önnur. Þar er fólk á flótta undan hamförum af völdum loftslagsbreytinga.
Að morgni 20. ágúst brast stífla sem leiddi til alvarlegra flóða. Veita þurfti tafarlausa mannúðaraðstoð á vettvangi og koma fólki í skjól og sjá því fyrir mat, vatni og læknisaðstoð. Daginn eftir vildi svo óheppilega til að annað hörmungarflóð brast á, sem jók á skelfingarástandið og eyðilegginguna. Heimili, innviði og lífsviðurværi skemmdust. Ræktunarlönd fóru undir flóð og búfénaður lést.
Frá þeim tíma hefur úrkoma valdið ítrekuðum flóðum sem valda eyðileggingu og manntjóni. Minnst 170 hafa látið lífið, um 205 þúsund hafa verið á vergangi og 77 þúsund hús hafa skemmst. Fyrr í vikunni flæddi aftur yfir stíflu sem hrakti 50 þúsund til viðbótar af heimilum sínum. Í þessum hamförum eyðilagðist bæði sjúkrahús og dýragarður.
Í Tsjad hafa allavega 145 manns látist af völdum flóða vegna úrkomu og vinda. Í suðurhluta Líbíu eru 3.000 á vergangi eftir úrkomu sem veldur flóðum og rafmagnsleysi. Í Mið-Afríkulýðveldinu hafa öfgar í veðri rústað 1.700 húsum og hrakið 3.300 á brott. Í Panama varð fjölgun á smitsjúkdómi sem berst með moskítóflugum og er talin svo alvarleg ógn við lýðheilsu að Rauði krossinn var kallaður til. Um tíu þúsund tilfelli af sjúkdómnum hafa verið staðfest og 22 eru látnir.
Þetta gerðist í síðasta mánuði. Og öll þessi atvik má rekja til loftslagsbreytinga.
Í samanburði verður kannski hjákátlegt að benda á að íbúar á Akureyri hafi vaknað upp við snjóskafla um mitt sumar. Eða að það skuli snjóa við Öskju í júní, júlí, ágúst og september.
En hvernig ætla stjórnvöld að bregðast fólki sem leitar hingað á flótta undan náttúruhamförum?
Með því að senda fleiri fárveik börn úr landi?
Það sem bíður okkar
Árið 2022 lögðu 32,6 milljónir á flótta frá heimalandinu vegna hamfara.
Loftslagsbreytingar fela í sér tilvistarógn. Ógnin er mest og verst fyrir þá sem hafa minnst um ástandið að segja. Eins og svo oft, þá bitna hitabylgjur, langvarandi þurrkar, flóð, fellibylir, hitabeltisstormar, jarðskjálftar og eldgos oft á þeim sem skilja eftir sig minnsta kolefnissporið.
Slíku ástandi fylgir stundum fæðuóöryggi og hungursneyð í verstu tilfellum. Á milli áranna 2021 og 2022 tvöfaldaðist fjöldi þeirra sem stóðu frammi fyrir brýnum vanda vegna fæðuóöryggis sem mátti rekja til aftakaveðra, og fór frá 23,5 milljónum upp í 56,8 milljónir manna.
Árið 2022 urðu hamfaratilvikin 412 og ollu 44.439 dauðsföllum.
Flóð voru algengustu hamfarirnar og síðan stormar. Þurrkar höfðu víðtækustu áhrifin en mikill hiti reyndist mannskæðastur. Nú er því spáð að hamfaratilvik gætu orðið 560 á ári frá 2030, með þreföldun á öfgaveðrum og 30 prósent aukningu á þurrkum. Samhliða eykst hætta á veikindum og dauða. Árið 2050 er talað um að um helmingur mannkyns muni vera í hættu á malaríu. Fyrir utan aðrar ógnir, 1,6 milljarðar manna gætu staðið frammi fyrir miklum þurrkum, 300 milljónir orðið fyrir árflóðum og 70 milljónir fyrir flóðum við strandir. Og svo framvegis.
Ef hægt er að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C í stað 2°C er talað um að hægt verði að bjarga allt að 420 milljónum frá óbærilegum hitabylgjum. Til þess þarf aðgerðir.
Það er komið nóg
Á meðan við erum dofin komast stjórnmálamenn upp með að gera minna en þarf raunverulega til.
Þeir rétt snerta á vandanum en standa keikir fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar með stórkarlalegar yfirlýsingar um eigið ágæti: Ég er mestur og bestur og þið ættuð bara að vita það. Undir minni stjórn er Ísland og verður best í heimi. Þú þarft ekki að upplifa það, bara að trúa mér og treysta.
„Ísland er glæsileg fyrirmynd annarra þjóða.“
Raunveruleikinn er sá að aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum inniheldur 150 atriði, þar af eru 66 þeirra aðeins hugmyndir. Og flest er þetta ófjármagnað.
Til að gæta allrar sanngirni þá má taka fram að það var reyndar einn þingmaður enn sem nefndi loftslagsmálin. Bergþór Ólason, samflokksmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem lýsti því eitt sinn yfir að besta aðgerðin í loftslagsmálum væri að Ísland mengaði sem mest.
Nú gagnrýndi Bergþór Guðmund Inga fyrir að kalla eftir stærri skrefum í loftslagsmálum. „Hæstvirtur ráðherra umhverfis- og orkumála hefur nú þegar lagt fram aðgerðaáætlun með 150 atriðum. Hvað vill formaður Vinstri grænna? 151? Það er komið nóg.“
Athugasemdir