Íslenska þjóðin stendur nú að mörgu leyti á krossgötum. Meðal annars bendir allt til þess að valdastólar Sjálfstæðisflokksins séu orðnir valtir og muni velta á hliðina innan árs. Í kjölfar þess mun ýmislegt breytast eða geta breyst. Áður var hann landsföðurlegur og öflugur stjórnmálaflokkur með talsverðan stuðning meðal launþega og annars almennings. Nú er hann hins vegar kominn í hlutverk þröngs félags eða klíku sem ber fyrst og fremst fyrir brjósti sérhagsmuni umsvifamestu og frekustu manna kringum flokkinn.
Þetta sést til dæmis glöggt í viðhorfum talsmanna flokksins til hins opinbera, einkum til ríkisins og opinberra fjármála. Í þeim málum hefur sú kredda nýfrjálshyggjunnar rutt sér til rúms hjá flokksforystunni að umsvif ríkisins eigi að vera sem minnst og tekjuöflunin eftir því, stofnanir sem fæstar og umsvifaminnstar og eftirlit með fólki, fyrirtækjum og stofnunum sem minnst. Eitt af uppáhaldsorðum Sjálfstæðismanna í þessu samhengi er einmitt orðið „eftirlitsiðnaður“ sem er yfirleitt notað í háði þó að háðið skili sér illa. Þannig er engu líkara en fyrrum stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar gefi sér nú þá vafasömu og furðulegu forsendu að stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja og stofnana séu vammlausir englar sem geri aldrei neitt sem þarf athugunar við af hálfu annarra. Undarleg og grunnhyggin þekking á manneskjunni þarna á bak við.
Ekki þarf að hafa mörg orð um það að ríki og sveitarfélög hafa verið í fjársvelti árum saman, með fulltingi Sjálfstæðisflokksins og meðreiðarflokka hans á hverjum tíma. Þetta sést til dæmis glöggt á lélegum og jafnvel versnandi innviðum, vanbúnu kerfi vega og gatna, brúa og jarðganga, undirmönnuðu heilbrigðiskerfi, myglu í skólum og öðrum húsum í opinberri eigu, sífelldum vandræðum í mönnun skólakerfisins og aðbúnaði fagfólks, sleifarlagi í umbótum í húsnæðismálum og bágum lífskjörum tekjulágra barnafjölskyldna, öryrkja og aldraðra, en þetta síðastnefnda ofbýður jafnvel svörnum Sjálfstæðismönnum eins og Bolla í 17 sem tjáði sig um það nýlega. Þannig mætti lengi telja og margt af þessu stingur enn frekar í augun ef við berum okkur saman við nágrannaþjóðir, eins og sjá má af rannsóknum Stefáns Ólafssonar og greinum hans hér í Heimildinni.
En erum við þá svona fátæk og aum að við getum ekki gert betur? Svarið er nei og ástæðan er einföld: Alltof mikið fé rennur til tekjuhárra sérhagsmunahópa sem „kunna á kerfið“ og veilur þess og greiða ekki eðlilega skatta af tekjum sínum. Láta sig þannig engu varða heildarhagsmuni þjóðarinnar með framlögum í sameiginlega sjóði. Ég er ekki sérfræðingur í þessum málum en hef þó áttað mig á eftirfarandi leiðum til umbóta sem mundu draga verulega úr fjársvelti hins opinbera og bæta um leið raunveruleg lífskjör almennings, án þess að það þyrfti að kynda undir verðbólgunni.
-
Auðlindagjald. Fátt er eðlilegra en að þeir sem fénýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar greiði fyrir það sanngjarnt gjald sem renni til sameiginlegra þarfa okkar allra. Norðmenn hafa til dæmis tekið upp slík gjöld fyrir nokkrar af auðlindum sínum. Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, upplýsir að tekjuverðmæti fiskveiðikvótans nemi samtals um 50 milljörðum króna á ári, en því fer fjarri að sanngjarn hluti af þeirri fjárhæð renni til hins opinbera. Í fyrsta lagi vill brenna við að menn greiði fjármagnstekjuskatt af þessu fé í stað venjulegs tekjuskatts og útsvars, sem væru um það bil tvöfalt hærri. Í öðru lagi er kvótagróðinn oft falinn í flækjum eignarhaldsfélaga, sjá nánar hér á eftir.
-
Fjármagnstekjuskattur var upphaflega tekinn upp árið 1997 þegar verulegar fjármagnstekjur voru sjaldgæfar, og hlutfall hans var lágt fyrst í stað. Hann hækkaði á síðasta áratug úr 10 í 22% og átti Steingrímur J. Sigfússon mestan þátt í því þegar hann var fjármálaráðherra. En vatnið leitar alltaf fram þegar nýjar leiðir opnast og fjármagnseigendur sáu að þeir gátu fært opinber gjöld af tekjum sínum frá tekjuskatti og útsvari yfir í fjármagnstekjuskatt sem er um hálfu lægri en tekjuskattur og útsvar til samans. Þessu „gati“ þarf að loka, annaðhvort með því að leggja fjármagnstekjuskattinn niður og setja tekjuskatt og útsvar í staðinn, eða þá að herða verulega reglur og framkvæmd gegn misnotkun fjármagnstekjuskatts.
-
Eignarhaldsfélög. Í lögfræðiorðasafni sem finna má í orðabanka Árnastofnunar er eignarhaldsfélagi svo lýst:
Félag sem ekki stundar venjulega atvinnustarfsemi í formi framleiðslu eða þjónustu heldur hefur þann tilgang fyrst og fremst að eiga hlutafé í einu eða fleiri hlutafélögum og nota það vald sem það fer með þar í formi atkvæðisréttar.
Mig grunar því miður að hér sé aðeins sagður hálfur sannleikurinn miðað við raunverulega stöðu mála núna: Eignarhaldsfélög séu oft notuð hér á landi til að fela tekjur og gróða, til dæmis með því að láta þau standa undir útgjöldum sem ættu að réttu lagi að teljast til einkaneyslu eigendanna, eða með því að færa tekjur „rekstrarfélagsins“ (sem eignarhaldsfélagið á) sem „arð“. Þá kemur nefnilega til skjalanna 11. grein laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, en þar segir meðal annars stutt og laggott:
Arður af eigin hlutum eða hlutabréfum telst hvorki til tekna né gjalda hjá hlutafélagi eða samlagshlutafélagi.
Þetta ákvæði skattalaga er stórfurðulegt í mínum augum því að merking orðsins „arður“ er ekki greypt í stein. Þess vegna er vandalaust að taka hvaða fjármagnstekjur sem er og kalla þær „arð“ og þær verða þá sjálfkrafa skattfrjálsar. Ég er hræddur um að „hátekjulisti“ Heimildarinnar mundi líta talsvert öðru vísi út ef þessu væri breytt. Það er greinilega brýnt að vanda miklu betur betur til löggjafarinnar um þessi fyrirbæri til að koma í veg fyrir stórfellda vanhugun sem kemur niður á almannahag. Hér er að sjálfsögðu ekki um smáaura að ræða.
-
Margar fleiri leiðir mætti nefna til að efla fjárhag ríkis og sveitarfélaga hér á landi, svo sem hátekjuskatt og stóreignaskatt sem hafa verið til umræðu. Svo minni ég á að Halldór Laxness gaf á sínum tíma hárbeitta lýsingu á „Faktúrufölsunarfélaginu (FFF)“ sem hann kallaði svo (Atómstöðin, 3. kafli) og aðferðir þess eru enn að birtast okkur, til dæmis í tengslum við arfsuppgjör manna sem hafa auðgast af innflutningi, væntanlega með aðferðum FFF. En reynslan sýnir okkur ótvírætt að „eftirlitsiðnaðurinn“ er sannarlega nauðsynlegur hvað sem líður kreddum stjórnmálanna eða óskhyggju manna sem vilja fá að starfa í myrkri.
Nú kunna sumir lesendur kannski að halda að ég sé hér að tala um smáupphæðir sem séu lítilvægar í heildarfjárhag ríkissjóðs, en svo er ekki. Niðurstöðutala fjárlaga á þessu ári er um 1400 milljarðar króna. Auðlindagjald á kvótagróða gæti til dæmis hæglega numið 25 milljörðum, en tekjuskattur mundi líklega lækka eitthvað á móti. Ef fjármagnstekjuskatti væri breytt til jafns við almennan tekjuskatt og útsvar gætu tekjur ríkis og sveitarfélaga hækkað til dæmis um 50 milljarða. Áhrif strangari ákvæða um eignarhaldsfélög liggja ekki fyrir en allt bendir til að þau mundu reiknast í tugum eða hundruðum milljarða. Stóreignaskattur og hátekjuskattur mundu líka verða í sama stærðarþrepi, þannig að við erum alls að tala um fjárhæð sem gæti hæglega orðið á bilinu 200-300 milljarðar króna. Það munar um minna.
Ég vona að lesendur sjái að hér er mikið í húfi. Ég hef sýnt fram á að ýmsir möguleikar til tekjuöflunar hins opinbera eru vannýttir. Auk þess er hlutfall tekna hins opinbera af landsframleiðslu til muna lægra hér en á hinum Norðurlöndunum. Við höfum því góð spil á hendi til að efla innviðina í íslensku samfélagi og bæta um leið raunveruleg lífskjör án þess að auka um leið álögur á þá sem minnst hafa milli handa. Notum tækifærið! Það er núna á næstu árum!
Keisarinn er ekki í fötum. Við þurfum að finna honum ný föt svo að hann þoli dagsbirtu!
Hvenær er komið nóg ?
Hátekjuskattur á almenn laun er 46.25%, það verður varla farið hærra. HInsvegar gildir annað um útgerðina. Samherji greiðir 1.7 milljarð í tekjuskatt af 8.1 milljarðs tekjum eða um 14%. Verkamaður mundi greiða af sömu tekjum um 46% eða um 3.7 milljarða. Hér munar ekki litlu. Eignaskattar eru bara eignaupptaka, eitt og sér gefur timbur og steypa ekkert af sér. Noregskonungar lögðu bara skatt á hreinar tekjur, síðan tók kirkjan uppá því að leggja skatta á stokka og steina. Alræmdast var sala aflátsbréfanna sem leiddi til klofnings innan kirkjunnar. Í dag er komin upp ný tegund aflátsbréfa, t.d. hefur íslenska ríkið keypt þau fyrir 100 milljónir af Slóvakíu, einu spilltasta ríki álfunnar.