Ég vakna með orðið bláhvalur á vörunum, það liggur þarna eins og sönnunargagn sem einhver hefur komið fyrir á vettvangi glæps.
Þú kallaðir þá alltaf bláhvali frekar en steypireyðar, kannski út af því að þú hafðir mætt þeim á heimavelli, horft í augun á þeim.
Bláhvalir voru stærsta dýrategund í sögu jarðarinnar.
Þeir gátu orðið svona stórir því þeir þurftu ekki að eiga við þyngdarafl á þurru landi, þú sagðir mér það einu sinni, í öðru lífi, þegar við gátum enn verið hér saman. Það var áður en þið gerðuð þá uppgötvun að með hverju útdauðu dýri hyrfi ein tilfinning.
Þú sagðir mér að í hafinu hafi verkað kraftar á bláhvalina bæði að ofan og neðan en á landi vegur ekkert á móti þyngdaraflinu, á landi gætu jafnstór dýr ekki borið sig uppi, beinin myndu brotna.
„Er til óendanleg ást, sem engir neikvæðir kraftar verka á?“
Ég setti fram þá kenningu að ástríða þín fyrir köfun væri drifin áfram af því sama og laðaði forfeður bláhvalanna aftur ofan í undirdjúpin. Þú kafar svo þú getir vaxið áfram, svo kraftarnir sem verka á okkur og eru stundum kallaðir hversdagsleiki – svo þeir kraftar myndu ekki kremja í þér beinin.
Stundum hékk þessi spurning á milli okkar: Er til óendanleg ást, sem engir neikvæðir kraftar verka á?
Kannski í kuldanum hjá þér, svara ég nú sjálfum mér, kannski þegar þú kafar ofan í djúpin eftir útdauðri tegund, eins og ég reyni nývaknaður að kafa ofan í svefninn eftir ljósfælnum draumi.
Þeir sitja alltaf eftir á botninum.
Ég sé í besta falli bjagaða speglun af einhverju sem gæti hafa verið stærsta tilfinning í sögu jarðarinnar.
Dýrslegur söknuður, blár eins og hvalirnir sem vildu umfram allt bara ekki láta kremja sig.
Athugasemdir