Í maí á síðasta ári sat ég í sófanum heima hjá mér og dottaði yfir fréttastöðinni Sky News. Það hlaut að vera lítið í fréttum því sýnt var beint frá ræðu sem þáverandi innanríkisráðherra, Suella Braverman, hélt á rislítilli samkomu breska Íhaldsflokksins. En skyndilega barst skarkali úr salnum. Ráðherrann þagnaði. Myndavélin féll á áheyrendur.
„Hólí sjitt!“
Ég stökk upp úr sófanum. Klædd hvítri skyrtu og dragtarpilsi stóð móðir vinar tíu ára dóttur minnar og steytti hnefann. Ég greindi ekki hvað hún hrópaði að ráðherranum – eitthvað um börnin – en ekki liðu nema örfáar sekúndur áður en að jakkafataklæddir öryggisverðir stukku á hana og drógu hana út úr salnum með valdi.
Salurinn hló. Suella hélt áfram með ræðuna sína. Ég starði á sjónvarpið og gapti. Hvað fékk virðulega tveggja barna, miðaldra, millistéttarmóður frá Norður-London til að valda slíkum usla?
Hin raunverulega dánarorsök
Ella Kissi-Debrah væri nú tvítug hefði hún lifað. Ella fæddist í Suður-London. Hún var hraust barn og orkumikil, stundaði íþróttir, var lestrarhestur og hafði unun af tónlist.
Þremur mánuðum fyrir sjö ára afmæli sitt fékk Ella öndunarfærasýkingu. Sýkingin varð að þrálátum hósta og var Ella greind með astma.
Dag einn fékk Ella svo alvarlegt astmakast að hún missti meðvitund. Ella gekk undir fjölda læknisrannsókna en engar skýringar fundust á astma hennar.
Næstu tvö ár lagðist Ella þrjátíu sinnum inn á spítala vegna öndunarerfiðleika. Í febrúar 2013 fékk hún enn eitt astmakastið. Það reyndist banvænt. Ella lést þremur vikum eftir níu ára afmælið sitt.
Eftir andlát Ellu kom nágranni að tali við móður hennar og hvatti hana til að kanna hvernig loftgæðin hefðu verið í hverfinu nóttina sem Ella dó. Í ljós kom að mengun við fjölskylduheimilið var að jafnaði langt yfir löglegum mörkum. Á sama tíma skoðaði Stephen Holgate, prófessor við Háskólasjúkrahúsið í Southampton, andlát Ellu og tók eftir sláandi fylgni milli sjúkrahúsinnlagna Ellu og skyndilegrar aukningar á loftmengun. Hann sagði mjög líklegt að „ef ekki hefði verið fyrir ólöglega mikla loftmengun hefði Ella ekki dáið“.
Móðir Ellu fór þess á leit við breska dómstóla að dánarorsök Ellu yrði endurskoðuð. Árið 2020 komst dánardómstjóri að þeirri sögulegu niðurstöðu að mengun hefði dregið Ellu Kissi-Debrah til dauða. Var það í fyrsta sinn í heiminum sem loftmengun var formlega tilgreind sem dánarorsök á dánarvottorði.
Minnkandi eftirspurn
Í vikunni var tilkynnt um að fjöldi breskra spítala hygðist bæta inn í sjúkraskrár upplýsingum um loftmengun við heimili sjúklinga. Er aðgerðin liður í að bregðast við þeim heilsufarslega miska sem loftmengun veldur. Var andlát Ellu kveikjan að breytingunni.
Sama dag mátti lesa frétt þess efnis frá Svíþjóð að fyrirtækið Northvold, sem rekur stærstu verksmiðju í Evrópu sem framleiðir rafhlöður í rafbíla, hygðist leggja niður stóran hluta starfsemi sinnar. Var ástæðan minnkandi eftirspurn.
Sífellt koma í ljós nýjar hliðar á þeim skaða sem losun gróðurhúsalofttegunda veldur. Ýmislegt bendir þó til þess að það hrikti í staðfestu okkar til að draga úr þeim skaða.
Það var af þeim sökum sem móðir vinar dóttur minnar gekk til liðs við hóp umhverfisverndarsinna sem kalla sig „Extinction rebellion“ og bar ábyrgð á að hátíðarræða innanríkisráðherra Bretlands var trufluð.
Í sumar voru fimm breskir umhverfisverndarsinnar dæmdir til óvenjulangrar fangelsisvistar fyrir að stöðva bílaumferð með umhverfismótmælum sínum. Þeirra á meðal var Roger Hallam, meðstofnandi „Extinction rebellion“, sem hlaut þyngstu refsingu sem veitt hefur verið í Bretlandi fyrir friðsamleg mótmæli, fimm ára fangelsi.
En eru fimmmenningarnir, mamma vinar dóttur minnar, raunverulega sökudólgarnir?
Framtíðin er handan hornsins, hún er sest í dómarasætið og við erum sakborningar. Þótt súffragetturnar, sem börðust fyrir kvenréttindum í Bretlandi, og Nelson Mandela, sem barðist gegn kynþáttaaðskilnaði í Suður-Afríku, hafi dúsað í fangelsi eru það ekki þau sem við áfellumst í dag.
Athugasemdir