Tugir skriðjökla falla frá megin jökulskjöldum landsins, hver einasti með flóknu vatnsrásakerfi. Það er virkt allan ársins hring en þó virkast á leysingartímabili sem ræðst af legu jöklana, árferði og ákomu, sumarhitum, vindafari og fleiru. Sumir jöklanna eru bungumyndaðir og fremur hallalitlir en aðrir brattir og úfnir með ísturnum og ísþilum. Á yfirborði neðan til á jöklunum er hluti af vatnsrásarkerfinu áberandi, lækir og lóðréttir svelgir (stór göt). Sumir svelgir eru þurrir og geta náð niður í urðina undir ísnum. Aðrir tengjast hallandi ísgöngum inni í jöklunum. Í jökuljöðrum opnast vatnsrásir, gjarnan með jökulís í gólfi eða vatni, sem er lagt ís á vetri og vori. Svelgir geta legið í láréttri stöðu fremst í jöklum. Öll eru holrýmin misaðgengilegir íshellar. Eftirsóttir sem eins konar ævintýri á gönguför, langflestir í Vatnajökli, Mýrdalsjökli og Langjökli.
Jöklar hreyfast
Allir mældir skriðjöklar á Íslandi hopa, nema Gígjökull í Eyjafjallajökli sem jafnar sig eftir mikið afnám í gosinu 2010. Hopandi skriðjökultunga er sandborin og þar eru sprungur, svört drýli, svelgir og hellar. Fyrirtæki bjóða til fróðlegra gönguferða með réttum búnaði en viðskiptavinir reynast afar misreyndir. Flestir hafa aldrei stigið á jökul. Fæstir jöklafara vita að ísinn hreyfist fram á hverjum degi, þrátt fyrir að jökullinn styttist. Ísinn hnoðast og afmyndast hið innra og þumlungast um leið í heild (í ísstraumum) ofan á undirlaginu. Skriðhraði bratts jökuls getur verið a.m.k. 1-2 m á dag en ís í nærri lítt hallandi jökulsporði mjakast um t.d. 10 til 20 cm á dag. Sprungur hreyfast, svelgir afmyndast og innri spenna nístir veggi íshella. Stundum heyrast hvellir brestir eða drunur ef ís hrynur í nágrenninu.
Hætta í jöklaferðum
Vinsælir skriðjöklar eru afar ólíkir öðru göngulandi og viðsjárverðir, einkum sumarlangt, þó ekki væri nema fyrir hálkuna. Misdjúpar sprungur gapa á gönguleiðum, allt að tuga metra djúpar ofarlega í jöklum, en víða mun grynnri neðar. Bláendar jökla eru hins vegar sums staðar ótrúlega sléttir. Íshryggir liggja víða samsíða áberandi sprungunum. Í brattari hlutum skriðjökla (þangað er ekki farið með göngufólk) eru valtir ísturnar og ísþil sem vilja hrynja fram með jakaflóði og jafnvel snjóflóði. Bráðnun rýrir þök íshella og oftast sést ekki á yfirborði hve þunn þau geta verið. Helst er að sjá léttvægar ísspangir í bláenda skriðjökuls eða brúnum svelgja. Inni í íshellum geta verið íslagðar tjarnir, jafnvel straumvatn. Þar getur kvikugas líka verið viðsjált enda ýmsir íshellar á jarðhitasvæðum.
Hættumat á jökli
Jöklagöngur eru mishættulegar, allt eftir aðstæðum og árstíma. Þá er ekki átt við tækjaklifur (nema til gamans) eða ferðir á háfjöll með jöklum eða þveranir stóru jöklana, heldur göngur með ferðahópa sem vilja kynnast jöklum. Hættumat fer ekki fram með vísindalegum aðferðum og mælitækjum. Það er sjónrænt. Helst er að reyndir leiðsögumenn (skv. öryggisáætlun fyrirtækja) skimi fyrirhugaða leið, reyni að meta efnislega stöðu íssins við slóðina, gá að losaralegum blokkum eða spöngum, sprungum og vatnsgildrum á gönguleið. Þetta er brigðult mat með verulegri óvissu, t.d. miðað við hraunhellaferðir þar sem steinblokkir í lofti eru nokkuð vel greinanlegar eða þá að losa má jafnan um þær og láta falla. Plastískur jökulís er ekki eins gæfur.
Fjölþætt útivistarleiðsögn og löng reynsla
Sannarlega er gott að margs konar og fjölþætt útivistar- og náttúruleiðsögn skuli vera í boði hér á landi. Til viðbótar eru svo ferðir fjallamanna á eigin vegum, hvort sem eru leiðangrar, klifurferðir eða öku/gönguferðir um jöklana. Margir hafa ára- og áratuga reynslu að læra af, þeirra á meðal ég, líka sem leiðsögumaður fyrr á árum, aðallega áður en leiðsögn varð atvinnugrein og menntun hófst þar að lútandi. Eðli ferða á jöklum er mismunandi, þó ekki væri nema vegna ólíkra lengda, krefjandi aðstæðna og markmiða; allt frá 2 klst. göngum á mannbroddum og stuttra námskeiða í öryggi á jöklum, upp í margra daga ferðir um jökla eða langar klifurferðir á einstaka hátinda.
Nokkur reynslubundin atriði
Mín reynsla af jöklaferðum og jökla- og ísklifri, og þekking á jöklum sem jarðvísindamaður, er á þá lund að:
1. Háfjallaferðir um sprungna jökla t.d. Öræfajökul, Hrútfjallstinda, hluta Snæfells, víða í Esjufjöllum, Þverártindsegg og fleiri staði, ýmist með leiðsögn eða á eigin vegum, eru ekki ráðlegar á miðju sumri og eitthvað fram eftir hausti.
2. Jöklagöngur á tiltölulega úfnum, bröttum skriðjöklum eða ísklifurferðir í falljöklum ættu ekki að eiga sér stað á helsta leysingartíma – öðru máli gegnir um tiltölulega slétta/mishæðótta skriðjökla með réttum búnaði og leiðsögn.
3. Hellaferðir í stórum hjarnfönnum á háhitasvæðum (sbr. Kerlingarfjöll eða Hraftinnusker) eru ekki ráðlegar nema í köldum mánuðum.
4. Ferðir í íshella í skriðjöklum eru alltaf varasamar. Þær eru meðal hættulegustu iðju á jökli og einfalt sjónmat á hrunhættu harla brigðult. Hættulegustu mánuðina má telja frá maí/júní fram yfir sept/okt, einkum á jöklum í lítilli hæð yfir sjávarmáli.
Til umræðu og ákvarðana
Um íshellaferðir þarf að setja strangari reglur – ekki banna þær fremur en margs konar afþreyingu á eigin vegum og ábyrgð. Meðal þess sem þarf að fara yfir og setja um reglur eru m.a. takmörkuð tímabil til íshellaferða, stærðir hópa, viðmið aldurs/getu og skýrar skráningar þátttakenda. Staðla þarf enn betur kunnáttu og þekkingu leiðsögumanna, kanna ávallt íshella fyrir ferðir ofl. Öryggisáætlanir ferðaþjónustufyrirtækja eiga að liggja fyrir, vera metnar og samþykktar og eflaust þyrfti visst eftirlit, t.d. með slembivali.
Til viðtækrar umræðu eru svo fleiri atriði. Nefna má enn bættari menntun til leiðsagnar og réttindavernd leiðsegjenda. Einnig frekari skiptingu hálendisleiðsagnar og þá meðal annarshvort hér verði tekin upp skipting fjallaleiðsögumanna í það sem nefnist (nota þýska viðmið Alpasambandsins - DAV og austurríska ÖAV): Trekking/Wanderführer og svo Bergführer. Leiðsögumenn þar eru merktir „staatlich geprüft”, þar eð að segja hafa lokið námi og eru prófaðir skv. ríkisviðmiði. Þetta er hægt að taka upp án þess að lögvernda starfsheitið (sem verður auðvitað líka að ræða). Annað er svo hvort ákveðnar tegundir ferða séu tilkynningaskyldar (til dæmis erfiðar hálendisferðir, ekki á vegum fyrirtækja) og tilteknar ferðir skuli vera með fullgildum leiðsögumanni og þá jafnvel gildandi um mjög breitt svið ferða, meðal annars í þjóðgörðum. Fjögur dauðaslys í íshellum eru sterkur hvati til endurskoðunar á fyrirkomulagi fjalla- og jöklaferða.
Athugasemdir