Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

Að þéra eða þúa

Með­an Mar­grét Þór­hild­ur var þjóð­höfð­ingi Dana var það ófrá­víkj­an­leg regla að hún skyldi þér­uð, Deres maj­estæt, nema í þröng­um hópi fjöl­skyldu og ná­inna vina. Eft­ir að son­ur­inn Frið­rik tók við krún­unni hef­ur það flækst fyr­ir mörg­um hvernig ávarpa skuli kóng­inn og sama gild­ir um drottn­ing­una Mary.

Fræg er sagan af því þegar viðvaningur í fréttamannastétt notaði orðið ,,du“ á fréttamannafundi í tilefni af 75 ára afmæli drottningar árið 2015. Áður en hann gat lokið spurningunni greip drottningin fram í og sagði ,, undskyld, jeg tror ikke vi har gået i skole sammen“, fréttamaðurinn endurtók spurninguna en gætti þess vel að þéra drottninguna. Þótt Margrét Þórhildur sé ekki lengur þjóðhöfðingi Danmerkur tekur hún áfram þátt í ýmsum viðburðum, setti meðal annars formlega hina árlegu hátíðarviku í Árósum (Aarhus Festuge) 30. ágúst sl. Og er enn ávörpuð á sama hátt og áður, ekkert „du“ þar.

Þetta endurtökum við 

Árið 2010 heimsótti Jóakim prins, yngri sonur Margrétar Þórhildar, skólaskipið Danmark. Þar spurði ungur fréttamaður: „Hvaða þýðingu hefur skólaskipið fyrir þig?“ Jóakim svaraði: „Þetta endurtökum við“  og fréttamaðurinn sem hélt að prinsinn hefði ekki heyrt spurninguna endurtók hana og svar prinsins var hið sama. „Ég ætti kannski að færa mig,“ sagði fréttamaðurinn. Þá brosti prinsinn og sagði: „Ég segi ekki þú“ og þá áttaði fréttamaðurinn sig og baðst afsökunar á að hafa ekki þérað prinsinn. Mörgum Dönum þótti þessi framkoma Jóakims bera vott um hroka og hann mátti lengi una því að í augum almennings var hann neðstur á „vinsældalista“ fjölskyldunnar á Amalienborg.

„Ég segi ekki þú“Jóakim prins hefur bæði verið þéraður og „þúaður“ og kunnað bæði vel og illa við það.

Árið 2019, níu árum eftir uppákomuna á skólaskipinu, sýndi danska sjónvarpið, DR, þáttaröð um sögu Danmerkur. Jóakim prins var sögumaður í þáttunum og þar var hann dus við alla þátttakendur. Þremur árum síðar, árið 2022, var prinsinn gestur í Aftenshowet, spjallþætti DR. Stjórnandinn hafði búið sig undir að þéra gestinn en öllum á óvart spurði Jóakim hvort þeir væru ekki bara dús ,,ej, skal vi ikke være dus“.

Eftir að þættinum lauk stoppaði ekki síminn hjá þáttastjórnandanum Kristian Ring-Hansen Holt. Kollegar hans vildu fá að vita hvernig honum hefði tekist að fá leyfi til að þúa prinsinn, og urðu hissa þegar þeir heyrðu skýringuna. Fjölmiðlarnir skrifuðu líka um þessa skyndilegu breytingu hjá Jóakim prins og komust flestir að þeirri niðurstöðu að hann væri með þessu að stíga niður af stallinum, eins og það var orðað, og færa sig nær fólkinu, meira í stíl við framkomu bróður síns, krónprinsins þáverandi. 

Þér og þú

Fyrir ca 70 árum síðan var venja að þéra fullorðna, aðra en kunnuga eða skyldmenni og undantekningarlaust eldra fólk. Árið 1955 lagði Jafnaðarmannaflokkurinn, Socialdemokratiet, til að þérun yrði lögð af. Í auglýsingaherferð í blöðum og tímaritum voru rökin fyrir breytingunni sögð þau að afnema þann þjóðfélagslega mismun sem í þéruninni fælist. Hægt og rólega lagðist þérunin af en lengi vel tíðkaðist þó að þéra ráðherra. Jens Otto Krag var síðasti forsætisráðherrann sem var þéraður, Anker Jørgensen, sem tók við af Krag árið 1972, tók ekki í mál að vera þéraður, og nú heyrir þérun nánast sögunni til. Í viðtali við dagblaðið Politiken fyrir nokkrum dögum sagði Emma Rønberg Paaske að í einni tiltekinni verslun, Perchs Thehandel í Kaupmannahöfn, væri henni alltaf boðinn brjóstsykur með orðunum ,,vil De have et bolsje?“  ,,Mér finnst þetta alltaf jafnskrýtið,“ sagði sagði Emma Rønberg Paaske.

Breyttir tímar, líka hjá hirðinni

Hinn 14. janúar á þessu ári urðu þjóðhöfðingjaskipti í Danmörku, Margrét Þórhildur afsalaði sér krúnunni til krónprinsins, sem varð þar með kóngur. Sumarið er iðulega sá árstími sem þjóðhöfðinginn ferðast um ríki sitt og sækir ýmsa viðburði stóra og smáa. Meðal viðburða sem konungshjónin Friðrik og Mary sóttu voru Ólympíuleikarnir í París. Eftir því var tekið að kóngurinn lét ekki handaband og klapp á öxl duga þegar hann óskaði Mikkel Hansen og Nikolaj Jacobsen til hamingju, hann tók þétt utan um þá, þeir fengu þétt faðmlag (bjørnekrammer, sem er meira en krammer). Við fleiri tækifæri á Ólympíuleikunum höfðu konungshjónin spjallað á léttum nótum við danska keppendur og áhorfendur. Þegar fréttamaður danska útvarpsins ræddi við Friðrik og badmintonspilarann Viktor Axelsen (sem vann gullverðlaun í einliðaleik karla) notaði hann ,,du“, en síðar í viðtalinu þéraði fréttamaðurinn kónginn. Þarna var kóngurinn, í stuttermabol, ekki í hinu dæmigerða þjóðhöfðingjahlutverki, heldur meðal landa sinna að gleðjast yfir góðum árangri danskra keppenda.

Yðar hátign?Eftir að Friðrik X tók við krúnunni í Danmörku hefur það flækst fyrir mörgum hvernig ávarpa skuli kónginn og sama gildir um drottninguna Mary.

Eftir aðstæðum þér eða þú

Friðrik er um margt ólíkur Margréti Þórhildi móður sinni. Í sjónvarpsþættinum Prins Christian – en kongelig rejse, sem sýndur var haustið 2023 fór prinsinn með föður sínum, sem þá var krónprins, í ferð um landið. Prinsinn var að verða 18 ára og því fylgja ýmsar skyldur, sem jukust vitaskuld þegar hann varð krónprins. Á ferðalaginu var ekki þérað þótt þeir feðgar hefðu meðal annarra hitt, og rætt við, þingmenn, hæstaréttardómara, ráðherra og biskup.

Thomas Larsen, blaðamaður og sérfróður um konungleg málefni og fjölskylduna á Amalienborg, telur að konungshjónin og sérílagi Friðrik verði að halda eins konar tvöfalt bókhald. Annars vegar það alþýðlega sem danska þjóðin þekki vel og hins vegar hið formlega. Það sé ekki það sama hvort kóngurinn sé meðal áhorfenda á fótboltaleik eða að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum eða við önnur hátíðleg tækifæri. Thomas Larsen telur að Friðrik verði ekki í vandræðum með að halda þessum boltum báðum á lofti, eins og hann komst að orði.

Thomas Larsen nefndi enn fremur í viðtali fyrir skömmu að nú væri senn að hefjast hin árlega hátíðarvika í Árósum (30. ágúst til 8. september).  Margrét Þórhildur setur hátíðina og „það er öruggt að þar verður þérað en ekki þúað“ sagði Thomas Larsen.

Kjósa
22
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Ásgeir Överby skrifaði
    Hér var líka þérað fram eftir miðri öld. Ennþá tíðkast þéringar, t.d. ef maður vill gefa í skyn að frekari kynna sé ekki óskað.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár