Á Íslandi búa tvær þjóðir. Sú sem hamast í þeytivindunni alla daga til þess að ná endum saman fyrir mánaðamót, og svo sú sem er undanskilin krónuhagkerfinu og kollsteypum lélegrar hagstjórnar. Annar hópurinn spannar meginþorra þjóðarinnar, allt frá lágtekju- yfir í milli- og jafnvel hátekjufólk. Þetta eru breiðu bökin. Fólkið sem tekur skellinn af okurvöxtunum og verðbólgunni. Svo er það tekjuhæsti hópurinn. Vissulega ekki einsleitur hópur en við getum ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að innan hans lúra þeir sem maka krókinn á einkaafnotum af auðlindum þjóðarinnar. Þaðan sprettur auðurinn og þar eru þeirra forréttindi. Þetta er meðvituð ákvörðun og skipulagt forskot. Sem stjórnmálamenn gömlu flokkanna viðhalda og neita þannig þjóð sinni um réttlátan ávinning af eigin auðlindum.
Séríslensk staða
Þetta er svo sem ekki endilega séríslensk staða. Stéttaskipting fyrirfinnst í flestum samfélögum. En það sem er séríslenskt er þessi þungi róður venjulega og vel menntaða fólksins. Millitekjuhópsins. Til þess eins að eiga séns í íslensku samfélagi. Við búum við ævintýralega ruglað vaxtaumhverfi sem á sirka tíu ára fresti fer út í algjöra vitleysu með tilheyrandi tjóni og ófyrirsjáanleika fyrir heimili og atvinnulíf. Þetta óstöðuga umhverfi bitnar á almenningi, fyrirtækjaeigendum og ríkinu.
Í vikunni „fagnar“ ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar árs afmæli 9,25% stýrivaxta í íslensku samfélagi. Verðbólgan hér er meiri og viðvarandi en í samanburðarlöndunum.
Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni
Hin venjulega íslenska fjölskylda rær þungan róður um þessar mundir. Miklu þyngri en hún þyrfti að gera. Við erum að tala um fólk sem í raun gerði allt rétt. Lék leikinn samkvæmt öllum helstu leikreglum samfélagsins. En þarf svo að lifa við svimandi hátt matvælaverð og sligandi greiðslubyrði lána.
„Það er óeðlilegt og beinlínis rangt að bara sumir hafi þetta forskot í krafti óréttláts kerfis“
Ríkisstjórnin vinnur ekki fyrir almenning. Ríkisstjórnin stendur alltaf og fyrst og fremst vörð um sérhagsmuni sinna bakhjarla. Nýleg dæmi sýna það. Þess vegna má ekki hrófla við neinum kerfum. Ekki með auðlindaákvæði í stjórnarskrá, ekki við gjaldmiðilsmálunum, ekki við samkeppnismálum. Ef það eru einhverjar minnstu líkur á að hægt sé að skapa sátt og sanngirni í íslensku samfélagi þá stendur ríkisstjórn sérhagsmunanna á móti því. Að sjálfsögðu viljum við að atvinnulífið blómstri. Að frumkvöðlastarf dafni. En það er óeðlilegt og beinlínis rangt að bara sumir hafi þetta forskot í krafti óréttláts kerfis og í skjóli pólitískra flokka og þeirra ákvarðana. Sleifarlag stjórnvalda á ekki að bitna á almenningi.
Skökk og bogin samfélagsgerð
Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að það er eitthvað skakkt og bogið við samfélagsgerðina okkar. Þrátt fyrir alla okkar velsæld, hagsæld, hagvöxt, eða hvaða hugtak sem ráðamenn þessarar þjóðar vilja draga upp úr hattinum til að villa um fyrir venjulegu fólki, þá finn ég í samtölum mínum við fólk um allt land að það upplifir ekki þennan léttleika tilverunnar. Fólk lýsir því þvert á móti hvernig róðurinn þyngist og þyngist, mánuð fyrir mánuð, ár eftir ár. Sama hversu mikið það hamast. Það ætti því að vera okkar helsta markmið – og okkar eina verkefni – að vinna statt og stöðugt að því að létta róðurinn fyrir fólkið í landinu. Það á ekki að vera lögmál að hér búi tvær þjóðir. Sú sem segir sig frá almennum leikreglum og sú sem spilar eftir þeim. En til þess þarf almenningur að kjósa sig frá kyrrstöðunni í átt að breyttum áherslum. Viðreisn er eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur lýst sig reiðubúinn til að taka þann slag. Fyrir alla Íslendinga, ekki bara suma.
Athugasemdir