Konurnar í láglaunastörfunum eru til dæmis konurnar sem annast aldraða og sjúka á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, taka á móti börnunum á leikskólunum, ræsta vinnustaðina og halda uppi stórum hluta velferðarþjónustunnar.
Þrátt fyrir mikilvægi og nauðsyn þeirra starfa sem láglaunakonur sinna, sýnir nýútgefin skýrsla Vörðu, ásamt fræðikonum við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, verri fjárhagsstöðu þeirra samanborið við aðrar konur. Hærra hlutfall þeirra hefur minna en 100.000 krónur til að reka heimili sitt, eftir að þær eru búnar að greiða alla reikninga sína, eiga erfitt með að ná endum saman og búa við efnislegan skort. Þær hafa í meiri mæli þurft að neita sér um að sækja menningarviðburði, fara í klippingu á hárgreiðslustofu og um nauðsynlegan fatnað svo sem úlpu eða vetrarskó og þurft að sleppa því að borða til þess að börn þeirra fái mat. Staða kvenna á lágum launum á húsnæðismarkaði er einnig gjörólík þeirra sem eru með hærri laun þar sem þær eru mun líklegri til að vera í húsnæði á almennum leigumarkaði.
Minna bakland, verri heilsa
Konur á lágum launum eiga líka að jafnaði minna félagslegt bakland. Könnunin sýnir að skýr munur er á milli kvenna á lágum launum og konum á hærri launum hvað varðar fjölda einstaklinga sem þær eru nánar að undanskildum þeim sem þær búa með. Þær hafa færri til að leita til ef þær þurfa skyndilega hóflega peningaupphæð að láni og sama á við um barnapössun ef þær þurfa nauðsynlega að skreppa frá í einn til tvo daga.
Mun hærra hlutfall kvenna í láglaunastörfum mælist með klínískt þunglyndi, kvíða og streitu
Ítrekað hefur í rannsóknum Vörðu komið fram að konur búa við verri andlega og líkamlega heilsu samanborið við karla. Þegar andleg heilsa er skoðuð meðal kvenna eftir launum sést að mun hærra hlutfall kvenna í láglaunastörfum mælist með klínískt þunglyndi, kvíða og streitu. Líkamlegt heilsufar þeirra er einnig verra.
Búa við verstu andlegu og líkamlegu heilsuna
Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins var stofnuð af ASÍ og BSRB árið 2020 til að efla þekkingu á vinnumarkaði og stöðu launafólks með það að markmiði að styrkja stefnumótun á sviði vinnumarkaðs- og velferðarmála. Ár eftir ár hafa niðurstöður rannsókna Vörðu sýnt að einstæðir foreldrar, innflytjendur og öryrkjar eru þeir hópar sem búa við kröppust kjör, óöryggi á húsnæðismarkaði og verstu andlegu og líkamlegu heilsuna og nýjasta rannsóknin sýnir að láglaunakonur falla í sama hóp. Upplýsingar um hvar skórinn kreppir eru því nægar. Það má því velta fyrir sér ábyrgð stjórnvalda, sem reka velferðarkerfið á afsláttarkjörum á kostnað láglaunakvenna, með allar þessar upplýsingar um alvarlegar afleiðingar þessa rangláta fyrirkomulags.
Niðurstöðurnar sem fjallað er um í greininni eru aðgengilegar í skýrslunni: Ójöfnuður meðal kvenna í íslensku samfélagi, 2024.
Athugasemdir