„Ég kynnist Guðrúnu Karls Helgudóttur og við förum að tala saman um góðar hugmyndir um framtíð kirkjunnar og úr verður að ég hoppa þarna inn með henni, tímabundið þó.“
Þetta segir Heimir Hannesson, nýr samskiptastjóri þjóðkirkjunnar, í samtali við Heimildina. „Það er bara frábært að vinna hjá þjóðkirkjunni. Bjartur andi. Það er ekki á mörgum stöðum þar sem maður fær að skipuleggja biskupsvígslu, við getum orðað það þannig,“ segir hann kíminn.
Kynntist biskupi í aðdraganda biskupskjörs
Heimir tók þátt í kosningabaráttu Guðrúnar Karls Helgudóttur, nýkjörins biskups, og það var í aðdraganda hennar sem þau kynntust.
Spurður hvernig hann hafi endað á því að starfa fyrir kosningabaráttu í biskupskjöri segir Heimir að það sé góð spurning. „Þetta er bara gamla íslenska maður á mann.“ Hann bætir því við að ekki margir bjóði sig fram til biskups og ekki heldur margir sem hafi einlægan áhuga á að taka þátt í kosningabaráttu til að koma áherslumálum sem þeim þyki vænt um til skila.
„En það var ekki bara ég, heldur var hópur sem taldi örugglega upp undir 100 manns að baki Guðrúnu. Ég var nú bara einn af þeim.“ Um var að ræða sjálfboðaliðastarf.
Markmið að koma starfi kirkjunnar betur til skila til almennings
Heimir segir að hlutverk hans verði að móta stöðu samskiptastjóra í breyttum heimi samskipta. Staðan hafi verið til innan kirkjunnar áður en nú verði hún í dálítið breyttri mynd.
„Það er náttúrulega allt annar gangur í samskiptamálum í dag en var fyrir örfáum árum. Þetta breytist svo hratt. Það er verið að nota svolítið þetta tækifæri með þessari tímabundnu ráðningu að móta það starf sem verður til eftir ár,“ segir hann.
Blm: Þannig að þetta er eitthvað sem þið Guðrún hafið verið að pæla í – hvert þið viljið fara með þessa ákveðnu stöðu og þú ert þá fenginn inn til þess að leiða það dálítið til lykta?
„Já, einmitt,“ segir Heimir.
Markmiðið sé að auka sýnileika þeirra starfa sem kirkjan vinnur.
„Það er heilmikið að gerast í kirkjunni sem fólk veit ekki af eða heyrir lítið frá. Þannig að það er alveg kominn tími til þess að endurskipuleggja svolítið samskiptaferlana þannig að það verði auðveldara fyrir Guðrúnu og alla innan kirkjunnar að segja frá því hvað þeir eru að gera og fá fólk til liðs með sér í því.“
Kirkjan er að sögn Heimis stór hluti af samfélaginu en alltof hljóðlátur. „Markmiðið næsta árið hjá mér er að búa til strúktúr utan um samskiptamál kirkjunnar þannig að við getum betur komið þessu mikilvæga starfi til skila til almennings.“
Athugasemdir (1)