Formaður Rithöfundasambands Íslands segir að íslenskir höfundar vilji gjarnan að bækur þeirra séu aðgengilegar á Rafbókasafninu. Þeir séu hins vegar ekki handhafar hljóðbókaréttinda sinna nema í undantekningatilfellum.
Heimildin greindi frá því á dögunum að langir biðlistar væru eftir vinsælum titlum hljóðbóka hjá Rafbóksafninu en að íslenskar bækur séu almennt ekki aðgengilegar þar á hljóðbókaformi. Úlfhildur Dagsdóttir verkefnastýra safnsins sagði að notendafjöldi þess væri ekki nægur og að fjármagn skorti til að kaupa inn fleiri eintök og titla.
Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambandsins, segir það ekki standa á íslenskum rithöfundum að bækur þeirra fari á Rafbókasafnið. „Úlfhildur hefur látið í það skína að höfundar vilji ekki að bækur þeirra fari þarna inn,“ segir hún. „Ég kannast bara ekki við það og veit ekki betur en að allir höfundar séu áfram um það að þeirra bækur fari inn á öll bókasöfn.“
Hún segir hins vegar að fæstir íslenskir höfundar framleiði eigin hljóðbækur og að útgefendur sjái almennt um framleiðsluna en slíkt sé valkvætt í samningum við höfunda. „Höfundar geta haldið hljóðbókaréttindunum hjá sér og valið að framleiða ekki hljóðbækur eða gert það sjálfir. Það er hins vegar töluverð framkvæmd, þú gerir það ekkert heima hjá þér með símann þinn.“
Útgefendur fái almennt lítið frá safninu
Rafbókasafnið er samstarfsverkefni Borgarbókasafns Reykjavíkur og Landskerfis bókasafna og er með samning við bandarísku rafbókaveitunni Overdrive. Margrét segist sjálf vera notandi hjá safninu og að hún hlusti gjarnan á hljóðbækur þaðan. „Ég mundi svo gjarnan vilja að bækurnar mínar væru aðgengilegar þarna en það er bara ekki í mínum höndum,“ segir hún.
„Það er höfundum að meinalausu að þetta sé þarna inni“
Margrét segir fyrirstöðuna hafa verið hjá útgefendum. „Þeir hafa verið hræddir um, og kannski eðlilega, að þeir fái ekkert fyrir sinn snúð. Þeir fá almennt ekkert nema eitt bókverð fyrir hverja bók sem fer inn á bókasafn á meðan höfundar fá greiðslur úr Bókasafnssjóði. Þannig að það er höfundum að meinalausu að þetta sé þarna inni,“ segir hún.
Hvað varðar greiðslur fyrir útlán á Rafbókasafninu segir Margrét að almennt fái höfundar meira fyrir þau en fyrir streymi hjá áskriftarþjónustum eins og Storytel. Greiðslur fyrir útlán koma úr Bókasafnssjóði höfunda. „Fyrir skáldsögu í meðallengd þá hefur Bókasafnssjóður verið að koma betur út en Storytel og fyrir barnabækur og allt undir skáldsagnalengd kemur Bókasafnssjóður miklu betur út,“ segir hún.
Athugasemdir