Eftir þrjá daga, eða þann 10. ágúst, verður það magn sem hefur safnast fyrir af kviku orðið jafn mikið og síðast þegar gaus á Reykjanesi. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur segir að nú séu því yfirgnæfandi líkur á að það byrji að gjósa á allra næstu dögum.
„Magnið sem hefur safnast fyrir af kviku er að nálgast það sem var fyrir síðasta gos. Ef fram heldur sem horfir eru tveir til þrír dagar í að það nái sömu mörkum og í síðasta gosi. Þetta gæti þýtt að það byrji að gjósa 10. ágúst,“ segir Þorvaldur í samtali við Heimildina.
Komið að þolmörkum
En svo gæti gosið fyrr, segir hann, eins og sérfræðingar á Veðurstofunni hafi bent á. „Það er hægt að búast við gosi á hverri stundu, í raun og veru.“ Hins vegar sé það svo að ef það dragist meira á langinn aukist líkur á öflugra gosi. „Því þá er búin að byggjast upp meiri þrýstingur í hólfinu en verið hefur áður. Þá er hólfið að stækka líka en hingað til hefur það ekki getað tekið meira en 20 milljón rúmmetra og þegar það er komið á þann stað er það komið að þolmörkum. Þá hefur þakið yfirleitt rofnað og kvikan farið til yfirborðs þannig að ef það fer eitthvað fram yfir þetta má búast við öflugra gosi en við höfum séð, að minnsta kosti í byrjun,“ segir Þorvaldur.
„Að mínu viti eru engar líkur á að gos komi upp og byrji innan Grindavíkur“
Hann segir að ef ekki byrjar að gjósa fyrr en eftir eina til þrjár vikur gætum við verið að fá „eitthvað nýtt, aðra mynd sem gæti orðið erfiðari fyrir okkur.“ Byrjun gossins yrði þá öflugri, hraunflæði myndi vera meira. „Þá er erfitt að segja hvað gerist. En ég ítreka að yfirgnæfandi líkur eru á að það gjósi á allra næstu dögum og þá verður þetta endurtekið efni. Þá mun það byrja með látum í einn, tvo eða þrjá tíma og svo dettur það að mestu niður.“
Engar líkur séu á að gos komi upp innan Grindavíkur
Þorvaldur segir það muni að öllum líkindum gjósa á sömu slóðum og undanfarið. „Að mínu viti eru engar líkur á að gos komi upp og byrji innan Grindavíkur. Hraun getur auðvitað flætt þangað niður eftir. Hraunkvika getur líka flætt eftir sprungum eða gömlum hraunhellum í áttina að Grindavík og komið upp í grennd við bæinn eða inni í bænum eins og gerðist 14. janúar.
Það gæti endurtekið sig en ég held að það séu engar líkur á því að það komi upp kvika beint undir Grindavík,“ segir hann og bætir við að ef horft sé til framvindu eldgosa á Reykjanesi í þessari hrynu hafi öll gosin byrjað á svipuðum slóðum að gosinu 14. janúar undanskildu. „Veikleikinn í þakinu á henni virðist vera að austanverðu, það opnast og þá fer kvikan bara beint upp og í gíga sem byrja að gjósa. Síðan opnast þetta eins og blævængur til norðurs og suðurs.“
„Það er búið að koma sér í ákveðinn farveg og vill halda sig í honum“
Eina spurningin sé hversu langt suður og norður hún muni ná. „Hún hefur auðveldlega farið að Sundhnúk sjálfum. Í stöku tilfellum hefur hún farið lengra, austan við Hagafellið en hún virðist eiga erfitt með að komast mikið sunnar. Það virðist vera einhver fyrirstaða þarna rétt sunnan við Hagafellið sem veldur því að gossprungur eiga erfitt með að teygja sig mikið lengra en þangað. Ég veit ekki hvað það er en þannig hafa gosin hagað sér og meðan kerfið er að haga sér nákvæmlega eins núna sé ég enga ástæðu til að þetta verði ekki eins og áður. Af hverju ætti það að fara að breyta út af venju? Það er búið að koma sér í ákveðinn farveg og vill halda sig í honum“ segir Þorvaldur.
Athugasemdir